Sagan af sérfræðingnum að sunnan

Hæ! Ég heiti Guðrún. Ég er 27 ára og ólst upp í Kópavogi. Í febrúar 2015 bauðst mér starf innan míns sérsviðs úti á landi og ég flutti því austur. Nei, ekki bara austur fyrir fjall heldur, þú veist, austur. Flestar tilkynningar þess efnis fóru einhvern veginn svona:

„Ha!? Ætlarðu að flytja á Neskaupstað??“
– „Maður segir víst Í Neskaupstað.“ (Það var eitt af því fyrsta sem verðandi samstarfsfélagar mínir kenndu mér og þar sem mér fannst vera lágmark að ég færi rétt með nafn bæjarins sem ég hugðist búa í tók ég þá lexíu alvarlega.)

„Fæn. Þekkirðu einhvern Í Neskaupstað?"
– „Neibb.“

„Hefurðu komið þangað áður?“
– „Neibb.“

„Hvenær flyturðu aftur í bæinn?“
– „Ég veit það ekki.“

„Bíddu, þú ætlar að flytja aftur í bæinn, er það ekki?“
– *Taugaveiklað fliss* „Ég veit það ekki.“

Ég er ekki að reyna að gefa í skyn að það hafi verið auðvelt að flytja í burtu frá mínum nánustu, það var í sannleika sagt bara helvíti erfitt, en það er sem betur fer auðvelt að halda sambandi með hjálp internetsins í dag og svo er innanlandsflug líka svo blessunarlega ódýrt. (Önnur af þessum fullyrðingum er röng, þið megið geta einu sinni hvor.)

Ég útskrifaðist sem náttúru- og umhverfisfræðingur í desember 2014 og var þá búin að vera í skóla samfleytt í um 20 ár. Sumum finnst það kannski ekki mikið en mér fannst vægast sagt vera kominn tími til að breyta til.

Ég fór um höfuðborgarsvæðið og spurðist fyrir um vinnu þar sem nýja, glansandi háskólagráðan mín fengi að njóta sín en þrátt fyrir að allir sem ég talaði við hafi verið mjög almennilegir og hjálplegir gekk það ekki upp. Mér var þó bent á þetta lausa starf fyrir austan og raddirnar í hausnum á mér sem sögðu: „Það er svo langt í burtu!“ viku fljótlega fyrir röddunum sem sögðu: „Varst það ekki þú sem vildir breyta til?!“

Á þessum stutta tíma hefur furðu mikið vatn runnið til sjávar. Ég og kærastinn fundum draumahúsið á Eskifirði og fluttum þangað (sem sumum Norðfirðingum fannst, undarlegt en satt, vera sprenghlægilegt, en verandi utanaðkomandi yppti ég bara öxlum og tek því fagnandi að fá að kynnast fleiri bæjum hér fyrir austan).

Ég veit ekki hvort það eru fjöllin, fólkið eða andrúmsloftið, hvort það er vegna þess að ég vinn við það sem ég hef áhuga á, er loksins byrjuð að gera eitthvað í framtíðarplönum sem sett voru einhvern tímann á síðustu öld, finnst ég vera að leggja eitthvað smá til samfélagsins eða sambland af þessu öllu saman en ég kann vel við mig hér.

Takk fyrir að taka svona vel á móti mér, Austurland! :)

Greinin er sú fimmta í greinaskrifaátaki ungra Austfirðinga. #UNGAUST

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.