Rödd nærsamfélagsins um breytta neyslumenningu

Bestu þakkir til Tehússins og allra sem mættu á viðburð um nægjusemi á Egilsstöðum þriðjudagskvöldið 12. nóvember s.l. Húsfyllir var með um 40 manns. Fulltrúar þriggja kynslóða, þau Guðmundur Ármannsson á Vaði, Guðrún Schmidt hjá Landvernd og Glúmur Björnsson jarðfræðingur báru saman bækur sínar um mikilvægi nægjusemi með tilliti til velferðar manns og náttúru, og fengu svo salinn með í umræðurnar. Viðburðurinn er hluti af hvatningarátaki Landverndar og Grænfánaverkefnis undir heitinu Nægjusamur nóvember.

Kynslóðaspjallið


Eins og öllum er ljóst hefur neysla breyst mikið á undanförnum áratugum. Á meðan Guðmundur átti varla leikföng í æsku og bjó þau til sjálfur, eins og t.d. kassabíla, þá eru í dag barnaherbergin yfirfull af leikföngum, neyslumöguleikar okkar nær takmarkalausir og við að auki mötuð með afþreyingu í símum okkar. Guðmundi vantaði ekkert, átti góð föt og nægan mat og naut þess að láta sig dreyma. Nægjusemi taldist til dyggðar. Hins vegar virðist það núna á tímum allsnægta eins og okkur vanti alltaf eitthvað, við viljum sífellt meira og nýtt. Við eigum æ auðveldara með að uppfylla neysludraumana og þegar einn draumur hefur ræst bætist sá næsti við og svo koll af kolli. Við höfum mótað kerfi sem hvetur til sífelldrar neyslu og upphefur jafnvel græðgi. Þó eru teikn á lofti um breytingar, til dæmis aukast vinsældir nytjamarkaða og að gera við hluti sem bila. Fólk leitar einnig að meiri náttúrutengingu til að róa hugann og upplifa gleði, þakklæti og tilfinninguna að vera lifandi vera.

Það kom vel fram í umræðunum að hamingjan kemur innan frá og ekki frá hinu efnislega. Þau sem eru nægjusöm eru ánægð með það sem þau hafa og finna ekki fyrir þörf fyrir sífellt meira. Slíkt hugarfar stuðlar að virðingu, þakklæti og hamingju, sem eru gildi sem mikilvægt er að rækta. Hraðinn í samfélaginu er of mikill, en aukin nægjusemi getur dregið úr honum, aukið frelsi okkar, orku og frítíma.

Breytingar í átt að aukinni nægjusemi eru nauðsynlegar þar sem við lifum langt umfram þolmörk náttúrunnar. Þetta er áhrifamikil, fljótvirk og ódýr leið til þess að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og ósjálfbæra nýtingu auðlinda.

Rödd samfélagsins


Fundargestir í Tehúsinu voru fullir af visku og umbreytingaranda. Það var frábært að finna fyrir svona miklum áhuga og samhug og heyra allar góðu hugmyndirnar. Samhljómur var um það í salnum að við þurfum að kaupa minna, leggja áherslu á vandaðar og endingargóðar vörur, nýta hlutina betur og lengur og gera við frekar en að henda. Það er fyrst og fremst hugsunarhátturinn okkar sem er undirstaða breytinga á neyslumenningu í samfélaginu. Að nýta og gefa notað, að nota almenningssamgöngur, hjóla eða ganga ætti að vera sjálfsagt og venjulegt. Nægjusemi er sexí, sagði ein í salnum, og græðgin púkó. Nefnt var að endurheimta jólin úr klóm ofneyslu og hraða. Þónokkrir nefndu pistla Viðars Halldórssonar, félagsfræðiprófessors við HÍ til þess að skerpa á nauðsynlegum hugarfarsbreytingum. Einnig væri áhrifamikið að horfa á vandaðar heimildarmyndir m.a. um aðstæður verkafólks sem býr til ýmsar neysluvörur okkar. Með því að hætta að bera sig saman við aðra og spyrja sig alltaf hvort við þurfum virkilega hitt og þetta þá er hægt að draga verulega úr löngun í allskyns óþarfa. Fleiri mikilvægar leiðir eru að auka lífsgleðina og sjá fegurðina allt í kringum okkur, eins og í náttúrunni.

Bent var á mikilvægi þess að kaupa helst mat úr nærumhverfi, vera með heimaræktun, hafa kjötlausan dag einu sinni til tvísvar í viku og sóa hvorki mat né vatni eða rafmagni.

Stjórnvöld hafa ýmis tæki og tól til þess að stuðla að aukinni nægjusemi. Jákvæðir hvatar geta stuðlað að nýtni, leggja þarf áherslu á gæði, afnema virðisaukaskatt af viðgerðum, banna fyrirfram ákveðna fyrningu vara, setja tolla á vörur eins og frá Temu, Aliexpress, Shein o.fl. og draga úr flutningum heimshorna á milli. Það þarf að fækka utanlandsferðum m.a. opinberra starfsmanna og stjórnmálamanna og bæta almenningssamgöngur. Almennt var líka talað um það að stjórnvöld þurfi að forgangsraða, sérstaklega varðandi raforku, bæta samvinnu, skipta jafnar og stuðla að félagslegu eignarhaldi. Við þurfum að benda stjórnmálamönnum á alvarleika ofneyslunnar, veita þeim aðhald og spyrja út í stefnu þeirrar og áherslur varðandi ofneyslu, umhverfismál og orkumál. Einhverjir kölluðu jafnvel á byltingu og bent var á þann möguleika að mótmæla þegar ástæða þykir. Og auðvitað þarf að kjósa rétt í næstu kosningum, flokka sem leggja áherslu á umhverfið.

Áfram nægjusemi


Það ætti að vera sjálfsagt að vera meira nægjusamur. Að vera virkur þátttakandi í góðum breytingum er gaman og gefandi. Miðað við raddirnar sem heyrðust á viðburðinum erum við a.m.k. góður kjarni hér í samfélaginu sem vill stuðla að breyttri neyslumenningu. Norm er engin föst skilgreind staða heldur þróast áfram og það er ekki síst í höndum einstaklinga og hópa sem geta í krafti samheldni og skýrrar framtíðarsýnar leitt samfélagið áfram í þeirri þróun. Ég segi þá bara – áfram við sem viljum stuðla að aukinni nægjusemi, sýnum gott fordæmi, styðjum hvort annað og sýnum fram á að aukin nægjusemi er góð fyrir okkur sjálf, samfélagið og náttúruna.

Að lokum – tvær skemmtilegar vísur voru samdar á viðburðinum sem er gaman að birta hér.

Efnissóun alltaf lætur
Öfugþróun vitni ber
Sá hefur nóg sér nægja lætur
Nægtafróun sjálfbær er.
(Sigurður Jónsson)

Lítt spillir neysla nægjusemi
nú á okkar tíma
ef hvert og eitt við erum nemi
af öðrum - beint, án síma.
(Philip Vogler)

Höfundur er fræðslustjóri og sérfræðingur í menntateymi hjá Landvernd og íbúi á Egilsstöðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.