Samfélagssmiðja opnar í Blómabæjarhúsinu
Vorið 2017 auglýsti Norræna ráðherranefndin, á heimasíðu Skipulagsstofnunar, til umsóknar þátttöku í verkefni á vegum nefndarinnar. Bar verkefnið þann hógværa titil „Attractive Towns. Green redevelopment and competitiveness in Nordic urban regions. Towns that provide a good life for all.“ Sneri verkefnið að því að efla litla og meðalstóra bæi á Norðurlöndunum. Meginmarkmiðið með verkefninu var að móta sameiginlega norræna stefnu um hvernig þessir bæir gætu orðið meira aðlaðandi með þróun líflegs og sjálfbærs þéttbýlis með því að hafa að leiðarljósi Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.Fjögur íslensk sveitarfélög voru samþykkt í verkefnið, eru það Fljótsdalshérað, Sveitarfélagið Hornafjörður, Akranes og Mosfellsbær. Einnig taka fjórtán önnur sveitarfélög frá Svíþjóð, Noregi, Danmörku og Finnlandi þátt í verkefninu.
Undirbúningsráðstefna verkefnisins var haldin í Osló í Noregi í september 2017. Þar komu saman fulltrúar allra þátttökusveitarfélaganna til að hefja vegferðina og stilla saman strengi fyrir næstu tvö ár. Sveitarfélögunum átján var skipt í fjóra hópa þar sem tekið var mið af þeim áskorunum og tækifærum sem bæirnir standa frammi fyrir og var gert grein fyrir í umsóknunum.
Hver hópur, af þeim fjórum sem myndaðir voru í Osló, vann saman að þarfagreiningu og þróaði í sameiningu þau verkefni sem sveitarfélögin skyldu taka sér fyrir hendur.
Á Fljótsdalshéraði var unnið með að auka þátttöku íbúa sveitarfélagsins að ákvarðanatöku og stefnumótun. Að auki var unnið með miðbæ Egilsstaða, eða skort þar á, og hvernig hægt væri að gera hann meira aðlaðandi.
Þessa dagana er verið að breyta „Blómabæjarhúsinu,“ gömlu gróðurhúsi nálægt miðbæ Egilsstaða, í nokkurs konar samfélagssmiðju. Smiðjunni er ætlað að vera vettvangur íbúa sveitarfélagsins til að koma sínum hugmyndum og athugasemdum á framfæri. Þar verða starfsfólk og kjörnir fulltrúar til skrafs og ráðagerða, alltaf með heitt á könnunni. Að auki verður þar fundarými og laust pláss fyrir hvers konar viðburði, uppákomur og fundi. Þá er stefnt að því að nýta húsið á ýmsa vegu í þágu samfélagsins. Svæðið utanhúss verði gert aðgengilegt og líflegt svo það verði nokkurs konar „miðbæjarígildi“ og aðlaðandi fyrir bæði heimafólk og gesti til að staldra við.
Opnun samfélagssmiðjunnar verður þriðjudaginn 11. júní kl. 15:00 og opið verður til kl. 18:00. Hægt verður að skoða m.a. skipulagstillögur auk hugmynda um ásýnd Blómabæjarreitsins. Til skrafs og ráðagerða verða Björn Ingimarsson, bæjarstjóri, og Anna Alexandersdóttir, formaður bæjarráðs, ásamt fleira starfsfólki og kjörnum fulltrúum sveitarfélagsins. Léttar veitingar í boði.
Opnunartímar smiðjunnar frá og með 11. júní, til og með 27. júní, verða á mánu-, þriðju- og fimmtudögum, frá kl. 15:00 – 18:00 og með viðveru verða bæði starfsfólk stjórnsýslu og kjörnir fulltrúar. Opnunartímar frá og með 12. ágúst verða nánar auglýstir þegar nær dregur.
Höfundar starfa hjá sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði