"Kukl í fjárhúsum"
Mig langar svara bréfi um kukl í fjárhúsum sem er skrifað af Birgi Baldurssyni, án þess þó að gefa upp starfsheiti þannig að maður getur ekki áttað sig á því hvort viðkomandi hefur einhver rök á bak við sína grein.
Ég ætla ekki að fara í hártoganir við BB vegna „kukl-skrifa“ hans heldur vill ég aðeins upplýsa þá sem fylgjast með því sem bændur eru að velta fyrir sér þessa dagana og er grafalvarlegt mál sem er fósturdauði í ám. Brynjólfur Snorrason kom fram í sjónvarpinu með prjóna sér við hönd. Það skal tekið fram að í viðbót við prjónana hefur hann mælitæki af fullkomnustu gerð. Þessi mælitæki mæla rafgæði þess rafmagns sem er í húsinu og mælir samkvæmt reglugerð um afhendingargæði raforku EN50160 sem tók gildi hér á landi 2007. Þess má geta að verkfræðingar, raunvísindamenn og fagaðilar víða um heim eru að skoða rafmengunarmál og þeir eru allir að upplifa það sama að rafmengun er að verða stórt vandamál og skiptar skoðanir um hvernig beri að leysa þau. Það er nefnilega miklu meira í rafmagninu heldur en bara 50Hz(rið) og lítið er pælt í þessum málum hér á landi. Þessi rafmengun er kölluð THD eða „Total Harmonic Distortion“ og er mælanleg í 64 þrepum. Brynjólfur hefur verið að skoða þessi mál vegna ýmissa vandamála sem hann hefur rekist á í dýrum. Einnig hefur Evrópusambandið gefið út leiðbeinandi gildi um hámarks rafsegulsvið sem er innan við 4mG(milliGáss). Þessi gildi eru alltaf mjög há þar sem vandamál eru í fjárhúsum og þess vegna hefur það vakið athygli okkar að það sé kannski meira á bak við þetta en það sem læknavísindin og raunvísindamenn hafa getað svarað hingað til? Ég vill benda BB á það að þetta eru djúp vísindi sem ekki er hægt að fjalla um í stuttri grein og þyrfti að gera doktorsritgerð um málið ef það ætti að vera tæmandi. Það er þess virði að gera athuganir á rafkerfunum og sérstaklega í ljósi þess að það er búið að skoða og rannsaka næstum allt annað í kringum blessaðan búfénaðinn. Áður en Brynjólfur Snorrason fékk þessi mælitæki og áður en reglugerðirnar voru gefnar út af Evrópusambandinu notaðist hann við prjóna. Hann hefur gert ákveðnar breytingar á nokkrum bæjum og þar geta bæði bændur og dýralæknar vitnað um að árangur hafi náðst. Það ásamt þeirri staðreynd að við mældum ákveðin gildi á nokkrum bæjum núna nýlega sem gefa okkur vísbendingar um að það sem BS hefur verið að benda á geti verið á rökum reyst. Hugsið ykkur það að það er hægt að staðfesta það sem prjónarnir hafa sýnt með fullkomnum mælitækjum sem nýtast okkur raunvísindamönnunum til að skoða þetta með vísindalegum hætti. Það er þess virði að skoða þetta nánar en taka eitt lítið skref í einu.
Greinarhöfundur er samstarfsmaður Orkulausna sem er í eigu Brynjólfs Snorrasonar
PS. Ég vill benda á að Brynjólfur Snorrason er ekki í samstarfi við svokallaða „Pinnamenn“ sem fara um landið með „spákvist“ til að plokka fé af fólki, hann starfar með fagfólki, verkfræðingum og vísindamönnum. Hann kann að nota prjóna og hafði smá sýnikennslu fyrir sjónvarpsmenn en notar fyrst og fremst fullkomnustu mælitæki samkvæmt Evrópustöðlum og reglugerðum til mælinga á rafmengun og rafsegulsviði.
Svanbjörn Einarsson
Hönnun og ráðgjöf
Bsc. Rafmagnstæknifræði