Sameinuð og samkeppnishæf

Nú ber hæst um þessar mundir að efna á til kosninga um sameiningu sveitarfélagana Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs, Seyðisfjarðar og Borgarfjarðar. Rétt er að halda til haga að undirritaður sat í fjölskipaðri samstarfsnefnd viðkomandi sveitarfélaga á síðasta kjörtímabili, þar sem hrundið var í framkvæmd skoðanakönnun þar sem leitast var við að kanna hug íbúa til sameininga. Er skemmst frá því að segja að niðurstaða úr skoðanakönnun þessari gaf fullt tilefni til að taka upp formlegar viðræður meðal þeirra sveitarfélaga sem nú verður kosið um þann 26. október.

Það er mitt mat sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður, hafandi kynnt mér stöðu mála með heildarhagsmuni svæðisins í huga, að vel hafi til tekist hjá fulltrúum sveitarfélaganna á þessari vegferð. Ég vil einnig hrósa þeim reynslumiklu ráðgjöfum sem sveitarfélögin höfðu sér við hlið við alla kynningu, sú reynsla skiptir miklu máli þegar miðla þarf mikilvægu efni fyrir íbúa.

Að gefnu tilefni langar mig að leggja nokkur orð í belg þar sem ég tel mig geta miðlað af nokkurri reynslu hafandi starfað um langt árabil inn á sveitarstjórnarsviðnu við margvíslegar kringumstæður.

Í meginatriðum má segja að á síðustu árum hafi orðið grundvallar viðhorfsbreyting innan sveitarstjórnarstigsins til sameininga sveitarfélaga og ástæður þess eru af margvíslegum toga sprottnar og sumar þeirra kannski ekki borið nægilega hátt í umræðunni.

Breytt umhverfi og nýjar áskoranir

Starfsumhverfi sveitarfélaga og margvíslegar áskoranir hafa svo ekki verður um deilt tekið meiri og hraðari breytingum á síðustu árum en menn hafa almennt gert ráð fyrir á vettvangi sveitarstjórnarstigsins. Segja má að skýrasta myndbirting þess hafi komið fram nýverið þegar stjórn Sambands Íslenskra sveitarfélaga ályktaði með miklum meirihluta á aukalandsþingi sínu að hvetja Alþingi að binda að lögum viðmiðun um íbúalágmark í þeirri viðleitni að stórefla sveitarstjórnarstigið.

Í kjölfarið hefur ráðherra sveitarstjórnarmála síðan fylgt eftir þessum áherslum meirihluta sveitarfélaga í landinu með því að leggja fram sérstakt frumvarp þar sem kveðið er m.a. á með lagasetningu að innan sjö ára verði lágmarksfjöldi í hverju sveitarfélagi skilyrtur við 1000 íbúa lágmark. Þó svo færi að frumvarp ráðherra muni ekki hljóta framgöngu í þinginu að þessu sinni um lágmarksíbúatölu þá liggur engu að síður fyrir að frekari sameiningar munu verða fyrr en síðar og þá munu samfélögin fá yfir sig þvingaðar sameiningar og þá líkast til með litla eða enga samningsstöðu sem þau hafa hinsvegar í dag.

Ábyrgð/skyldur og kjör sveitarstjórnarfulltrúa

Ég vil einnig gera hér að sérstöku umtalsefni starfsumhverfi hinna kjörnu fulltrúa sem almennt hefur ekki farið mikið fyrir í umræðunni og er það satt best að segja ekkert skrýtið, þar sem kjörnir fulltrúar eru ekki beint í góðri stöðu að ræða eigin kjör, kjör sem hafa ekki verið í nokkrum takti við þá ábyrgð sem þeir hafa. Þeir kjörnu fulltrúar sem hafa um árabil starfað inn á þessum vettvangi, sérstaklega hinna smærri sveitarfélaga, vita að svigrúmið sem gefið er til að kynna sér mál og vinna að þeim er ekki upp á marga fiska. Kjörnir fulltrúar hafa því þurft að nýta frítíma sinn afar vel til hafi þá langað að kynna sér einstök mál af kostgæfni og koma einhverju í verk. Þetta starfsumhverfi kjörinna fulltrúa er að mínu mati sannarlega einn allra stærsti veikleiki stjórnsýslunnar í smærri sveitarfélögunum. Sömuleiðis eru einnig kjör þeirra sem starfa í meðalstórum sveitarfélögum alls ekki eins góð og þau þau þyrftu að vera til að sinna þessu mikilvæga starfi fyrir samfélögin. En sannarlega er og verður munur á kjörum og starfsumhverfi kjörinna fulltrúa eftir því sem sveitarfélögin eru stærri og til þess ættu menn að líta til framtíðar og stórbæta úr í þessum efnum svo eftirsóknarvert verði fyrir fólk að starfa inn á þessum mikilvæga vettvangi.

Smærri sveitarfélög hafa einfaldlega enga burði að greiða götu fulltrúa sinna til að vinna að þeim verkum sem þeim er raunverulega er ætlað að sinna gagnvart samfélaginu. Afleiðingarnar eru nokkuð augljósar, sveitarstjórnarstarfið er og verður alls ekki eins eftirsótt og það ætti og þarf að vera og alltof fáir sækjast því eftir að bjóða fram krafta sína í þágu samfélagsins. Þessi þáttur einn og sér er áhyggjuefni þar sem margvíslegar skyldur og verkefni á hendur sveitarfélagana hafa farið stórum vaxandi á liðnum árum. Eina leiðin til að bæta úr í þessum efnum er því að efla og stækka sveitarfélögin svo kjörnir fulltrúar hafi burði til að sinna skyldum sínum í þágu samfélagsins.

Kröfur um meiri og betri þjónustu

Í dag standa sveitarfélög ekki einvörðungu frammi fyrir að veita lögbundna þjónustu. Ætli sveitarfélögin raunverulega að vera samkeppnishæf til framtíðar um íbúa og mæta auknum kröfum um hærra þjónustustig þá er ekki hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að þau verða að sameinast og stækka til að ráða við verkefnin. Í dag er ekki til sá þjóðfélagshópur sem ekki gerir kröfur um bætta og aukna þjónustu og það er líka bara eðlileg þróun í upplýstum heimi. En svo sé hægt að veita tilhlýðilega og víðtæka þjónustu gagnvart ólíkum hópum innan samfélagsins þarf að hafa fólk innan stjórnsýslunnar í fullri vinnu við að mæta þessum þörfum og kröfum.

Samkeppnin almennt

Þótt sameining sveitarfélaga taki alltaf sinn tíma og leysi ekki allan heimsins vanda á einni nóttu þá verður niðurstaðan engu að síður alltaf sú að samanlögðu að sveitarfélögin verða að stækka ætli þau á annað borð til lengri tíma að standast viðunandi samkeppni við önnur og stærri sveitarfélög. Það er sama hvar ber niður, heilbrigðismál, menntun, menning, tómstundir, samgöngur og fleiri innviðaþætti verður að halda áfram að styrkja á svæðinu og það mun aðeins gerast með stækkun sveitarfélagana. Atvinnulífið mun samhliða og í heild eflast á öllu svæðinu með auknum tækifærum sem verða til við samlegðaráhrif og samtal milli byggðarlaga.

Um hræðsluna að verða undir

Líkast til er sá þáttur sem mest er rætt um í smærri samfélögum, meðal þeirra sem hafa efasemdir, að þau verði undir og að sá stóri muni gleypa þá. Einmitt í ljósi þessara umræðu sem á fullkomlega rétt á sér, þá er sýndur vilji í verki til að mæta einmitt þessum þáttum með nýrri og áhugaverðri nálgun þ.e. með heimastjórnum, sem ég bind sannarlega vonir við að muni festa sig í sessi í einni eða annarri mynd sem styrkir hvert svæði fyrir sig og þeirra áherslur. Þá hef ég vegna fyrri aðkomu minnar að sameiningarmálum aldrei verið hræddur við að t.d. sveitarfélagið Djúpavogshreppur muni veikjast við það að sameinast. Staðreyndin er að fjarlægðir einar og sér gera það að verkum að eftir sem áður verður allt til staðar sem verið hefur og skiptir máli og það sem meira er að tækifærin og samlegðaráhrifin milli byggðanna gefa að mínu viti ekkert nema tækifærin til að eflast með auknu samstarfi og auknum slagkrafti. Djúpivogur, Borgarfjörður, Seyðisfjörður og Fljótsdalshérað verða því eftir sem áður til í þeirri mynd sem þau eru í dag með sína sérstöðu og áherslur, í því liggur meðal annars styrkleiki. Það munu líka öll hin sameinuðu samfélög/byggðarlög hvert um sig græða á því að hinum vegni vel og þannig verður svæðið sterkara sem heild, það græðir engin á veikleikum annarra í þessum efnum eða öðrum svo því sé haldið til haga.

Sameiningar styðja við samgöngubætur

Það sæmir auðvitað ekki undirrituðum í ljósi áralangrar baráttu inn á sveitarstjórnarsviðinu fyrir bættum samgöngum á svæðinu að láta undir höfuð leggjast að minnast á þann málaflokk undir þessari umræðu. Árið 2007 átti Djúpavogshreppur einmitt í sameiningarviðræðum við Fljótsdalshérað en þær viðræður runnu út í sandinn þegar efnahagshrunið dundi yfir og jafnhliða hrundi sá pottur sem þá lá inni hjá ríkinu til grundvallar sameiningunni. Heilsársvegur um Öxi varð þá raunverulega til á borðinu samhliða þeim sameiningaviðræðum en þá féllust stjórnvöld jafnhliða á að láta vegagerðina vinna heildstæða matsáætlun fyrir Axarveg, Berufjarðarbotn og Skriðdalsbotn. Fyrir liggur að öll sú mikla forvinna sem þá var innt af hendi greiðir nú fyrir því að hægt verður að ráðast að óbreyttu í nýframkvæmd og heilsársveg um Öxi strax á árinu 2021 og þar má auðvitað hvergi slaka á klónni fyrr en verkið verður opinberlega boðið út og framkvæmdir hafnar.

Það er sömuleiðis von mín að Fjarðarheiðargöng hljóti það brautargengi sem nú er stefnt að. Það væri mikil einföldun að segja að þær sameiningarviðræður sem nú eru í gangi hafi ekki jákvæð áhrif á báðar þessar gríðarlegu mikilvægu og lífsnauðsynlegu samgöngubætur á Austurlandi sem barist hefur verið um í áratugi. Borgfirðingar sjá einnig blessunarlega fyrir endann á sínum samgöngumálum, þannig að það er því ekkert til fyrirstöðu lengur að taka þá ákvörðun sem þarf að taka í þessu mikilvæga skrefi til að styrkja samfélögin á Austurlandi með stórbættum samgöngum.

Að lokum

Ekki verður annað séð en að samtalið milli sveitarfélagana í sameiningarferlinu hafi byggst á gagnkvæmu trausti þar sem ég tel að fulltrúum sveitarfélagana hafi jafnframt lánast að skapa heildstæða og trúverðuga sýn á hvernig hið nýja sameinaða sveitarfélag muni líta út í öllum meginatriðum. Í mínum huga er því án nokkurs vafa tækifærið núna þar sem íbúarnir hafa sjálfir hafa komið að borðinu og fengið að taka þátt í þeirri vinnu sem lögð hefur verið til grundvallar, við viljum ekki þvingaðar sameiningar.

Góðir íbúar – um leið og þið horfið á kjörseðilinn á laugardaginn, hugsið líka um afkomendur ykkar og framtíðina og að sameinuð sveitarfélög verða betur í stakk búin að takast á við framtíðina - framtíðin er núna.

Áfram veginn
Andrés Skúlason

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.