Opið bréf til kjörinna fulltrúa bæjarstjórn Fjarðabyggðar vegna fyrirhugaðrar sölu á Rafveitu Reyðarfjarðar (nr. 2)

Góðan daginn, kjörnir fulltrúar og umboðsmenn okkar kjósenda í bæjarstjórn Fjarðabyggðar.

Gagnlegur fundur í gær (16.12.19.) og sem betur fer vorum við með alvöru fundarstjóra þannig að tíminn nýttist eins vel og hægt var.

Ég veit ekki hvort þið vitið það öll, en ég var ráðinn sem rekstrarstjóri suðursvæðis veitusviðsviðs Fjarðabyggðar í byrjun sumars 2018. Þá hafði auglýsing og fyrirspurnir mínar til sviðsstjóra veitna vakið athygli mína þar sem var búið að móta hvernig reka ætti allar veitur í Fjarðabyggð í einu sviði og nýta samlegðina sem það skilaði sveitarfélaginu. Þarna leit út fyrir að menn ætluðu sér að búa til alvöru rekstrareiningu sem hefði burði til að eignast sérþekkingu og auka og bæta hag Fjarðabyggðar af því að reka og bæta þessa innviði sem Fjarðabyggð á í öllum þessum veitum með faglegum hætti. Ég ákvað að ráða mig þegar ég sá að þarna var kominn sviðsstjóri, maður með faglega burði og þekkingu til þess að búa til alvöru veitusvið sem gæti virkað fyrir alla íbúa Fjarðabyggðar.

Það sem búið var að gera af ferlum, starfslýsingum og skipulagi fyrir sviðið leit vel út og ekki annað að sjá en bæjarstjórnin stæði vel við bakið á þessum sviðsstjóra sem var búinn að vera þarna rúmlega ár. Hann var búinn að ráða með sér rekstrarstjóra norðursvæðis sem átti að sjá um hitaveitu á Eskifirði, fjarvarmaveitu í Neskaupstað og allar fráveitur og vatnsveitur á Mjóafirði, Norðfirði, Eskifirði.

Og síðan rekstrarstjóra suðursvæðis (mig) sem átti að sjá um rafveitu á Reyðarfirði, fjarvarmaveitu á Reyðarfirði og allar vatns og fráveitur á Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði og Breiðdalsvík.

Ég kom til starfa í ágúst og byrjaði að setja mig inn í starfið en mjög fljótlega fór að bera á því að það var eins og menn væru ekki heilshugar á bak við þennan sviðsstjóra og ætluðu sér að láta þetta stóra svið damla inn í eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd (ESU) með öllu öðru sem þar er. Hvernig datt mönnum í hug að svona stórt og sérhæft svið gæti orðið eitthvað ef það hefði ekki alvöru sérhæfða veitunefnd á bak við sig? Menn hafa búið til nefnd um minni fjármuni og umsýslu en þetta.

Ég var búinn að vera þarna í nokkrar vikur þegar sviðsstjórinn sagði okkur að hann ætli að hætta. Ég fór til bæjarstjórans og vildi fá að vita hvort menn ætluðu að ráða annan mann í þetta starf með sömu eða svipaða þekkingu og burði til að reka þetta áfram á þessum nótum sem sviðstjórinn var búinn að forma og skipuleggja. Eftir að bæjarstjórinn hafði spurt ykkur, stjórnendur bæjarins, kom hann með þau svör að það stæði ekki til að gera þetta svona og gat ekki gefið mér svör um hvernig menn ætluðu að gera þetta í framhaldinu.

Í framhaldinu skrifaði ég uppsagnarbréfið mitt og hætti samdægurs. Þarna var orðinn algjör forsendubrestur fyrir því sem ég réði mig til miðað við það skipulag, ferla og starfslýsingu sem mér var sýnd og kynnt þegar ég réði mig.

En þetta getið þið örugglega lesið um í fundargerðum ESU nefndar og/eða öðrum fundargerðum - nema þetta hafi verið of viðkvæm málefni (viðskiptalega séð eða á annan hátt) til að það mætti sjást í fundargerðum eða fundarboðum.

Þið getið alveg hugsað að hér fari sár maður yfir því að hann var ráðinn í eitthvað sem stóðst ekki og sé með læti út af því. Auðvitað var ég sár yfir því að fara úr góðri vinnu yfir í þetta sem leit út fyrir að stefna í faglega rekið og öflugt veitufyrirtæki sem gæti blómstrað fyrir Fjarðabyggð um ókomna tíð.

En ég er löngu hættur að vera sár yfir þessu, ég vorkenni ykkur bara að sjá ekki verðmætin sem þið hefðuð geta skapað þarna fyrir Fjarðabyggð um ókomna tíð. Þarna var líka tækifæri fyrir ykkur að búa til alvöru fyrirtæki/stofnun sem hefði sýnt fólkinu í Fjarðabyggð hvað er hægt að gera ef menn nýta þá innviði sem þó eru til í sveitarfélaginu og skapa alvöru þjónustu þvert á alla byggðarkjarna, hrepparíg og aðra sveitamennsku. Kannski vilduð þið það ekki - hver veit?

En svona viljum við íbúar Fjarðabyggðar líklega hafa þetta, við alla veganna kusum ykkur - ekki satt?

Þið gerið þessa hluti hér eftir sem hingað til eins og samviska ykkar, þor og metnaður segir ykkur að gera, meira getið þið ekki , það hafa allir sín takmörk.

Þetta er í ykkar höndum.

P.s.: Þegar þið farið svo að vinna í að selja hitaveituna á Eskifirði þegar það verður orðið of erfitt að reka hana, Andrés stjóri þar hættur endanlega og annað, þá gætuð þið talað við sveitarfélagið „Austurland.“ Mér skilst að þeir reki sínar veitur saman í einu fyrirtækinu. Það finnst ykkur líklega góður kostur selja þeim. Svo gætum við íbúar Fjarðabyggðar kannski fengið meiri afslátt í VÖK BATHS - væri það ekki bara vin vin dæmi fyrir alla?

Með vinsemd og virðingu.
Guðni Kristinn Þorvaldsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar