Sóðaleg skilaboð?
Maður er nefndur DJ Óli Geir, Suðurnesjamaður, landsþekktur plötusnúður, umboðsmaður og fyrrverandi herra Ísland. Hann hefur meðal annars sérhæft sig í að spila fyrir unglinga í efstu bekkjum grunnskóla og samkvæmt Facebook-síðu hans „elskar hann“ að spila á Austurlandi.
Af öðrum afrekum hans má nefna „Dirty night/sóðakvöld/klámkvöld (setjið-inn-heiti-eftir-tísku-hverju-sinni)“ sem hann hefur staðið fyrir á nokkrum stöðum undanfarin ár. Í auglýsingamyndbandi fyrir kvöldið var nóg af áfengi, berum stelpum og gröðum körlum (jafnvel allt í einum ramma).
Jafnréttisráð Kópavogsbæjar spyrnti við fótum þegar Dirty Night-lestin boðaði komu sína á Players og lagði fram kæru þar sem auglýsingin væri jafn konum sem körlum til minnkunnar. Myndbandið var fjarlægt af netinu en partýið keyrt áfram „í sjötta gír“ eins og skemmtikrafturinn orðaði það sjálfur.
Þá þakkaði hann fyrir sig með því að gefa Femínistafélagi Íslands 50.000 krónur fyrir „frábært plögg“. Femínístafélagið kom hvergi nálægt, það voru gjörðir jafnréttisráðs bæjarins sem vógu þyngst. Hann baðst ekki afsökunar, hann gat ekki einu sinni gengið í burtu þegjandi og hljóðalaust. Hann varð að strá salti í sárið. „Óskammfeilið“ er orðið sem mér dettur í hug um peningagjöfina.
Í viðtölum viðurkenndi DJ Óli Geir að partýin væru á „gráu svæði“ en allt hefur til þessa reynst löglegt. En þó eitthvað sé löglegt má alltaf gera ráð fyrir að einhverjum ofbjóði. Gjörðir skapa ímynd sem um leið er söluvara viðkomandi. Velji menn að fara inn á gráa svæðið verða þeir líka að taka afleiðingunum.
DJ Óli Geir hefur að miklu leyti byggt sína ímynd á dúndrandi partý, hálfberum gellum (og að einhverju leyti gaurum líka), strákum með standpínu (það var einn slíkur í viðtali í auglýsingamyndbandinu) og andskotans nógu mikið af áfengi, helst sterku.
Flott fyrirmynd?
DJ Óli Geir er enn á leið austur, svæðis sem hann elskar. Að þessu sinni er það ekki einkaaðili sem flytur hann austur heldur bæjarhátíðin Ormsteiti, sem sveitarfélagið Fljótsdalshérað hefur staðið á bakvið. Hann er rækilega auglýstur í dagskránni og auglýsingaspjöldum því hann mun halda diskótek fyrir 13-17 ára við Braggann í miðbæ Egilsstaða.
Mér er sama hvað einkaaðilar gera. Eða svona næstum því. Ég beini viðskiptum mínum annað ef mér líkar ekki það sem þeir gera. Einfalt. En þegar opinberir aðilar eru farnir að borga laun til og hygla mönnum með ímynd eins og DJ Óli Geir hefur skapað sér finnst mér rétt að rétt að spyrja nokkurra spurninga.
Forsvarsfólk Fljótsdalshéraðs og Ormsteitis! Er þetta „fyrirmyndin“ sem við viljum halda að unglingunum? Finnst okkur eðlilegt að menn sem standa fyrir viðburðum, sem við teljum siðferðilega ranga, haldi áfram á okkar kostnað eins og ekkert hafi í skorist? Er ekki í lagi að leyfa þeim að finna fyrir afleiðingum gjörða sinna, að minnsta kosti þar til við sjáum að þeir hafa lært?
Sem, Óli Geir, hefur reyndar að einhverju leyti gert. Sóðakvöldin virðast ekki hafa verið haldin síðan í nóvember og kvöldi sem átti að vera á Akureyri í janúar var aflýst því það stríddi gegn jafnréttisstefnu sveitarfélagsins. Batnandi manni er vissulega best að lifa. Það er líka rétt að leyfa skemmtikraftinum að njóta þess að hann er hörkuduglegur og virðist fær á sínu sviði.
Þrátt fyrir það tel ég rétt að skoða skilaboðin sem send eru með ráðningu hans.