Saga um Flugfélag

Okkur hjónum var boðið til veislu um næstu helgi og við ákváðum að skella okkur. Við bókuðum flug fyrir hádegi í dag og borguðum 87.900 krónur fyrir flug fyrir okkur bæði frá Egilsstöðum til Reykjavíkur og aftur til baka. Eftir hádegi fékk ég svo tölvupóst þar sem tilkynnt var að veislunni hefði verið frestað.

Ég sem hef gengið í gegnum ýmislegt með Flugfélaginu fékk hnút í magann og áttaði mig strax á því að líklega hefði ég verið að tapa peningum. Ég hringdi því í Flugfélagið til að afbóka flugið. Ég var því mjög hissa þegar þjónustufulltrúinn sagði að það væri ekkert mál að afbóka og ég hristi hausinn yfir ruglinu í sjálfri mér. En svo kippti þjónustufulltrúinn mér inn í gamalkunnan raunveruleikann og sagði mér að það væri ekkert mál að afbóka, ég fengi rúmar 72.000 krónur endurgreiddar.

Hvernig getur þetta verið? Ég sat hér fyrir framan tölvuna í vinnunni og tapaði 17.000 krónum. Ég fór ekkert, ég fékk enga vöru og enga þjónustu en tapaði samt 17.000 krónum.

Mér finnst fullkomlega óþolandi hvernig komið er fram við okkur sem búum lengst frá höfuðborginni. Yfirleitt er flugið okkar eina tenging við höfuðborgina okkar. Það er fjarri því að ég geti alltaf keyrt þá rúmu 700 kílómetra sem ég þarf að fara hvora leið.

Þegar ég kaupi mér flug í gegnum netið þá er ég einfaldlega að versla í netverslun. Ef ég fæ enga vöru þá hlýt ég að eiga að fá hana að fullu endurgreidda. Annað er fáránlegt. Ef þetta er borið saman við aðra vefverslun þá er þetta einfaldlega galið. Ef ég bóka hótelherbergi hef ég alltaf ákveðin tíma til að afbóka og þarf þá ekki að borga. Ef ég panta mér skó á netinu og fótbrotna svo klukkutíma síðar er ekkert mál að hafa samband við verslunina. Ég borga ekkert í afpöntunargjald.

Því miður er þetta bara ein af mörgum sögum sem ég get sagt af samskiptum mínum við Flugfélagið þar sem ég annað hvort upplifi að ég hafi verið rænd eða að virðing fyrir tíma mínum sé engin.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar