Pólskt vor

Í dag hefst pólska listahátíðin Vor/Wiosna með kvikmyndasýningu í Herðubreið á Seyðisfirði. Viðburðum og sýningum er dreift um þrjá bæi á Austurlandi; á Egilsstaði, Eskifjörð og Seyðisfjörð og verkin eru unnin af ungum pólskum listamönnum sem búa á Íslandi, hafa búið hér eða dreymir um að koma.

Þessi hátíð er þörf áminning um hvað landshlutinn okkar hefur breyst á síðustu árum. Við erum að verða sífellt fjölmenningarlegri og hlutfall fólks af erlendum uppruna fer stigvaxandi. Á Eskifirði, þar sem ég bý, er þetta hlutfall á bilinu fimmtán til tuttugu prósent.

Norðausturkjördæmi er víðfeðmt, nær frá Djúpavogi til Siglufjarðar, og það er hollt að hugsa til þess hversu fjölbreytileg mannflóran er víða orðin í landsbyggðunum og eitt af brýnustu verkefnum kosningabaráttunnar er að kosningaþátttaka alls fólks, ekki síst fólks af erlendum uppruna, verði aukin.

Listahátíðin Vor/Wiosna er mikilvæg áminning um kosti þess að samfélögin okkar verði fjölbreytt og fjölmenningarleg og að mínu viti ekki boðlegt að hafna þeirri þróun. Við höfum allt að vinna.

Ávinningurinn er er samfélag fjölbreytni, víðsýni og umburðarlyndis. Í þannig samfélagi lætur fólk til sín taka.

Njótum pólskrar menningar á Austurlandi 14.-31. maí.
Udanej zabawy!

Höfundur er forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar og skipar þriðja sætið á framboðslista Samfylkingarinnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar