Send til þjónustu við jólin!

Þegar ég var 16 ára og á fyrsta ári í framhaldsskóla fékk ég vinnu á póstinum í jólafríinu mínu. Líkt og hinir jólakrakkarnir átti ég að aðstoða einn af föstu bréfberunum í jólaösinni, flokka póst og bera út.

Ég hafði frekar litla reynslu af vinnumarkaði, en ég var spenntur fyrir þessari vinnu og tók hana mjög alvarlega. Svona eftir á, nú rúmum 20 árum síðar, má vel orða það svo að mér hafi fundist ég vera sendur til þessarar þjónustu; já, jafnvel sendur sem einn af boðberum jólagleðinnar til íbúanna í þessu tiltekna póstdreifingarhverfi!

Það skal þó viðurkennt að vinnan var erfiðari en ég hafði séð fyrir mér. Þetta var fyrir tíma samfélagsmiðlanna og mikið um að fólk sendi hefðbundnu jólakveðjurnar með póstinum, og með hverjum deginum sem leið fram að hátíðinni virtust mér jólakortahrúgurnar bara stækka og stækka. Í reykvíska desemberslabbinu og hálkunni urðu sporin þung með póstinn, og auðvitað var komið langt fram í myrkur þegar vinnu lauk dag hvern. Sjálfsagt hef ég nú unnið talsvert hægar en til var ætlast!

Loks rann aðfangadagur upp og enn átti ég að mæta í vinnuna á póstinum, flokka síðustu jólakortin og bera út fram að hádegi. Jú, vissulega hélt ég af stað með pósttöskurnar þungu. En þó að veður væri gott urðu sporin jafnvel enn hægari en áður, enda hugurinn nú bundinn af komandi hátíðahöldum, því að ennþá hélt ég í mína barnslegu tilhlökkun fyrir aðfangadagskvöldi. Nú varð klukkan tólf á hádegi, og síðan eitt, og enn var nægur póstur eftir í pokunum. Þegar klukkan var tekin að ganga þrjú á aðfangadag gafst ég upp, tók strætó og laumaði mér inn í póstmiðstöðina, þar sem fáir voru eftir í vinnu, og skildi fullan jólakortapoka eftir á lítt áberandi stað. Ekki er hægt að segja að yfirmenn mínir hafi orðið kátir þegar pokinn fannst, er við mættum til vinnu þann 27. desember, en engin eftirmál urðu nú af þessu.

Ég hafði verið sendur til þjónustu við jólin, lagt eitthvað af mörkum, en þó ekki tekist upp sem skyldi!

Fyrir kristinni kirkju er merking aðventunnar koma Krists til okkar og undirbúningur jólanna felst í að greiða veginn fyrir þá komu inn í okkar líf. Í Biblíunni er sagt frá því hvernig Jóhannes skírari var sendur til að boða komu Krists, ryðja brautina fyrir Guðs son. Jóhannes var sendur til þjónustu, og honum tókst auðvitað mun betur að koma jólaboðskapnum til skila en unga póstberanum sem hér var sagt frá!

Jóhannes var sendur til að benda á Krist og sagðist sjálfur vera „rödd hrópandans í eyðimörkinni“ sem Jesaja spámaður hafði sagt fyrir um að myndi koma með skýran boðskap: „Ryðjið Guði vorum beina braut í auðninni, sérhver dalur skal hækka, hvert fjall og háls lækka og hólarnir verði að jafnsléttu“ eins og það er orðað hjá spámanninum. Þannig er minnt á þann einstaka og stórkostlega viðburð sem koma Jesú Krists í heiminn er. Meira að segja nafn Jóhannesar vísar á jólaboðskapinn um kærleika Guðs, sem birtist okkur í Jesú Kristi, því að merking þess á hebresku er: Drottinn hefur sýnt náð.

Jóhannes var sendur til að þjóna hinum komandi Kristi. Hann var sendur á undan, sendur til að vitna um Krist, til að predika iðrun og betri breytni. Hann var til dæmis sendur til að predika um gildi þess að gefa með sér og hafa ekki fé af neinum. Og hann var líka sendur til að skíra til nýs lífs, og fólkið streymdi til hans, vegna þess að margir vildu breyta lífi sínu til betri vegar og þiggja fyrirgefningu Guðs.

Þegar Drottinn Jesús varð síðan fullorðin manneskja og starfaði meðal okkar, sendi hann líka lærisveina sína út til þjónustu. Eftir upprisuna sendi hann þá til að fara, boða sitt orð og skíra í sínu nafni.

Við erum einnig send, hvert með okkar hætti, í þjónustu Jesú og þar með – getum við sagt – í þjónustu jólanna. Auðvitað tekst okkur misjafnlega upp, rétt eins og mér með jólapóstinn forðum daga, en við leggjum okkar af mörkum.

Jódís Skúladóttir, nýkjörinn þingmaður héðan af Héraði, flutti hugvekju á aðventusamveru ársins í Egilsstaðakirkjunni, sem var birt á vefnum egilsstadakirkja.is fyrir nokkrum dögum. Þar sagði hún eftirminnilega frá eigin reynslu sem ung móðir af fátækt, og að eiga ekki fyrir mat fyrir barnið sitt. Hún sagði frá því að skömmu fyrir jól við slíkar aðstæður hefði hún upplifað að koma heim til sín og finna nafnlausan glaðning á hurðarhúninum, matarpoka, jólagjöf og bónuskort. Enn þann dag í dag sagðist hún ekki vita hver gefandinn hefði verið.

Einhver var send, eða sendur, til Jódísar á sínum tíma, sendur með jólaboðskapinn, sendur í þjónustu hans sem við fögnum á helgum jólum.

Skyldum við einnig þora að fara af stað, til þjónustu við jólin? Og jafnvel þó að okkur heppnist ætlunarverkið misjafnlega, eins og mér með pósttöskurnar forðum, eigum við nokkuð að láta hugfallast?

Hvert skyldum við vera send – þú og ég?

Gleðileg jól.

Höfundur er sóknarprestur í Egilsstaðaprestakalli

egskirkja jol2021

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.