Sameining?
Markaðssetningin á sameiningu Austurkragans er mér ekki að skapi. Markmið kynningarfunda var að vinna hugmyndinni fylgi en ekki að upplýsa, þetta voru hnitmiðaðir áróðursfundir. Mér fyndist eðlilegt að í hverjum byggðakjarna væri íbúafundur þar sem heimamenn skoðuðu málefnið frá sínum bæjardyrum. Frá Seyðisfirði reyni ég það.
Lýðræðið
Við sameiningu Austurkragans verða íbúar samtals um 4700. Þar af yrðu 3500 íbúar á Héraði eða 75% allra íbúanna. Afstaða þeirra yrði því alls ráðandi í hinu nýja sveitarfélagi. Nú ræður hver kjarni sínum málum og ákvarðanir eru teknar af þeim sem þurfa að taka afleiðingunum.
Í sameinuðu sveitarfélagi eru ákvarðanir reyndar að mestu teknar af sérfræðingum sveitarfélagsins að lokinni faglegri athugun á málsatriðum. Skrifræði og forsjárhyggja aukast, báknið þenst út. Enda skulda stóru sveitarfélögin mest og eru með dýrustu yfirbygginguna. Ég tel að valdið eigi að vera sem næst þolandanum og grundvallast á byggðakjörnunum. Þannig vona ég að sameinað Austurland verði.
Sameiningarferlið
Tilurð Austurkragans er ekki liður í sameiningu heldur sundrungu í fjórðungnum. Það er verið að kljúfa Austurland í tvo póla, hund og kött. Ágreiningur Fjarðarbyggðar og Héraðs er þegar orðið höfuð viðfangsefni SSA og með Austurkraganum styrkist Héraðsvægið. Þetta væri mikil afturför og myndi tefja sameiningu Austurlands sem að mínu viti er næsta skref.
Fjármálin
Við sameiningu sveitarfélaga er fjárhagur- þ.e. tekjur, afkoma og skuldir - metinn og borinn saman. Sameining má ekki hafa í för með sér verulega aukna skuldabyrði einstakra byggða. Ég bar saman Seyðisfjörð og Hérað. Borgfirðingar hafa þokkalegar tekjur skulda í raun ekkert og mér sýnist staða Djúpavogs vera svipuð og Seyðisfjarðar:
A=sveitasjóður, lögbundin verkefni fjármögnuð með skatttekjum B=dótturfyrirtæki eða verkefni fjármögnuð með sértekjum t.d. hafnarsjóður og veitufyrirtæki
Heildartekjur á íbúa eru 27% hærri á Seyðisfirði en á Héraði. Þar munar mestu tekjur af dótturfyrirtæki, höfninni, en þrátt fyrir verulegar skuldir skilar höfnin 100 millj. króna rekstrarafgangi. Veitan og hjúkrunarheimilið, helstu skuldarar á Héraði skila hins vegar litlu og 1000 millj. króna fjárfesting bíður í skólpfráveituhreinsun.
Samkvæmt töflu hafa Seyðfirðingar til frjálsrar ráðstöfunar á íbúa næstum þrefalt meira en Hérað og þó svo framkvæmt hafi verið fyrir 127 millj. krónur á árinu þá var ekkert lán tekið á Seyðisfirði og skuldir lækkuðu um 43 millj. kr. Á Héraði var fjárfest fyrir 270 millj. kr. en skuldir lækkuðu hins vegar ekkert milli ára. Að frádregnum reiknuðum lífeyrisskuldbindingum og skuld við sjálfan sig!! þá skuldar bæjarsjóður Seyðisfjarðar aðeins 308 millj. kr. og á 37 millj. kr. á bankareikningi. Skuld þeirra er því í raun 271 millj. kr. eða 402 þús. kr. á íbúa. Höfnin og veiturnar skulda reyndar 470 millj. kr. en einingarnar eru reknar með góðum hagnaði og skuld þeirra íþyngir ekki bæjarsjóð. Hjá Héraði er heildarskuld samstæðunnar (fyrir utan líf.sj.) 7.650 millj. kr. og stórskuldug dótturfélögin skila nánast engu. Bæjarsjóður Héraðs verður því að standa undir 2,1 millj. kr. skuld á íbúa sem er 5 sinnum meira en hvílir í raun á hverjum Seyðfirðingi.
Bæjarsjóður Seyðisfjarðar verður með sama áframhaldi skuldlaus eftir örfá ár en skuldir Héraðs munu ekki lækka þó svo þeir sýni aðhald. Á Héraði er öflugt samfélag með vandaðar stofnanir og allt í góðri hirðu. En þeir eru skuldum vafðir og hafa nánast ekkert svigrúm til athafna. Seyðisfjörður á stórt verk framundan við stofnanamannvirki og allt umhverfi bæjarins. Þeir skulda hins vegar lítið, hafa góðar tekjur og geta farið í stórátak án skuldsetningar.
Með hliðsjón af framansögðu tel ég fráleitt að sameina Seyðisfjörð og Hérað. Hins vegar er ég fylgjandi því að öll sveitarfélög á svæðinu sameinist og þá verði fundin eðlileg leið til að jafna skuldaálag á byggðirnar. Framlag frá ríkinu upp á 1,2 milljarða breytir engu í þessari stöðu, það þarf miklu meir.
Sigurður Gunnarsson,
Lónsleiru 7,
710 Seyðisfirði.