Seinkun á Fjarðarheiðargöngum vegna Suðurleiðar?
Fyrirhuguð Fjarðarheiðargöng milli Fljótsdalshéraðs (Egilsstaða) og Seyðisfjarðar verða mikil samgöngubót og lyftistöng fyrir atvinnulífið á svæðinu, auk þess að tengja saman alþjóðaflugvöllinn á Egilsstöðum við stórskipahöfnina á Seyðisfirði. Vonast er til að göngin geti farið í útboð 2023 og framkvæmdir hafist í kjölfarið.Dýr framkvæmd, borgar hún sig?
Þetta eru löng göng, 13,3 kílómetrar. Kostnaður var metinn 44-47 milljarðar króna í desember 2021. Göngin leysa af hólmi erfiðan fjallveg um Fjarðarheiði, þar sem þungaumferð er mikil vegna útflutnings vara til og frá landinu með ferjunni Norrænu.
Á Seyðisfirði búa um það bil 700 manns. Ef þessi göng væru eingöngu til að leysa samgönguvanda íbúa, þá væru þau ansi dýr, um 67 milljónir á íbúa. Sem betur fer hafa göngin stærri tilgang en þann að greiða samgöngur íbúa, því þau eru afar mikilvæg fyrir atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu Múlaþingi og raunar Austurlandi öllu. Göngin munu styrkja eina bestu höfn á landinu Seyðisfjarðarhöfn auk þess að styrkja vannýttan Egilsstaðaflugvöll. Ef vel verður staðið að skipulagi Héraðs megin munu göngin einnig laða til sín atvinnurekstur sem sér hag í að vera nærri slíkum mannvirkjum. Bein afleiðing af auknum atvinnurekstri er fólksfjölgun. Göngin eru því tækifæri til að stuðla að mótvægi við SV-horn landsins í uppbyggingu og létta af þenslu á því svæði.
Leiðarval frá göngum
Nokkrar deilur hafa sprottið upp um leiðarval frá göngum Héraðs megin, þar sem valið stendur á milli Norðurleiðar og Suðurleiðar. Af vegtækni- og kostnaðarlegum ástæðum mælti Vegagerðin með Suðurleið, sem reyndar við betri athugun kom í ljós að kostnaðarmunur er lítill sem enginn og með ákveðnum lagfæringum á veglínu og gatnamótum Norðurleiðar er umferðaröryggi áþekkt ef ekki betra á Norðurleið, sérstaklega ef tekið yrði tillit til gangandi/hjólandi umferðar um Fagradalsbraut. Vegagerðinni láðist að taka það inn í umferðaröryggismat sitt en er stórmál í hugum íbúa.
Skipulagslega er óumdeilt að Norðurleið hefur fjölmarga stóra kosti fram yfir Suðurleið, sem of langt mál væri að tíunda hér. En um slíkt hefur verið meðal annars fjallað ítarlega í greinasafni Sveins Jónssonar verkfræðings í Austurfrétt fyrr á þessu ári.
Að auki er Norðurleiðin mun ákjósanlegri til að laða að atvinnustarfsemi á svæðið, vegna áðurnefndrar tengingar við flugvöll og stórskipahöfn.
Suðurleiðin valin
Á átakafundi sveitarstjórnar Múlaþings 14. september síðastliðinn var samþykkt að velja Suðurleiðina af fremur óljósum veikum rökum sem flest hafa verið send til föðurhúsanna fyrir löngu:
1. Ódýrari, hætta á að sveitarfélagið þurfi að greiða mismuninn ef Norðurleiðin yrði valin.
Í fyrsta lagi gilda lög um slíkan kostnaðarmun eingöngu ef báðir valkostir væru á sama skipulagssvæði. Sú er ekki raunin í þessu tilfelli. Auk þess hefur nú verið sýnt fram á að Norðurleið sé alls ekki dýrari þar sem brýr á Norðurleið voru stórlega ofmetnar. Auk þess eru sennilega votlendisvandamál stærri á Suðurleið en Vegagerðin sá fyrir í mati sínu.
2. Það verður bara að samþykkja það sem Vegagerðin lagði til því annars seinkar verkinu.
Með öðrum orðum hræðsluáróður. Það er sveitarstjórnar alfarið að ákvarða leiðarval, enda fer hún með skiplagsvaldið. Vegagerðin er aðeins til ráðgjafar vegtæknilega.
3. Miðleið um Selbrekku helst opin með Suðurleið.
Reyndar er sá kostur einnig til staðar fyrir Norðurleið en þarf síður þar. Það að miðleið verður opin mun þýða að megnið af umferðinni fer þá leið, en aðeins þungaumferð um Suðurleiðina sjálfa. Það er því lítið gagn af Suðurleiðinni og gangandi og hjólandi á Fagradalsbraut búa við sömu umferðarhættu og áður.
4. Tengivegur við núverandi iðnaðarsvæði á Egilsstöðum.
Á það skal bent að iðnaðarsvæði þetta er lítið og sennilega til lengri framtíðar, deyjandi. Þörf er á nýju iðnaðarsvæði norðan Eyvindarár (þar sem Norðurleið færi um).
Í umræðunni hafa engin skipulagsrök komið fram fyrir Suðurleið.
Blikur á lofti, umhverfisslys
Nýverið hefur umhverfisumræða orðið háværari vegna leiðarvalsins. En útfrá náttúrvernd er galið að ætla að velja Suðurleiðina sem fer um háan birkiskóg auk eina alvöru blæasparskóg landsins.
Í Egilsstaðaskógi er stærsti og merkilegasti fundarstaður blæaspar á landinu. Einstakt náttúruvætti á landsvísu. Hæstu blæaspirnar eru allt að 10-12 m háar. Tíundi kafli, 61. gr. náttúruverndarlaga kveður skírt á um að slíku svæði skuli ekki raska nema brýna nauðsyn beri til. Brýna nauðsyn ber ekki til í þessu tilfelli því önnur leið er í boði þ.e. Norðurleið.
Telja má mjög líklegt að náttúrverndarsamtök kæri framkvæmd Suðurleiðar sem gæti orsakað margra ára frestun á jarðgangnaframkvæmdinni sem er boðin út í heild með vegakerfi að göngum.
Niðurlag
Hætt er við margra ára málaferlum vegna Suðurleiðar sökum náttúrverndar, sem mundu tefja að hægt væri að hefja framkvæmd við Fjarðarheiðargöng.
Sveitarstjórn þarf að sýna fram á að Fjarðarheiðargöng séu þjóðhagslega hagkvæm og þá ekki síst með tilliti til atvinnuuppbyggingar. Auðvelt er að sýna fram á að göng með Norðurleið muni stuðla að aukinni atvinnuuppbyggingu. Það sama verður vart sagt um Suðurleið.
Sveitarstjórn Múlaþings er því með ákvörðun sinni um Suðurleið að stefna Fjarðarheiðargöngum í voða. Til að forða slíku og tryggja betur framgang gangnaframkvæmdanna vona ég að sveitarstjórn fái visku og djörfung til að breyt ákvörðun sinni og velja Norðurleiðina.
Blæaspir í Egilsstaðaskógi 10-12 metra háar, skaga hátt upp úr aðliggjandi birkiskóg.
Höfundur er framkvæmdastjóri og sveitarstjórnarmaður minnihluta í Múlaþingi