Þegar ríkisfyrirtæki fór út á land

Svo bar til um síðustu helgi að fyrirtæki í opinberri eigu, Landsvirkjun, ákvað að halda árshátíð sína í nágrenni við sinn helsta framleiðslustað, Kárahnjúkavirkjun. Kostnaður við hátíðahöldin hefur verið til umræðu allra síðustu daga en hann má skoða frá nokkrum sjónarhornum.

Það er eðlilegt að kostnaður við árshátíðir ríkisfyrirtækja og stofnana sé tekinn til umræðu. Það er líka eðlilegt að flestum ofbjóði þegar heildarkostnaðurinn slagar í 100 milljónir. Svör fyrirtækisins eru enn óljós, hvort hann hafi verið tugir milljóna eða í það minnsta undir 100 milljónum. Það skiptir ekki máli, þetta er há upphæð fyrir venjulega launþega.

Þetta er hins vegar ekki há upphæð fyrir fyrirtæki með tekjur upp á 52 milljarða króna og hagnað af grunnrekstri upp á 32 milljarða sem, blessunarlega, skilaði 20 milljörðum inn í þjóðarbúið á síðasta ári. Það mætti síðan halda áfram í greiningu á þeim verðmætum raforkusölunnar úr Kárahnjúkavirkjun. Út frá því gæti Austurland sennilega gert kröfur um að meira yrði eftir á svæðinu en laun þeirra sem standa vaktina í Fljótsdalsstöð og árshátíð á nokkurra ára fresti.

Landsvirkjun hefur í dag skýrt að 450 manns hafi sótt árshátíðina. Miðað við 100 milljónirnar væri það meðalkostnaður upp á um 220.000 á mann. Það er ríflegt, en hver er samanburðurinn við það þegar farið er erlendis, sem er ekki óþekkt meðal íslenskra fyrirtækja? Það er ekkert nýtt að Ísland sé dýrt. Ferðakostnaðurinn, það er að segja innanlandsflugið, ræður þar miklu um. Það hefur komið í veg fyrir að fleiri árshátíðir væru haldnar á Austurlandi. 

Árshátíðin skipti í það minnsta austfirsk ferðaþjónustu- og afþreyingafyrirtæki, sem eru almennt lítil, máli. Þau hafa lengi barist fyrir því að ná að markaðssetja sig þannig að stór íslensk fyrirtæki komi austur með ráðstefnur eða stórveislur. Þetta skiptir máli á landssvæði sem er með stutt ferðamannatímabil. Síðustu misseri hefur nýting utan sumarmánaðanna ekki verið þannig að hótelin treysti sér til að stækka þótt sumrin séu full. Þetta aftur heldur af þróun greinarinnar á svæðinu.

Af samtölum við þá sem tengdust veisluhöldunum hér eystra um helgina má ráða að helgin hafi verið veruleg búbót. Það var gist á fleiri en einu hóteli, heimsótt voru söfn og afþreyingafyrirtæki, keypt þjónusta af félagasamtökum svo sem björgunarsveitum og íþróttafélögum og svo framvegis. Þá er ótalið það sem starfsfólkið eyddi á eigin vegum í kaup á vöru og þjónusutu á Héraði.

Það væri fróðlegt að taka umræðu á breiðari grundvelli um árshátíðir ríkisstofnana. Þær hafa stundum verið haldnar erlendis. Það var til dæmis ákveðin kaldhæðni í að Skatturinn héldi árshátíð sína á Möltu vorið 2023, í landi sem skilgreint hefur verið sem skattaskjól. Þar fóru fjármunir út úr íslensku hagkerfi, öfugt við það sem gerðist á Austurlandi um helgina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar