Rótarýdagurinn 24. Febrúar 2018 - Látum rödd Rótarý heyrast
Rótarýhreyfingin er alþjóðleg friðar- og mannúðarhreyfing sem starfar í öllum heimsálfum. Almenn markmið Rótarý er að efla samkennd milli manna, efla siðgæði og vinna að umhverfismálum.
Hver rótarýfélagi er fulltrúi sinnar starfsgreinar og miðlar til félaga sinna í hverju starf viðkomandi er fólgið. Þekkingarleit og virðing í notalegum félagsskap eyðir tortryggni og hvetur til góðvildar og friðar enda eitt af kjörorðum samtakanna „þjónusta ofar eigin hag“. Stefnan er að hafa fulltrúa sem flestra starfsgreina í Rótarý af báðum kynjum. Konur eru til muna færri í Rótarý ennþá en þeim er óðum að fjölga.
Rótarýsjóðurinn er á heimsvísu. Svokallað Pólíóplús-átak á hans vegum hófst árið 1985 og var takmarkið að safna peningum til að standa straum af bólusetningu allra barna í þróunarlöndunum gegn lömunarveiki og öðrum smitsjúkdómum og er árangurinn meiri en menn óraði fyrir. Sjóðurinn styrkir einnig háskólanemendur til framhaldsnáms í friðar- og þróunarfræðum. Íslendingar hafa hlotið tug slíkra stórra styrkja. Rótarýfélagar hafa trú sína og pólitískar skoðanir fyrir sig, en ræða þær ekki á fundum. Hreyfingin er opin öllum án tillits til trúar- eða stjórnmálaskoðana
Rótarýklúbburinn í Neskaupstað var stofnaður árið 1965 og eins og aðrir klúbbar á landinu hefur hann starfað að ýmsum framfaramálum í heimabyggð. Má þar nefna opinn fund þar sem fólk frá öðrum þjóðum sem hér býr sagði frá því hvernig væri að aðlagast samfélaginu, samkoma með eldra fólki á Sjúkradeild og Breiðabliki, gróðursetning trjáa ofl. Þá eigum við í góðum samskiptum við Rótarýklúbb Héraðs og hittum félaga þar reglulega. Almenn starfsemi eru fundir á miðvikudögum milli 18.45 og 20 frá september til maí, þar sem félagar borða saman og spjalla og síðan eru flutt um hálftíma erindi ýmist af félögum eða gestum. Þau eru undantekningarlaust fróðleg og áhugaverð og á eftir skapast oft líflegar umræður. Segja sumir að það jafnist á við stöðuga samfélagslega endurmenntun að vera félagi í Rótarýklúbbi. Í klúbbnum er vagga og gerjum ýmissa framfaramála, til dæmis Hollvinasamtaka sjúkrahússins og af og til erum við boðin í fyrirtæki þar sem starfsemi þeirra er kynnt á vettvangi.
„Kannski er næsta kynslóð, kynslóðin sem getur"
Nú í upphafi árs 2018 höfum við í Rótarýklúbbnum í Neskaupstað fengið til okkar fjórar ungar konur úr nærsamfélaginu sem gegna ábyrgðarstöðum til að segja okkur frá menntun sinni, lífi og starfi. Með tilliti til kjörorðsins „Kannski er næsta kynslóð, kynslóðin sem getur“ hafa þessi áhugaverðu erindi snert við félögum og víkkað sjóndeildarhringinn, að öðrum erindum ólöstuðum. Vel menntaðir einstaklingar með brennandi áhuga fyrir starfi og góðu mannlífi. Til framtíðar þarf Rótarýhreyfingin einmitt á slíku fólki að halda.
Kvikni hjá þér áhugi lesandi góður og þig langi til að kynna þér betur starfsemi Rótarýklúbbs Neskaupstaðar er þér velkomið að hafa samband við stjórnarmenn klúbbsins Áslaugu Lárusdóttur forseta, Vilborgu Stefánsdóttur ritara, eða Snorra Styrkársson gjaldkera.