Síðasti dagur krafmikillar Sumarhátíðar UÍA
Sumarhátíð UÍA er nú á lokaspretti sínum í dag. Keppnin hefur farið vel fram, þrátt fyrir köflótt veðurfar, sem nú virðist standa til bóta. Lokið er keppni í knattspyrnu, golfi og sundi og síðasti dagur frjálsíþróttakeppninnar af þremur framundan. Hefjast leikar á Vilhjálmsvelli kl. hálftíu og reiknað með að keppni ljúki um klukkan þrjú. Í dag keppa meðal annarra tíu ára og yngri sem eru að stíga sín fyrstu spor á frjálsíþróttunum. Kl. 14 byrjar opin boccia keppni, sú fyrsta með því sniði sem haldin er á Sumarhátíð. Þrír eru saman í liði og geta þeir sem vilja sett saman lið og skráð til leiks. Klukkan þrjú verður ræst 10 km bæjarhlaup frá Fjölnotahúsinu í Fellabæ. Klukkustund síðar verður 5 km skemmtiskokk í Selskógi.
Á vef UÍA segir frá því að hlauparar sem hlaupa Friðarhlaupið umhverfis Ísland hafi verið meðal gesta á hátíðardagskrá Sumarhátíðarinnar í gær. Hlaupararnir, sem hlaupa með friðarloga hringinn í kringum landið, komu þá til Egilsstaða frá Höfn. Barnaskari af Sumarhátíð, undir forystu Ólafs Sigfúsar Björnssonar, starfsmanns UÍA, hljóp hring á Vilhjálmsvelli með hlaupurunum. Krakkarnir skiptust á að halda á kyndlinum í hringnum. Hlauparnir fluttu gestum friðarboðskap, sögðu frá hlaupinu og fóru í létta boðhlaupskeppni við krakka frá UÍA sem UÍA krakkarnir unnu.
Um 150 keppendur tóku þátt í knattspyrnumóti Sumarhátíðar á Fellavelli í gær. Keppt var í 5. 6. og 7. flokki. Liðin voru blönduð. Til leiks voru skráð lið frá Hetti, Fjarðabyggð, Neista, Einherja og Ásinum. Í mótslok voru grillaðar pylsur og allir fengu viðurkenningapeninga.
Guðmundur Hallgrímsson og Björn Pálsson, sem báðir skráðu sig til keppni fyrir Súluna, eru elstu keppendur Sumarhátíðar UÍA til þessa. Þeir kepptu í spretthlaupi og kúluvarpi á föstudagskvöld. Guðmundur hljóp 100 metra hlaup á tímanum 17,15 sekúndum, en hann er 73ja ára. Hann kastaði kúlu 7,96 metra. Þar tapaði hann fyrir Birni, sem er 69 ára í ár. Björn kastaði kúlunni 8,57 metra. Guðmundur stefnir á keppni í starfshlaupi á Landsmóti UMFÍ á Akureyri um næstu helgi.
Nánari fréttir af Sumarhátíðinni má finna á vefslóðinni www.uia.is.
Mynd: Frá friðarhlaupinu á Vilhjálmsvelli/UÍA