Þrjú svínaflensutilfelli eystra
Þrjú tilfelli af svínaflensu, H1N1, hafa greinst á Austurlandi. Unnið er að gerð viðbragðsáætlunar fyrir svæðið. Austfirðingar virðast almennt rólegir vegna flensunnar sem virðist fremur væg.
Þrír fimmtán ára piltar frá Egilsstöðum smituðust á fótboltamóti í Gautaborg. „Þeir urðu ekki mikið veikir og náðu sér fljótt,“ segir Stefán Þórarinsson, lækningaforstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA).
Stefán segir Austfirðinga rólega yfir flensunni, sem virðist ekki ósvipuð þeirri árlegu flensu sem gangur yfirleitt seinni part vetrar.
„Sem betur fer virðist inflúensan vera fremur væg og skapar enn sem komið er ekki umtalsvert álag. „Nokkuð er um fyrirspurnir, mest í síma. Íbúar og starfsmenn eru að mestu rólegir enda virðist flensan vera í líkingu við hina árlegu inflúensu. Flestir hrista hana af sér tiltölulega auðveldlega enn sem komið er og hafa ekki þurft lyf.“
Stofnunin hefur sama viðbúnað vegna flensunnar og annars staðar, en aðgerðum stjórnar Haraldur Briem, sóttvarnalæknir. Verið er að leggja lokahönd á gerð viðbragðsáætlunar fyrri Austurland sem er liður í landsáætlunar Almannavarnadeilda ríkislögreglustjóra og sóttvarnarlæknis. Yfirlögregluþjónarnir Óskar Bjartmarz og Jónas Wilhelmsson stýra vinnunni, hvor í sínu lögregluumdæmi.
Stefán segir einkenni flensunnar vera hálssærindi og hósti en þeim geti fylgt hiti, beinverkir, metingaeinkenni og höfuðverkur. Hann ráðleggur fólki að liggja heima og gefa sér tíma til að láta sér batna annars aukist hættan á fylgikvillum og alvarlegri veikindum. Drekka þurfi nóg og nota algeng verkjalyf til að slá á einkennin ef þess þurfi. Við alvarlegri einkenni þurfi að snúa sér til læknis.
Sóttvarnarlæknir hvetur fólk sem finni til flensueinkenna að halda sig í heima í eina viku frá upphafi veikinda, eða þar til yfirgnæfandi líkur séu á að það smiti ekki aðra. Hreinlæti í daglegu lífi er áhrifaríkasta ráðstöfun almennings til að forðast inflúensusmit, það er handþvottur með sápu eða spritti.
Fjörutíu og sex svínaflensutilfelli hafa verið staðfest á landinu. Nánari upplýsingar má finna á influensa.is , landlaeknir.is og almannavarnir.is .