Opið bréf frá stjórn foreldrafélags Lyngholts til bæjarstjórnar og fræðslunefndar Fjarðabyggðar

Eins og flestum ætti að vera ljóst er staða starfsmannamála við leikskólann Lyngholt alvarleg. Þann 11.desember síðastliðinn hittust foreldrar barna við leikskólann ásamt Lísu Lottu Björnsdóttur leikskólastjóra og fóru yfir stöðu mála.

Staðan í leikskólanum

Eins og staðan var þann 11.desember vantar fjóra starfsmenn í 100% stöður til þess að halda starfinu gangandi án auka álags á starfsfólk. Um áramótin verður ráðningarleyfi leikskólans aukið um tvær stöður vegna veikindaafleysinga og vegna aukins undirbúnings starfsfólks. Af því leiðir að á nýju ári vantar starfsmenn í sex stöður.

Stöðugt hefur verið auglýst eftir starfsfólki síðan í mars og mikið samstarf hefur verið við Vinnumálastofnun en það hefur því miður ekki dugað til að fylla upp í þær stöður sem vantar í.

Þeir sem sækja um núna eru mestmegnis erlent fólk sem talar ekki íslensku en er tilbúið að flytja og hefja störf strax. Lísa Lotta Björnsdóttir leikskólastjóri hefur neitað fólki sem ekki hefur vald á íslensku um störf enda er hlutfall erlendra starfsmanna hátt og leikskólastjóri leggur áherslu á að börnin séu alin upp í íslensku málumhverfi. Liður í því er að þeir erlendu starfsmenn sem starfa við leikskólann fara í íslenskukennslu einu sinni í viku og er það fjármagn sem er ætlað í símenntun starfsfólks við leikskólann nánast eingöngu nýtt til íslenskukennslu erlendra starfsmanna.

Á undanförnum vikum hefur þurft að loka deildum og senda börn heim vegna manneklu. Er það gert til að gæta öryggis barnanna.

Stór partur af vinnudegi stjórnenda fer í það að reyna að finna gott starfsfólk fyrir leikskólann.
Mikil starfsmannavelta hefur verið í haust og starfsfólk er orðið langþreytt. Viðbygging, aukin starfsmannaaðstaða, aukin veikindaafleysing og aukinn undirbúningur eru allt jákvæðir hlutir en gerir mjög lítið ef ekki fæst starfsfólk. Leikskólastjóri staðfesti að uppsagnir í haust séu meðal annars vegna aukins álags og ef ekkert breytist má ef til vill búast við fleiri uppsögnum.

Leikskólastjóri hefur sett inn bæði mætingarbónus og álagsbónus til sinna starfsmanna, þeir sem mæta vel fá auka orlofsdaga. Þetta hafði jákvæð áhrif til að byrja með en langvarandi álag hefur áhrif.

Ekki er nægilegt starfsfólk til að sinna undirbúningi skólahóps fyrir komandi grunnskólanám svo vel sé og er faglegt starf með elstu börnunum ekki hafið á þessum skólavetri.

Staðan er hreinlega þannig að við leikskólann Lyngholt er starfrækt barnagæsla en ekki faglegt leikskólastarf.

Tillögur og spurningar foreldra til Fjarðabyggðar
• Kjarabætur fyrir starfsmenn leikskólans, eitthvað þannig að það sé aðlaðandi að starfa í Fjarðabyggð sem leikskólakennari.

o Þrátt fyrir kjarasamninga er ekkert sem segir að Fjarðabyggð geti ekki tekið skrefið og borgað sínu fólki betur, það yrði ef til vill til þess að fólk annarsstaðar af landinu bæði með og án leikskólakennaramenntunar hefði áhuga á að vinna hjá Fjarðabyggð. (Heilbrigðisstofnun Austurlands hefur til dæmis tekið einhver slík skref og hefur það orðið til þess að stofnunin er ákjósanlegur vinnustaður).

• Óskir foreldra um að brugðist verði við stöðu mála sem fyrst. Eins og staðan er núna er ½ pláss laust í Lyngholti og tvö 2018 börn eru ekki komin inn í leikskólann og verður leikskólinn væntanlega fullur strax í janúar 2020. Það hefur gjarnan verið lögð áhersla á það innan Fjarðabyggðar að þar séu góðar aðstæður fyrir barnafólk og meðal annars komist börn ársgömul inná leikskóla. Það virðist þó ekki ætla að verða raunin en samt hefur ekki verið auglýst í stöðu dagforeldra.

• Starfslokaviðtöl verði tekin af mannauðsstjóra Fjarðabyggðar eða óháðum aðila þannig að betur sé hægt að greina hvers vegna fólk hætti störfum við leikskólann.

• Þurfa foreldrar að greiða fyrir leikskólavistun barnanna sinna þegar deildum er lokað og foreldrar eru heima með börnin?

• Er eðlilegt að leikskólagjöld séu jafn há þar sem aðeins er um að ræða vistun en ekki fer fram faglegt leikskólastarf?

Hvað geta foreldrar lagt af mörkum

• Viðhorfsbreytingar í samfélaginu sem heild. Leggja áherslu á að leikskólinn er fyrsta skólastigið og það er mikilvægt að borin sé virðing fyrir leikskólanum fyrir slíkum og bera meiri virðingu fyrir kennurum og öðrum starfsmönnum leikskóla. Þetta eru viðhorfsbreytingar sem við foreldrar viljum vinna í samstarfi við Fjarðabyggð og samfélagið allt því vandamálið er svo sannarlega til staðar á fleiri stöðum.

• Áhersla á kurteisi forelda við starfsfólk og viðhorfsbreytingu þar. Starfsfólk þarf klapp á bakið, ekki bara frá yfirmönnum heldur einnig foreldrum.

• Bera virðingu fyrir því að þegar deildum er lokað er það neyðarúrræði og það er öryggi barnanna okkar sem gengur fyrir.

• Foreldrar geri sér far um að tala starfið í leikskólanum upp. Bæði til starfsmanna sem nú þegar eru starfandi en einnig útá við til að auka jákvæðni í garð starfsins alls.

Foreldrar gera sér grein fyrir því að starfsumhverfi leikskólans er erfitt eins og staðan er núna, það eykur álag á alla starfsmenn þegar vinnustaðir eru undirmannaðir í lengri tíma eins og verið hefur. Við vitum þó að innan Lyngholts eru allir að gera sitt besta og kunnum við starfsmönnum skólans bestu þakkir fyrir það starf sem þar er unnið – við krefjumst þess einfaldlega að gert verði betur og vinnuumhverfi leikskólans bætt sem allra fyrst með öllum mögulegum ráðum.

Fyrir hönd foreldrafélags Lyngholts
Guðlaug Björgvinsdóttir
Sigrún Ynja Klörudóttir
Bergsteinn Ingólfsson
Hrafnhildur Ólafsdóttir
Unnur Þórleifsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar