Rammvillta vinstrið

Fram er komið fyrirbærið Sósíalistaflokkur Íslands sem sankað hefur að sér tæplega 9000 fylgjendum á Facebook. Um er að ræða afsprengi gáfumannaklúbbs í Reykjavík sem virðist telja þörf á nýjum flokki með áherslu á jöfnuð, réttlæti, frelsi í einhverri mynd, auk dass af markaðsbúskap – svo ekki sé minnst á andúð á Sjálfstæðisflokknum, Framsóknarflokknum, fjórflokknum og öllum hinum.

Þar með bætist í flokkaflóruna rétt vinstra megin við miðju þar sem þorri kjósenda ráfar um með stöðugan valkvíða. Fyrir á þessu svæði eru að minnsta kosti Samfylkingin, Píratar og Björt framtíð, jafnvel Vinstri grænir og Framsóknarflokkurinn á góðum dögum og Viðreisn í sauðargæru fram yfir kosningar fyrir utan Dögun, Flokk fólksins og fleiri örflokka fyrir kosningar, bara svona rétt til að tryggja að nokkur prósent atkvæða endi dauð. 

Eftir hrun hefur hvert gáfumennið á vinstri vængnum sprottið upp á eftir öðru, álitið sig örlítið snjallara og betra en það næsta og ákveðið að stofna eigin flokk. Þótt Sjálfstæðisflokkurinn eigi að vera höfuðóvinurinn ber ekki síður á árásum í garð þess flokks sem mögulega ætti að standa næst málefnalega en fyrst og fremst áflogum flokksfélaga á milli. Útkoman af þessari ofurgagnrýnu hugsun er sífellt niðurrif og kannski einn flokkurinn enn, svo minnir helst á Monty Python atriðið um People's Front of Judea.

Þegar farið er yfir spjallþræði Sósíalistaflokksins birtast kunnugleg nöfn kverúlanta sem þvælst hafa milli Vinstri grænna, Framsóknar, Pírata og jafnvel fleiri flokka síðustu ár. Hver um sig telur sig hafa töfralausnir sem fylla muni hina íslensku þjóð hamingju, hversu skylt sem það á við stefnu flokksins eða nokkra heilbrigða skynsemi ef því er að skipta.

Þessi sífellda þörf að vera örlítið gáfaðri en sá næst gáfaðasti skilar engu nema illdeildum. Eftir að hafa lofað svona duglega upp í ermarnar er ekki hægt að slá af eigin kröfum eða viðurkenna kröfur annarra eins og sást í stjórnarmyndunarviðræðunum í haust og tilburðirnir í stjórnarandstöðunni hafa ekki verið merkilegir.

Jafnaðarmannaflokkur Íslands ætti þegar að vera til í formi Samfylkingarinnar en staða hennar er stórfurðuleg og hreinlega grátleg. Hvar sem er ætti að vera pláss fyrir stjórnmálaflokk með áherslu á jöfnuð og velferð alþýðunnar. Þeim skilaboðum ætti að vera jafn auðvelt að miðla og skattalækkunum Sjálfstæðisflokksins. Hverjar kosningarnar eftir aðrar hefur flokkurinn hins vegar flúið eigin stefnu og komið fram með þrugl eins og húsnæðishugmyndirnar fyrir kosningarnar 2013 sem enginn skildi og nennti þar af leiðandi ekki að ræða. Hljómsveitaratriðið í síðasta áramótaskaupi lýsti stöðunni alltof vel, enginn í hljómsveitinni gat spilað sama lagið.

Sigurvegarinn í þessu öllu saman er síðan Sjálfstæðisflokkurinn sem þrátt fyrir alla sína einstaklingshyggju gerir sér grein fyrir að stjórnmál eru liðsíþrótt sem byggist þrátt fyrir allt á að klóra bak næsta manns frekar en klóra úr honum augun.

Þeir sem láta sig dreyma um að sveigja íslenska ríkið enn frekar í átt að norrænu velferðarkerfunum verða að ráðast í hagræðingu á vinstri vængnum. Einn besserwisserahópurinn enn með eigin flokk gerir þar bara til bölvunar.

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar