Sérfræðingar í andfjölmiðlun

Það er í besta falli kaldhæðni að menntamálaráðherra hafi í síðustu viku þingsins lagt fram tillögu um athugun á rekstri einkarekinna fjölmiðla. Tillagan kom eftir umræður í þinginu og ábendingar fulltrúa fjölmiðlanna.


Gert er ráð fyrir að gerð verði úttekt stöðu fjölmiðlanna í ljósi aðstæðna á auglýsingamarkaði og sóknar erlendra aðila. Bent er á veitur eins og Netflix og Hulu og að sífellt stærri hluti auglýsingafjár sé notaður til að kaupa auglýsingar hjá stórum erlendum fyrirtækjum eins og Google og Facebook.

Vísbendingar séu um að auglýsingamarkaðurinn hafi ekki vaxið sem skyldi þrátt fyrir batnandi efnahag þjóðarinnar og stendur til að kanna hvort breyta þurfi lagaumhverfinu.

Reykjavíkurfjölbreytnin

Fyrsta skrefið kom nú í vikunni þegar menntamálaráðherra skipaði nefnd til að gera tillögur um breytingar á lögum eða nauðsynlegar aðgerðir „til að bæta rekstrarumhverfi og tryggja að hér á landi fái þrifist fjölbreyttur markaður frjálsra fjölmiðla með með tilliti til mikilvægs hlutverks þeirra fyrir lýðræðisþróun og samfélagsumræðu.“

Nefndin sé skipuð þar sem fulltrúar einkarekinna fjölmiðla hafi vaktið athygli stjórnvalda á erfiðleikum sem við blasi. Í nefndinni sitja fjórir fulltrúar skipaðir án tilnefningar og einn frá fjármálaráðherra. Í einni frétt um málið er því haldið fram að við valið hafi verið horft til þess að sjónarmið mismunandi fjölmiðla endurspeglist sem best.

Ekki verður í fljótu bragði séð að nokkur nefndarmanna hafi reynslu af héraðsfréttamiðlum. Strax á fyrsta degi má því draga þá ályktun að nefndinni sé ætlað að reyna að varðveita stöðu stórra miðla sem dreifa fjöldaframleiddu afþreyingarefni frekar en stuðla að fjölbreytni, lýðræðisþróun eða samfélagsumræðu. Stóru Reykjavíkurmiðlarnir séu að reyna að skara eld að eigin köku.

Áður en til kosninga kom var líka samþykkt að skipa nefnd með fulltrúum allra flokka til að vinna úttekt á fjölmiðlunum. Það er vel við hæfi enda fáir til jafn færir í að beina auglýsingum sínum frá einkareknum, ritstýrðum fjölmiðlum og stjórnmálaflokkarnir.

Að vera til staðar þegar hentar

Ég ritstýri tveimur austfirskum fjölmiðlum. Austurfrétt, daglegri frírri útgáfu á netinu og Austurglugganum, sem er prentaður vikulega og sendur áskrifendum. Annar ritstýrður miðill er á svæðinu, Austurlandið, gefið út á tveggja vikna fresti í frídreifingu.

Síðan er það Dagskráin. Dreift frítt en ekkert efni, bara auglýsingar.

Í síðasta Austurglugga fyrir kosningar birtum við 1,5 síðu af aðsendum greinum frá frambjóðendum. Greinarnar voru miklu fleiri þá vikuna á Austurfrétt. Eitt framboðið sendi til dæmis tvær tveimur dögum fyrir kjördag og óskaði eftir birtingu sem allra fyrst. Við því var orðið.

Við reyndum að heyra í framboðunum varðandi auglýsingar. Það bar misjafnan árangur. Þrátt fyrir úthringingar fengum við ekki ígildi greinanna í blaðinu. Þrjú framboð keyptu auglýsingar á Austurfrétt, og í tveimur tilfellum er það fyrir brot af þeim fjárhæðum sem farið hafa í prentauglýsingar annarsstaðar.

Að ráðstafa auglýsingum

Í síðustu Dagskrá fyrir kosningar voru hins vegar um 10 síður af auglýsingum frá framboðunum. Miðað við fulla verðskrá greiddu framboðin alls rúmar 600.000 krónur fyrir birtingarnar. Reikningurinn til Sjálfstæðisflokksins hljómaði trúlega upp á 230.000 þúsund þá vikuna og bæði Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin greiddu vel yfir 100.000 krónur.

Þegar auglýsingastjóri okkar hafði samband við kosningastjóra Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu var svarað að haldið væri að sér höndum. Það var þá! Vikunni eftir kosningar var skattgreiðendum þakkað fyrir aukinn ríkisstyrk næstu fjögur árin með enn einni heilsíðunni!

Eins má bæta við að þessir þrír flokkar sendu allir dreifibréf sem biðu kjósenda í póstkassanum þegar þeir komu heim eftir vinnu tveimur dögum fyrir kosningar.

Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokki til varnar má segja að hvorugur flokkurinn sendi aðsenda grein til austfirskra miðla. Kosningabarátta, einkum síðartalda flokksins, hefur verið með eindæmum ósýnileg eystra þar til nánast nokkrum dögum fyrir kosningar.

Það má reyndar segja um fleiri. Síðan tókst þeim nánast öllum þremur dögum fyrir kosningar að boða til opinna funda á sama tíma til að predika fyrir kórinn.

Með öðrum orðum: Flokkarnir höfðu tækifæri til að styðja við einkarekna ritstýrða fjölmiðla sem haldið er úti í nafni lýðræðis- og samfélagsumræðu. Þeir kusu að gera það ekki. Þeim fannst hins vegar sjálfsagt að nota þá til að koma skilaboðum sínum frítt á framfæri og voru ófeimnir við að beina tekjum sínum úr landi, til áðurnefndra risa Facebook og Google.

Fallegu orðin

Opna fundi framboðanna reyndi ég að elta 2013 og að einhverju marki 2007, í fyrri tveimur kosningunum sem ég hef fjallað um sem héraðsfréttablaðamaður. Ég hef líka reynt að ná fundum flokkanna á miðjum kjörtímabilum eins og mér hefur framast verið unnt. Þessar ferðir mínar skiluðu umfjöllun um flokkanna sem vitaskuld birtist í miðlum undir minni ritstjórn án nokkurs endurgjalds. Ég hef aldrei séð fulltrúa Dagskrárinnar á þessum fundum.

Blessunarlega sleppti ég þeim í ár og horfði frekar á fótbolta. Eða öllu heldur, þar sem ég sá fram á að ná aldrei nema takmörkuðum hluta framboðanna sparaði ég mér yfirvinnuna núna. Ég vil hins vegar gjarnan elta þessa fundi því ég tel það hluta af því lýðræðislega hlutverki sem fjölmiðlar gegna.

En ég veit ekki hve lengi fyrirtækin mín endast til að ég geti það. Þrátt fyrir fallega tillögu og stundum falleg orð þá fylgir ekki stuðningur máli.

Fjölmiðlarnir sinna sínu hlutverki

Við hjá Austurglugganum og Austurfrétt gengum meira segja svo langt að halda kosningafund í fjórðungnum með fulltrúum allra framboða og kostuðum þar til töluverðum fjármunum, alltént miðað við stærð rekstursins (enda njótum við ekki ríkisstyrkja ólíkt stjórnmálaflokkunum).

Það gerðum við bæði vegna þess að við tökum það hlutverk okkar að ýta undir lýðræðislega umræðu alvarlega, en líka vegna þess að það var trú okkar að stjórnmálaöflin og fjölmiðlar væru samherjar í því markmiði að efla þessa umræðu og að ýta þannig undir aukna kosningaþátttöku. Við höfum orðið á tilfinningunni að við séum heilt yfir skotnari í framboðunum en þau í okkur. Okkur sýnist nefnilega að sum þeirra haldi framhjá okkur!

Það er reyndar ekki alveg sami rassinn undir öllum. Minni framboðin virtust með minni fjárhag sem var dreift ögn meira og hjá VG virðist vera hægt að tala um eitthvað sem heitir kosningastjórn. Við getum ekki kvartað yfir samskiptum og samvinnu þar.

Og svo mætti áfram telja...

Það er reyndar hægt að halda áfram. Yfirkjörstjórn keypti 5,5 síður í síðustu Dagskrá fyrir kosningar að verðmæti 264 þúsund króna, miðað við gjaldskrá. Aðeins ein kjörstjórn á Austurlandi keypti auglýsingu í Austurglugganum en aðrar í Dagskránni, sumar oftar en einu sinni. Áður en bent er á að eðlilegt sé að yfirkjörstjórn kaupi framboðsauglýsingu í miðli sem berist öllum má benda á tvennt.

a) Austurfrétt er miðill sem er opinn öllum og berst alls staðar.
b) Landskjörstjórn keypti auglýsingu í Morgunblaðinu í tveimur vikum fyrir kosningar viku. Það er með mun minni hlutfallslegan lestur heldur en Austurglugginn er með á markaðssvæði sínu.

Við upphæð vikunnar má bæta rúmum 300.000 krónum sem framboðin splæstu í auglýsingar í Dagskránni næst síðustu vikuna fyrir kosningar. Og einhverju þar áður.

Það verður forvitnilegt að sjá hvað kemur út úr samantekt þingnefndarinnar. Eins og fyrr sagði er útlit fyrir að hún verði skipuð sérfræðingum í að beina auglýsingum allt annað en í einkarekna fjölmiðla.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.