Rafíþróttadeild Hattar

Það var fyrir rúmu ári síðan sem hugmyndin um stofnun rafíþróttadeildarinnar kviknaði. Það var eftir að ég sá innslag í fréttaskýringaþætti Kveiks á RÚV, þar sem var fjallað um þennan nýja veruleika sem tölvuleikjaspilun er.

Hvernig fordómar og skilningsleysi mæta oft þeim sem sökkva sér ofan í þetta áhugamál en jafnframt hvaða leiðir er hægt að fara til að styðja við börn sem spila tölvuleiki. Hvernig við getum opnað umræðuna um þessa ört vaxandi íþróttagrein sem tölvuleikjaspilun er og hvernig við getum á uppbyggilegan og skipulagðan hátt fundið þessu farveg t.d. með stofnun rafíþróttadeildar. Ég ætla að ekki að fara nánar út í umfjöllunarefni þessa Kveiksþáttar, en ég mæli með fyrir alla að horfa á þetta stutta innslag, það sannarlega breytti sýn minni á þennan málaflokk.

En af hverju hafði ég verið að velta þessu fyrir mér? Jú, ég á tæplega 12 ára gamlan son sem hefur um nokkurt skeið spilað tölvuleiki. Það rann upp fyrir mér eftir að ég horfði á þáttinn, að ég hafði sennilega aldrei sagt neitt jákvætt við hann um hans áhugamál. Ég hafði í raun ekki hugmynd um hvað hann var að gera í tölvunni og sýndi því lítinn sem engan áhuga. Það sem hann fékk frá mér voru venjulega aðfinnslur.

Á sama tíma fylgdi ég dóttur minni um allar koppa grundir í sínu áhugmáli. Ég tók þátt í öllum fjáröflunum, sat í stjórn og var stolt móðir fimleikastúlkunnar. Sonur minn hafði á þeim tíma ekki fundið sig í þeim tómstundum sem hann hafði prófað, sem voru ansi margar og ég orðin hálf úrræðalaus. Mér fannst hann vera að einangrast í tölvunni og þær leiðir sem ég hafði reynt til að stemma stigu við „vandamálinu“ ekki gengið vel, að mínu mati. Ég vissi líka að ég var ekki ein í þessum hugleiðingum, það væru foreldrar þarna úti að glíma við það sama og ég.

Með þessar vangaveltur skundaði ég á fund tómstunda- og æskulýðsfulltrúa Fljótsdalshéraðs, Bylgju Borgþórsdóttur. Það kom í ljós að það hafði verið komin í gang vinna með félagsmiðstöðinni um stofnun slíkrar deildar, þannig járnið var þegar orðið heitt. Til að hamra það þá þyrftum við að fá gott fólk með okkur, sem hefðu þekkingu og áhuga á málaflokknum. Þá gengu Unnar Erlingsson, Garðar Valur og Guðmundur Rúnar til liðs við okkur.

Það var ákveðið að sækja um að stofna deildina undir merkjum Hattar, enda stöndum við sterkari saman og íþróttafélagið alltaf verið mjög jákvætt og móttækilegt fyrir nýjum hugmyndum. Vegna Covid og sumarfría náðum við ekki að klára umsóknarferlið fyrr en núna á haustmánuðum en í lok október var umsóknin samþykkt á aðalfundi Hattar.

Það er að mörgu að hyggja þegar sett er á fót deild sem þessi. Stærstu úrlausnarefnin eru án efa að finna starfseminni hentugt húsnæði, það þarf að útvega búnað, þjálfara og svo þarf að fjármagna starfsemina. Þessi vinna er þegar farin af stað en eins og við vitum, vinna margar hendur létt verk og leitum við því á náðir áhugasamra um að taka þátt í þessu verkefni með okkur. Því fyrr sem við getum leyst þessi praktísku mál, því fyrr getum við hafið starfsemi.

Svo eru það efasemdaraddirnar. Við skiljum vel að foreldrar séu ekki á einu máli um ágæti tölvuleikjaspilunar enda held ég að margir foreldrar eigi erfitt með að finna jafnvægi þegar kemur að tölvunotkun barna sinna. Það er rétt að taka fram að rafíþróttadeild ein og sér er ekki að fara að leysa neinn alheims vanda þegar kemur að tölvunotkun barna en ég held að við séum að rétta fram ákveðið verkfæri sem getur hjálpað bæði foreldrum og iðkendum.

Að lokum vil ég minna á markmið deildarinnar, sem gefa góða mynd af því hverju við viljum ná fram í Rafíþróttadeild Hattar.
• Að bjóða upp á skipulagt starf fyrir börn og unglinga þar sem þau geta stundað rafíþróttir undir handleiðslu þjálfara.
• Að stuðla að jákvæðri tölvuupplifun.
• Að hjálpa iðkendum að hugsa vel um líkama og sál.
• Að efla félagslegan og siðferðilegan þroska.
• Að iðkendur læri undirstöðuatriði í þeim leik sem það æfir.
• Að iðkendur hafi ánægju af rafíþróttum.
• Að efla félagsfærni og valdefla þau sem eru mikið ein heima að spila.
• Að vera með öflugt meistaraflokkastarf.
• Að virkja foreldraráð við deildina.

Með kveðju og von um öflugt og gott samstarf,
Sigrún Jóna Hauksdóttir




Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.