Sá sem fyrstur hoppar frá borði á mestar líkur á að ná til lands

Ég hef setið einn tíma í almannatengslum. Reyndur íslenskur fréttamaður var með fyrirlestur um samskipti stjórnmálamanna eða annarra valdhafa við fjölmiðla.


Meginstefið var einfalt: Ef eitthvað óþægilegt er í nánd: segðu það sjálfur fyrst, segðu satt og segðu alla söguna. Ef þú getur ekki uppfyllt þessi skilyrði skaltu finna þér annað að gera.

Forsætisráðherrahjónin tóku fyrsta skrefið rétt þegar Anna Sigurlaug greindi frá eign sinni í Wintris Inc. á Facebook-síðu sinni. Tónninn var hins vegar sleginn um að gefa skyldi Gróu á leiti frí í kjölfarið.

Skjaldborgin um Sigmund

Frá bónda hennar hafa í kjölfarið fylgt bloggfærslur og viðtöl við aðra en RÚV; frá þingmönnum og öðrum fótgönguliðum Framsóknarflokksins ýmsar greinar og Facebook-færslur ásamt misheppnuðum smjörklípum eins og um 110 ára gagnaleyndina. Þeim hefur verið ætlað að sannfæra, ég veit ekki almennilega hverja, um hlutdrægni RÚV, illgirni andstæðinga Sigmundar Davíðs, hetjudáðir hans fyrir land og þjóð en fyrst og fremst um að mál Wintris þyrfti hreint ekki að ræða frekar.


„Yfirhylmingin er verri en glæpurinn“ er setning rakin til Watergate-hneykslisins. Uppruni hennar er rakinn til þingsmanns sem spurði spurningarinnar „hve mikið vissi forsetinn og hvenær vissi hann það?“

Nærtækt hefði verði að halda að ráðherra þessarar ríkisstjórnar hefði eitthvað lært af mistökum Hönnu Birni Kristjánsdóttur sem féll á eigið sverð eftir að hafa varið sig og sína með hroka og yfirgangi í lekamálinu svokallaða, sem einmitt reyndi að handvelja fjölmiðla til að tala við en hafna þeim sem óþægilegast var að svara.


Bæði Sigmundur og Hanna Birna hefðu átt að læra af sögunni um yfirhylminguna og fyrstu reglu almannatengslanna. Að segja söguna alla, draga ekkert undan og segja hana af auðmýkt. Eftir að fram kom ádeila um hagsmunaskráningu þingmanna hefði Sigmundur Davíð nýtt tækifærið til að biðjast afsökunar á að hafa ekki skráð félagið rétt og úrbótum.

Mögulega hefði það stöðvað lestina áður en hún komst á skrið. Núna er það orðið of seint og áreksturinn óumflýjanlegur. Spurningin er hverjir verða um borð í lestinni.

Segðu mér, segðu mér...

 

Það komu fram nýjar upplýsingar í gær. Þar var farið yfir tilurð félagsins og að það skyldi vera fært af nafni Sigmundar Davíðs að minnsta kosti átta mánuðum eftir að hann komst á þing með skjali dagsettu á gamlársdag. Dagsetninguna má kalla „athygliverða.“

Það vissu líka fáir enn að hann hefði gengið út úr viðtali við sænskan sjónvarpsmann þegar spurt var út í Wintris.

Málið er komið á þann stað að það skiptir ekki lengur hvað er satt í málinu. Trúverðugleiki forsætisráðherrans er brostinn. Fólk sem aldrei setur annað en skemmtisögur úr daglega lífinu eða myndir af börnunum sínum á Facebook heimtaði í gærkvöldi afsögn.

Það væri forvitnilegt að vita hvað þingmönnum hefur verið sagt síðustu daga. Vissu þeir allt um Wintris og viðtalið við fréttamanninn? Vissu þeir fyllilega hverju von var á í Kastljósi?

Þjóðin vissi það að minnsta kosti ekki. Henni var ekki sagður allur sannleikurinn og það er hún sem metur framtíð Sigmundar Davíðs sem og annarra þingmanna.

 

Flokkinn eða foringjann?

 

Sá sem fyrstur leikur djarft gæti verið sá sem sleppi best. Trúverðugleiki Sigmundar Davíðs er búinn. Valdatími hans í flokknum og ríkisstjórninni líka. Ef hann áttar sig ekki á því sjálfur þurfa aðrir að koma honum í skilning um það. Sá sem ríður á vaðið gæti unnið stórt en líka verið útilokaður fyrir lífstíð. Klöguskjóður eru aldrei vinsælar.

Stjórnarflokkarnir tveir eru komnir í einstaka klípu. Framsóknarmenn geta reynt að bjarga sér og flokknum með því að fórna foringjanum sem þeir síðustu daga hafa slegið skjaldborg um. Næst verður að meta hvort við taki nýr forsætisráðherra eða boðað verði til kosninga.

Þetta frumkvæði er líka eina leiðin til að kynda undir Bjarna Benediktssyni og Ólöfu Nordal þannig að Sigmundur Davíð taki ekki fallið einn.

Ef þeir hika getur Sjálfstæðisflokkurinn slitið stjórnarsamstarfinu og skilið þá eftir með eggið á andlitinu. Í kjölfarið færi flokkurinn inn í þingkosningar sem hetjan sem losaði þjóðina við spillta forsætisráðherrann sem smánað hafði Ísland á alþjóðavettvangi.

Næstu skref eru í höndum þingmanna stjórnarliðsins. Þeir geta bjargað sér, sínum flokkum og ríkisstjórninni en ekki Sigmundi Davíð um leið.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar