Opið bókhald og aðhaldið

Nú þegar líður að kosningum til sveitarstjórnar hefur örlað á áhugaleysi varðandi stjórnmálaþátttöku og síðustu ár hefur t.d. kjörsókn á Héraði verið lág. Ég tel það vera slæmt því einmitt núna ættum við að vera full af hugmyndum um það hvernig næstu ár í Múlaþingi ættu að vera.

Hvernig eigum við nota peningana okkar? Hvar þarf að byggja? Hvar þarf að gera við? Hversu marga kennara þarf að hafa í vinnu? Eru aldraðir að fá næga þjónustu? Er barnafjölskyldum nægilega sinnt vel? Hvernig stóðu menn sig í snjómokstrinum síðustu vetur? Eru börnin í vinnuskólanum nógu dugleg? Erum við með gott farsímasamband í sveitum? Erum við að fá næga þjónustu? Ertu sátt/ur við hvernig staðið var að sorphirðu síðasta árið? Eða uppbyggingu í fráveitumálum?

Hvaða tilfinningu höfum við fyrir þeim gjöldum sem sveitarfélagið innheimtir og erum við viss um að þeim sé vel varið? Hvernig fylgjumst við með slíku? Rekstur sveitarfélagsins er á ábyrgð sveitarstjórnar, sem við kjósum. Þó starfsfólk sjái um reksturinn frá degi til dags þá er það í höndum sveitarstjórnar að samþykkja skuldbindingar eins og lántökur, framkvæmdir, kaup og sölur á eignum eða að marka stefnur fyrir starfsfólk sveitarfélagsins til að vinna eftir. Hvort heldur sem er í fjallskilum eða málefnum leikskóla. Sveitarstjórn vinnur fjárhagsáætlun fyrir komandi ár en líka til fjögurra ára til að tryggja framtíðarsýn í rekstri sveitarfélagsins. Hún hefur eftirlitsskyldu að sinna þegar kemur að staðfestingu ársreiknings hvert ár. En þú hefur tækifæri á fjögurra ára fresti til að hafa áhrif á sveitarstjórnina með þráðbeinum hætti – þú getur valið hvaða fólki þú treystir til að sinna þessum verkefnum fyrir okkur.

En er það nóg? Að sjálfsögðu er hægt að tala við eða skrifa til sveitarstjórnarfulltrúa á kjörtímabilinu, mæta á borgarafundi og glugga í skýrslur sem koma út árlega. En það gefur okkur ekki tækifæri til að veita virkt aðhald í fjármálum Múlaþings. Á þessu er til lausn sem ríkið og nokkur sveitarfélög hafa tekið upp og er kallað opið bókhald.

Með opnu bókhaldi hjá Múlaþingi gæfist okkur íbúum aðgangur að fjárhagsupplýsingum sveitarfélagsins. Við sjáum greidda reikninga sveitarfélagsins og gætum séð nýlegar (staðfestar) tölur um tekjur og útgjöld sveitarfélagsins. Þannig gætir þú fengið tilfinningu fyrir því hvaðan tekjur sveitarfélagsins koma og í hvað þær renna. Persónuverndarskilyrðum yrði að sjálfsögðu fullnægt þannig að einstakir skjólstæðingar sveitarfélagsins þyrftu ekki að óttast að fjárhagsgögn sem þeim tengjast yrðu birt.

Opið bókhald auðveldar íbúum og fjölmiðlum að leita sér upplýsinga um fjölbreyttustu þætti í rekstri Múlaþings, til að geta greint þannig sjálf kostnaðarliði og tekjustofna sveitarfélagsins. Upplýsingar eru til alls fyrstar. Með aðgang að þessum upplýsingum erum við betur búin til að átta okkur á rekstri sveitarfélagsins, gera athugasemdir og veita sveitarstjórn aðhald.

Höfundur er sagnfræðingur og skipar 5. sæti Austurlistans í kosningunum 14. maí.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar