Orð eru til alls fyrst

Hugtökin „grænt“, „hreint“, „umhverfisvænt“ og fleiri slík eru notuð af mörgu fólki. Merkingin er iðulega óljós, notkunin er oft óábyrg og beinlínis til þess fallin að villa um fyrir öðrum. Stundum virðist vera nóg að fyrirbæri sé skárra en mest mengandi kosturinn til að fá þennan eftirsóknarverða stimpil. En hvaða máli skiptir það?

Ofnotkun og gengisfelling á þessum hugtökum afvegaleiða umræðu um raunveruleg umhverfisáhrif aðgerða. Umræða sem litast af grænþvotti getur leitt til þess að við sóum tíma og fjármagni í aðgerðir sem eru í besta falli gagnslítill dropi í ólgandi haf mengunar og ósjálfbærrar landnýtingar. Sumar framkvæmdir, sem stimplaðar eru grænar eða sjálfbærar, geta hreinlega gert illt verra fyrir umhverfið.

Að fórna náttúrunni, fyrir náttúruna


Ef ég fengi að koma með aðeins eina fullyrðingu inn í umræðuna um umhverfismál yrði hún þessi: Loftslagsbreytingar og hrun líffræðilegrar fjölbreytni eru tvær afleiðingar sama vandamáls og rót vandans er ofnýting auðlinda. Þess vegna má líkja því að ætla að leysa loftslagsvandann á kostnað náttúrunnar við að setja plástur á sár á öðrum fæti og skjóta sig um leið í hinn fótinn.

Í þessu samhengi er vert að taka fram að allt í vistkerfum jarðar er krosstengt, loftslagsbreytingar ýta sannarlega undir rýrnun líffræðilegrar fjölbreytni, en rannsóknir hafa þó sýnt að eyðilegging vistkerfa vegur þar þyngra. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að verndun vistkerfa hefur iðulega líka jákvæð áhrif á loftslagið, enda binda heilbrigð vistkerfi venjulega kolefni til frambúðar.

Mold er stærsta kolefnisgeymsla jarðar á eftir hafinu og geymir meira kolefni en gróður og andrúmsloft til samans. Áætlað er að losun gróðurhúsalofttegunda frá votlendi á Íslandi sé um 10 milljón tonn CO2-ígilda á ári (og er þá einkum átt við framræst votlendi, sem iðulega er auðvelt að endurheimta).

Losun frá þurrlendi þar sem gróður á undir högg að sækja er líklega á bilinu 1–8 milljón tonn CO2-ígilda á ári, en gæti þó verið hærri. Þetta eru gríðarlega háar losunartölur! Til samanburðar má geta að losunin sem er á beinni ábyrgð Íslands (samgöngur, iðnaður o.s.frv.) og allt kapp er nú lagt á að minnka, er um 5 milljón tonn CO2-ígilda á ári. Auðvitað eigum við að kappkosta að draga úr þeirri losun, enda kostar það okkur ef við gerum það ekki, en mér finnst losun frá landi fá allt of litla umfjöllun.

Ef okkur væri raunverulega alvara með það að leggja okkar af mörkum í loftslagsmálum þá værum við núna á kafi í því að endurheimta framræst votlendi og landgæði á illa förnu þurrlendi. Þó við séum ekki að fá mínus í bókhaldi Sameinuðu þjóðanna fyrir þessa losun (í bili allavega) væri plúsinn sem við fengjum við þessa vistheimt miklu meira virði en tölur í Excel-skjali sem stundum eiga lítið skylt við raunveruleikann, þ.e. verulegur samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda og verndun líffræðilegrar fjölbreytni.

Að færa líf í umræðuna


Orkumálin eru nú í brennidepli og tenging þeirra við umhverfismál áberandi, sem er vel. Því langar mig að taka umræðuna um orkumál sem dæmi um það hvernig orð skipta öllu máli. Vistfræðingurinn í mér væri gjarnan til í að sjá meiri vistkerfisnálgun í þessari umræðu.

Það er ekki nýtt hugtak og hefur verið ofarlega á baugi í umhverfissamningum Sameinuðu þjóðanna og stefnumótun íslenskra stjórnvalda í áratugi. Með það í huga að tengsl lífvera við hver aðra og umhverfi sitt eru fjölbreyttari og flóknari en við getum gert okkur í hugarlund, verður skaðsemi þess að nota hugtök eins og „grænt“ og „umhverfisvænt“ um framkvæmdir sem raska náttúru augljós, jafnvel þegar framkvæmt er í þeim tilgangi að framleiða endurnýjanlega orku.

Öll raforkuframleiðsla hefur umhverfisáhrif, sem eru að vísu mismikil og af mismunandi toga. Þess vegna er misvísandi að tala um „algjörlega hreina“ orku og að sama skapi er eðlilegt að spyrja sig í hvaða tilgangi orkan er framleidd áður en hafist er handa við að raska náttúrunni. Töfraorðið „orkuskipti“ dugar skammt því þangað til ráðstöfun orkunnar liggur fyrir er ekki hægt að segja til um það hvort við verðum einhverju nær í orkuskiptum, sama hversu mikið við virkjum.

Orkuskiptin eru því dæmi um grænþvott ef hugtakið er notað til að réttlæta framleiðslu á meiri orku í gróðaskyni, án fullnægjandi útskýringar á því hvernig hún styður við orkuskiptin. „Orkuskipti heimsins“ eru útvíkkuð útgáfa af fyrra hugtakinu, en ef við horfum til jarðarinnar í heild varðandi framleiðslu (sbr. vinsælt dæmi: „ef álið er ekki framleitt hér verður það framleitt með kolum annars staðar“), þarf sama víðsýni að gilda um neysluna (sbr. vinsælt svar: „Bandaríkin henda meira af áli á ári hverju en framleitt er hér á landi, sem segir okkur að heimsframleiðslan er of mikil og hvatar til endurvinnslu ekki nægjanlegir“).

Við viljum vafalaust öll að aðgerðir Íslands í orkumálum séu hluti af lausninni en ekki vandamálinu í umhverfismálum. Því sakar ekki að vera kröfuhörð þegar kemur að umræðunni, annars er hætta á því að framkvæmdir sem eiga að „bjarga heiminum“ geri lítið annað en að ýta undir áframhaldandi ofneyslu á auðlindum, en orkuneysla á hvern jarðarbúa jókst úr 18.000 kWst árið 2002 í 21.000 kWst árið 2022.

Má ekkert lengur?


En er þá ekkert sem við gerum raunverulega grænt? Eru allar framkvæmdir sem hrófla við steini af hinu vonda? Auðvitað ekki! En það hlýtur að teljast eðlileg krafa að umræðan sé ómenguð af grænþvotti og rangri hugtakanotkun. Vönduð umræða leiðir til skynsamlegra ákvarðana og við höfum ekki efni á að róa í ranga átt í umhverfismálum. Ég skora því á fjölmiðla og okkur öll að staldra við þegar grænar fullyrðingar fara á flug.

Höfundur er plöntuvistfræðingur og varaformaður Náttúruverndarsamtaka Austurlands

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar