Sameining sveitarfélaga á Austurlandi

Nú líður senn að því að kosið verði um sameiningu sveitarfélaganna Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar en kosning mun fara fram laugardaginn 26. október nk.

Eins og gengur þá sýnist sitt hverjum varðandi það hvort þessi sameiningarkostur sé vænlegur eður ei og í ljósi þeirrar umræðu er örlað hefur á bæði á samfélags- sem og í fjölmiðlum þá þótti mér rétt að fara yfir ferli þessa máls og helstu niðurstöður í stuttu máli.

11.10.2017

Upphafið má rekja til fundar er haldinn var á Egilsstöðum fyrir tveimur árum síðan, nánar tiltekið 11. október 2017. Þá komu saman til fundar fulltrúar sex sveitarfélaga á Austurlandi sem hafa haft með sér formlegt samstarf varðandi brunavarnir og félagsþjónustu. Ýmsu var varpað fram á þessum fundi eða allt frá því að auka samstarfið í að skoða jafnvel að sameina umrædd sveitarfélög. Niðurstaðan var sú að myndaður var samstarfshópur er í sátu fulltrúar frá sveitarfélögunum sex og var hópnum ætlað að koma með tillögur að þróun frekara samstarfs. Skemmst er frá því að segja að niðurstaða samstarfshópsins var sú að rétt væri að gera könnun á meðal íbúa umræddra sveitarfélaga varðandi það hvort það væri vilji til sameiningar. Í mars 2018 var síðan slík könnun framkvæmd í hverju sveitarfélagi fyrir sig og var niðurstaðan sú að afstaða íbúa til sameiningaráforma var afgerandi jákvæð í fjórum sveitarfélaganna en hjá tveimur, Fljótsdalshreppi og Vopnafjarðarhreppi, var höfnun íbúanna afgerandi.

Þar sem stutt var í sveitarstjórnarkosningar, er hér var komið, var ákveðið að aðhafast ekki frekar fyrr en að afloknum kosningum. Fulltrúar þessara fjögurra sveitarfélag komu síðan saman til fundar um miðjan september 2018 þar sem umræðuefnið var hvort grundvöllur væri fyrir sameiningarviðræðum og þá hvernig að slíku skildi staðið. Strax á þessum fyrsta fundi var rætt mikilvægi þess, ef til sameiningar kæmi, að standa vörð um stöðu og áhrifavald einstakra bæjarkjarna. Niðurstaða þessa fyrsta fundar var að fá utanaðkomandi ráðgjafa (RHA) til að vinna tillögu að ferillýsingu verkefnisins.

Að fenginni tillögu að ferillýsingu var tekin til þess afstaða af öllum sveitarfélögunum að um formlegt sameiningarferli skildi verða að ræða, þ.e. ekki könnunarviðræður heldur ferli sem yrði lokið með kosningu íbúanna um sameiningu á grundvelli tillagna er þá lægju fyrir. Formleg samstarfsnefnd, sem skipuð var þremur fulltrúum frá hverju sveitarfélagi, tók til starfa í byrjun nóvember og réð hún í byrjun desember til starfa með nefndinni verkefnisstjóra, RR-rágjöf, er leiða skildi þá vinnur er framundan var.

Ákveðið var strax í upphafi að samstarfsnefndin kæmi með virkum hætti að verkefninu í stað þess að fela framkvæmd þess aðkeyptri ráðgjöf. Þannig hefur samstarfsnefndin komið saman með reglubundnum hætti og hefur fram til þessa haldið 22 formlega fundi. Myndaðir voru sex starfshópar um helstu málaflokka skipaðir starfsfólki, kjörnum fulltrúum og fulltrúum félagasamtaka sem skiluðu af sér hugmyndum í lok febrúar. Mars fór í að vinna úr hugmyndum starfshópa sem og að funda með ráðherrum, embættismönnum og þingflokkum. Í apríl voru síðan haldnir íbúafundir með þjóðfundarformi þar sem fram komnar hugmyndir voru kynntar og óskað eftir afstöðu íbúanna til þeirra. Skemmst er frá því að segja að umræddir íbúafundir voru bæði vel sóttir og íbúar sem þangað mættu tóku virkan þátt í þeirri vinnu er þar fór fram. Ýmsar ábendingar komu þar fram sem nýttust vel við endanlega útfærslu samstarfsnefndar á tillögum sem voru síðan kynntar sveitarstjórnum í júní. Gerð var tillaga um 26. október sem kjördag og var sú tillaga samþykkt af öllum sveitarfélögunum.

Kynning á endanlegum tillögum sem kosið verður um áttu sér stað á íbúafundum 7. – 10. október auk þess að nálgast má þessar upplýsingar á heimasíðu verkefnisins (svausturland.is). Verði sameining samþykkt verður stefnt á kosningar til sveitarstjórnar vorið 2020.

Ólík sjónarhorn

Eitt af því sem ég tel að hafi verið farsælt fyrir verkefnið er samsetning samstarfsnefndarinnar en ég held að óhætt sé að segja að henni sé erfitt að líkja við svo kallaðan halelújakór. Skoðanir hafa verið skiptar og hefur það leitt af sér vandaðri vinnu en ella því að steinum hefur verið velt og málin rædd í þaula. Ég er því þeirrar trúar að þær tillögur er nefndin hefur orðið sammála um séu til þess fallnar að skila okkur öflugu samfélagi til framtíðar.

Eitt af því sem snemma kom upp og hefur verið ríkjandi áhersla í gegnum alla vinnuna er það hvernig verði komið í veg fyrir að áhrifamáttur minni kjarna hverfi við sameiningu inn í stærri heild. Þetta er eitt af því sem gagnrýnt hefur verið varðandi sameiningu sveitarfélaga fram til þessa. Án þess að ég fari að útlysta það nákvæmlega hér þá teljum við sem að þessu höfum unnið að sú hugmynd er lýtur að heimastjórnum muni bæði tryggja áhrifamátt nærsamfélagsins sem og að einfalda og auka skilvirkni stjórnsýslunnar.

Geta til framkvæmda

Mikil áhersla hefur verið á það lögð að greina fjármál sameinaðs sveitarfélags. Unnið hefur verið með fyrirliggjandi áætlanir sveitarfélaganna og við þær hefur verið bætt bæði viðhalds og framkvæmdaþáttum er talið er að þurfi að fara í en haldið hefur verið utan áætlana m.a. vegna þess að viðkomandi sveitarfélög hafa ekki treyst sér til að ráðast til umræddra verka. Niðurstaðan er fjárhagslega sjálfbært og öflugt sveitarfélag sem á innan við 10 árum á að geta uppfyllt ýtrustu framkvæmdakröfur er fram hafa komið við þessa vinnu.

Fram hafa komið athugasemdir varðandi það m.a. að skuldir á hvern íbúa í einstökum sveitarfélögum muni aukast frá því sem nú er. Þessu er ekki hafnað en vert er að benda á að í sameinuðu sveitarfélagi verður hægt að byggja upp öflugt framtíðarsamfélag án þess að til viðbótarskuldsetningar, þjónustuskerðingar eða tekjuröskunar komi. Sameinað sveitarfélag mun án vandkvæða standast öll þau fjárhagslegu viðmið sem til staðar eru í dag og jafnvel þau sem hugmyndir eru um í framtíðinni auk þess að geta sinnt nauðsynlegri framtíðaruppbyggingu í öllum kjörnum þess.

Eitt af því sem velt hefur verið upp er hvers vegna sé verið að stíga þetta skref í stað þess að fara í það að sameina öll sveitarfélög á Austurlandi í eitt. Ég, persónulega, er alveg sammála því að til lengri tíma litið þá muni verða farsælt að sameina öll sveitarfélög á Austurlandi í eitt. En við megum hins vegar ekki láta þá framtíðarsýn koma í veg fyrir það að við stígum núna skref sem er til þess fallið að efla slagkraft þess svæðis sem við búum á og þjónustuna við íbúana. Stærra skrefið er ekki raunhæfur valkostur í augnablikinu og látum það því ekki koma í veg fyrir að við stígum hið þarfa framfaraskref sem nú er í boði.

Höfundur er bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs og formaður samstarfsnefndar


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.