Ríkið og nýsköpun á landsbyggðinni

Það var áhugavert að hlusta á Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, á fundi á Egilsstöðum nýverið þar sem hún hét úttekt á framlögum ríkisins til nýsköpunar- og rannsókna á landsvísu. Þetta voru viðbrögð hennar eftir stutta ferð um Hérað þar sem hún sagði alla sem hún hefði rætt við hafa hafa bent á að takmarkað fé skilaði sér út á land úr ýmsum styrktarsjóðum ríkisins.

Í fyrra lagði Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar úr Norðausturkjördæmi, spurningar fyrir ráðherra um hvernig styrkir til verkefna og rekstrar á þeirra málasviði hefðu dreifst síðustu ár. Fyrirspurn Albertínu fól ekki í sér greiningu á upphæð en fjöldi styrkja ætti að gefa vísbendingu. Fimm austfirsk verkefni fengu úthlutað úr Tækniþróunarsjóði á árunum 2012-2017. Alls var úthlutað 5,3 milljörðum króna til 496 verkefna.Austurland rétt slefaði því í eitt prósent. 88% styrktra verkefna voru á höfuðborgarsvæðinu.

Í annarri fyrirspurn bar Albertína upp að mikilvægt væri að skoða hvað ylli þessu, hvort umsóknir af landsbyggðinni væru einfaldlega verr unnar. Þekkt er að á svæðum þar sem hallar undan fæti, til dæmis eftir að ríki Austur-Evrópu opnuðust, koma þeir sér í burtu í von um betra líf sem mesta hæfileikana og hugmyndirnar hafa. Vonandi er það ekki reyndin með íslensku landsbyggðirnar.

Á fundinum gagnrýndi forsætisráðherra að ekki væru haldnar kynningar á vegum sjóðsins á Austurlandi og að ekki væri heldur fastur starfsmaður Nýsköpunarmiðstöðvar í fjórðungnum. Hún endaði á að segja að nýsköpun ætti ekki að vera einkamál höfuðborgarsvæðisins.

Daginn eftir var haldinn annar fundur á Egilsstöðum, að þessu sinni til að kynna viðskiptahraðalinn Til sjávar og sveita. Hraðlinum, sem er að hluta styrktur af ríkinu, er ætlað að flýta framgangi nýsköpunarfyrirtækja í undirstöðuatvinnugreinum landsbyggðarinnar, landbúnaði og sjávarútvegi. Stór hlut spurninga á kynningunni snérist um möguleika á ferðastyrk þar sem hraðallinn er fyrst og fremst haldinn í Reykjavík. Sprotafyrirtæki af landsbyggðinni sem vilja taka þátt í honum þurfa, ef að líkum lætur, að leggja fram hálfa milljón í ferðakostnað umfram fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Til viðbótar var fjármagni til kynningarinnar reddað eftir krókaleiðum því áætlað framlag var búið áður en röðin kom að Austurlandi.

Ítalsk-bandaríski hagfræðingurinn Mariana Mazzucato hefur skrifað um mikilvægi ríkisins í nýsköpun; að allar stærri tækniframfarir undanfarna áratugi séu fjármagnaðar með opinberu fé. Hún hefur til dæmis bent á að nær öll tæknin sem iPhone byggir á sé annað hvort komin frá ríkisstofnunum eða ríkisstyrktum verkefnum. Steve Jobs hafi ekki gert annað en setja tæknina í fallegar umbúðir, hirða svo hagnaðinn og heiðurinn. Einnig að flest lyfjafyrirtæki geri ekki annað en þróa samheitalyf þegar opinberir aðilar séu búnir að finna lausnina. Almennir fjárfestar reynast sjaldnast nógu þolinmóðir og hefðbundnir bankar eru hræddir, enda þarf oftast nokkrar tilraunir áður en uppfinningin virkar. Ríkið hefur hins vegar þolinmæðina og styrkinn. Hræðslu fjármálastofnana og fjárfesta við verkefni á landsbyggðinni þekkja margir frumkvöðlar á þeim „köldu svæðum.“

Mazzucato bendir á að ríkisstjórnir þurfi annað hvort að auka skattheimtu á hagnað fyrirtækja sem hagnast á tækninni, eða halda eftir eignarhlut líkt og Finnar gerðu með Nokia, til að fjármagna ný nýsköpunarverkefni og menntun.

Þær hugmyndir verða ekki raktar hér, en það getur verið áhugavert að hafa kenningar Mazzucato til hliðsjónar þegar ráðist verður í aðgerðir að lokinni úttekt forsætisráðherra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar