Ósjálfbær fjárhagur Fjarðabyggðar stendur ekki undir rekstri
Umræðum um ársreikninga Fjarðabyggðar fyrir árið 2021 vísa til þess að vel sé haldið á fjármálum sveitarfélagsins, unnið samkvæmt áætlun og stefnu. Sé rýnt í reikninga birtist önnur mynd.Í umfjöllun um ársreikning sveitarfélaga er gjarnan talað um samstæðu, það er A- og B hluti reksturs. A hluti snýr beint að íbúunum og að mestu fjármagnaður með sköttum og gjöldum íbúana. Þjónusta sveitarfélagsins við íbúana í fræðslustarfsemi, íþrótta- og æskulýðsmálum, félagsþjónusta, viðhald gatna ásamt rekstri og uppbyggingu fasteigna tilheyrir A- hlutanum. B- hlutinn snýr að stofnunum og fyrirtækjum sveitarfélagsins svo sem hafnarsjóði, vatnsveitu, hitaveitu og einingum sem eru sjálfstæðar í rekstri.
Raunveruleg staða er slæm
Fjárhagsleg staða er sterk þegar horft er til B hlutans. Það er jákvætt enda þarf B hlutinn standa undir fjárhagslegi skuldbindingu og mæta þörfum atvinnulífs. Mikilvægt er að B hlutinn sé sterkur því þannig getum við vaxið í krafti atvinnulífs sem er forsenda fyrir auknum tekjum í A hlutann í formi útsvars og fasteignagjalda meðal annars.
A hlutinn er ósjálfbær og stendur ekki undir rekstri eins og staðan er í dag. Tap A hlutans nam 437 milljónum á síðasta ári með tilliti til afskrifta og fjármagnsgjalda. Allt tal um bata í rekstri, hagnað og jákvæða rekstrarniðurstöðu Fjarðabyggðar gefur kolranga mynd og óraunhæfar væntingar.
Hvað veldur?
Tekjur sveitarfélagsins hafa aukist á undanförnum árum en útgjöld fara langt fram úr tekjuaukningu. Frá árinu 2017 hafa tekjur sveitarfélagsins aukist um 24% en útgjöldin 31%.
Fjárhagsáætlanir sveitarfélagsins standast ekki. Við sem sveitarfélag tryggjum ekki að endar nái saman og að áætlanir haldi. Ekki er brugðist við óvæntum útgjöldum með aðhaldi og samdrætti í öðrum liðum fjárhagsáætlunar. Til að útskýra þetta nánar er best að vitna í greiningu Fjármálastjóra sveitarfélagsins en þar kemur fram að ársreikningur sveitarfélagsins á síðasta ári „fylgdi ekki vel stefnumörkun og áætlunum bæjarstjórnar Fjarðabyggðar og í heildina verður rekstrarniðurstaða samstæðu 400 milljónir króna lakari en fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða A hluta er enn verri eða 430 milljónir króna lakari en áætlun gerði ráð fyrir. Tekjur í A hluta aukast verulega milli ára og eru um 340 milljónir króna hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Launakostnaður Fjarðabyggðar jókst verulega á milli ára eða um 372 milljónir króna og 289 milljónir króna umfram fjárhagsáætlun ársins.“
Í greiningunni leggur fjármálstjóri sveitarfélagsins áherslu á að rekstur A hlutans sé ekki „nógu traustur til að hann ráði við þær miklu framkvæmdir sem hann hefur staðið fyrir á umliðnum árum og er ætlað í nánustu framtíð.“ Þá hafa lántökur veikt rekstrarstöðu en sveitarfélagið skuldaði hafnarsjóði í árslok 2021 um 1,7 milljarð og á síðasta ári fór lántaka A hlutans umfram áætlanir eða 462 milljónir króna en upphaflega var gert ráð fyrir 180 milljónum í lántöku. Lítið svigrúm í rekstri veldur því að við stöndum veik gagnvart ytri aðstæðum eins og verðbólgu og óvæntum útgjöldum.
Hvað er til ráða?
Meirihluti Framsóknar og Fjarðalistans hefur mætt tilraunum Sjálfstæðisflokksins til málefnalegrar umræðu um rekstur sveitarfélagsins á kjörtímabilinu með því að hoppa strax ofaní kunnuglegar skotgrafir. Þaðan er svo skotið þekktum frösum eins og að Sjálfstæðisflokkurinn vilji „reka fólk“, „draga úr þjónustu“ eða „hætta við framkvæmdir“. Ekkert er fjær sannleikanum og þessar skotgrafir eru óþarfar því markmiðið hjá okkur öllum er það sama. Við sem störfum í stjórnmálum viljum samfélaginu okkar og íbúum þess það allra besta. Við viljum að samfélagið okkar stækki og eflist, veiti framúrskarandi þjónustu og að íbúunum líði vel. Forsendan fyrir því að geta staðið undir slíku er hins vegar að sýna ábyrgð í rekstri, framfylgja áætlunum og sætta okkur ekki við agaleysi og forðast hvatvísi í ákvarðanatöku, því slík hegðun skerðir framtíðarlífsgæði okkar allra.
Framtíðin er björt í Fjarðabyggð. Við stöndum traustum fótum eftir sem áður enda með gríðarlegan sterkan B hluta og öflugt atvinnulíf. Það er forsenda framfara sveitarfélagsins og í krafti sterkrar stöðu getum við horft björtum augum til framtíðar í ábyrgum rekstri.
Höfum bjarta framtíðarsýn. Kjósum Sjálfstæðisflokkinn 14. maí
Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð