Í tilefni af Degi leikskólans
Þann 6. febrúar er haldinn hátíðlegur Dagur Leikskólans í leikskólum út um land allt og er í ár 13. skiptið sem þessum degi er fagnað með formlegum hætti.Mikilvægi leikskólans sem menntastofnun er ótvírætt og er ekki minni mikilvægari stofnun fremur en grunnskóli eða framhaldsskóli. Á leikskóla taka börnin okkar oft fyrstu skrefin í orðsins fyllstu merkingu sem og í því að læra að skapa, að leika, læra að umgangast og deila með öðrum börnum, takast á við áreiti, leysa úr þrætumálum og allt annað sem kemur að félagslegum og líkamlegum eiginleikum á þessum fyrstu ómetanlegu mótunarárum barnsins. Listinn er ótæmandi.
Faglegheit, starf og ábyrgð starfsfólks leikskóla er því engin smásmíði. Að skilja dýrmætasta það sem maður á í höndum ókunnugara og fela því hagi, umönnum, velferð og þroska barna okkar er byggt á því trausti og orði sem leikskólinn sem stofnun hefur á sér. Það er ekki þannig að einungis sé verið að koma börnunum fyrir í geymslu á meðan foreldrarnir halda til vinnu, heldur á sér stað faglegt starf í höndum starfsfólks sem hjálpar til að móta börnin sem einstaklinga og félagsverur í samfélaginu.
Allt þetta mikilvæga starf gerist ekki af sjálfum sér og að mörgu er að hyggja. Leikskólamál eru einmitt mikið í umræðunni þessa dagana, til dæmis möguleg stytting á leikskóladag barna, kjarasamningar starfsfólks á leikskóla eru lausir og stjórnendur hafa áhyggjur á skorti af menntuðum leikskólakennurum innan geirans. Þessi atriði skipta gríðarlega miklu máli fyrir áframhaldandi þróunar og mótunar leikskólastarfs og er þarft að huga að.
Við á Egilsstöðum erum svo gæfusöm að leikskólinn hér er gífurlega vel mannaður. Hér hefur ekki þurft að loka deildum vegna manneklu og mikið af leikskólakennaramenntuðu, háskólagengdu og hæfu starfsfólki sem kunna vel til verka og hafa jafnvel unnið á leikskóla í háa herrans tíð. Við í foreldraráðinu kunnum vel að meta ómetanlega starfsfólkið okkar sem sjá um börnin okkar í leik og starfi.
Það er einmitt ótrúlega mikilvægt að hlúa að innviðum leikskólans og starfsfólki hans því þar eru staddir einstaklingarnir sem sjá svo um að hlúa að börnunum okkar.
Því er Dagur Leikskólans nytsamlegt og merkilegt fyrirbæri til að minna okkur foreldra á það dásamlega jafnt og krefjandi starfi sem starfsfólk leikskólanna sinna. Svo þeir foreldrar sem halda leið sinni á leikskóla barna sinna þann 6.febrúar til að kíkja á hvað litlu krílin okkar eru að bralla, getum haft á bakvið eyrað hversu veigamiklu hlutverki leikskólinn þjónar í lífi okkar og verið þakklát fyrir það frábæra starf sem þar fer fram.
Höfundur situr í foreldraráði leikskólans Tjarnarskógar