Sjálfvíg verður að rannsaka

Á Íslandi eru sjálfsvíg ekki rannsökuð nema að litlu leyti. Sú litla rannsókn sem fer fram í kjölfar sjálfsvígs snýst um að komast að því hvort viðkomandi hafi ekki örugglega tekið líf sitt sjálfur. Alltaf fer fram krufning ef um sjálfsvíg er að ræða en lengra nær rannsóknin ekki og málinu þar með lokað.

Flestir þeir sem missa sína nánustu í sjálfsvígi eru ekki í neinu ástandi til að krefjast nánari rannsóknar, þó að gríðarlegum fjölda spurninga sé ósvarað. Spurningum sem kannski fengjust engin svör við.

Eða hvað? Ef við eigum að geta fækkað sjálfsvígum hljótum við að þurfa að skilja betur aðdraganda þeirra. Hafði viðkomandi leitað sér aðstoðar? Var aðstoð veitt? Kom fram í viðtölum að viðkomandi væri í sjálfsvígshugleiðingum? Voru aðstandendur látnir vita af slíkum hugleiðingum? Var viðkomandi á einhverjum lyfjum og ef svo, hvaða lyfjum? Hvað hafði hann tekið þau lengi? Var viðkomandi háður fíkniefnum eða áfengi? Og svona mætti lengi telja.

Mín tillaga er sú að sett verði á laggirnar rannsóknarnefnd sjálfsvíga sem hafi það hlutverk að kafa ofan í svona mál þannig að hugsanlega getum við séð eitthvað sem við getum lært af og þannig reynt að fækka sjálfsvígum í framtíðinni.

Af hverju erum við með rannsóknarnefndir sem jafnvel eru að rannsaka það sem næstum gerðist? Við gerum það auðvitað til að fækka slysum. Af hverju erum við þá ekki löngu búin að taka upp rannsóknarnefnd sjálfsvíga? Þetta er furðulegt með tilliti til þess að sjálfsvíg eru lang algengasta dánarorsök ungra íslenskra karlmanna. Við missum margfalt fleiri í sjálfsvígum en öllum öðrum slysum á landinu. Samt gerum við lítið sem ekkert.

Við þurfum að taka geðheilbrigðismál í landinu algerlega nýjum tökum. Þessi vinna verður að byrja strax á skólaaldri. Við leysum þessi mál ekki með gegndarlausu pilluáti eins og gert er í dag.

Hugræn atferlismeðferð (HAM) getur hjálpað flestum og ef gripið er í taumana nógu snemma dugar hún oft ein og sér. Slíka meðferð hjá sálfræðingi, geðlæknum eða öðrum þar til bærum aðilum hefur sýnt sig að skilar miklum árangri og oft fullum bata. Samt er svona meðferð sjaldnast í boði hjá heilbrigisstofnunum. Vissulega er þetta tímafrekari aðferð en pilluaðferðin en þegar allir vita að sú aðferð læknar ekki meinið heldur slær bara á einkennin, af hverju er þá sú aðferð nánast sú eina sem í boði er?

Af hverju eru samtalsmeðferðir sálfræðinga ekki hluti af heilbrigiskerfinu? Af hverju þarf fólk með geðræn vandamál að borga sína sálfræðitíma sjálft? Þetta eru oft námsmenn, öryrkjar eða atvinnulaust fólk með alltof litlar tekjur til að hafa efni á að borga 15 þúsund krónur fyrir tíma hjá sálfræðingi, alveg sama hve þörfin er mikil.

Á þessu ári hefur umræða um geðheilbrigismál sem betur fer opnast talsvert og nú fyrir kosningar nefndu flest framboðin þetta í sínum stefnuskrám. En er þetta bara hluti af innantómum kosningaloforðum sem gleymast strax að kosningum loknum? Vonandi ekki.

Þessar þrjár greinar sem ég hef nú skrifað um sjálfsvíg og geðheilbrigðismál mun ég senda næsta heilbrigðisráðherra sem mitt innlegg í bili í baráttunni gegn sjálfsvígum. Það mun ekki færa mér fallega drenginn minn aftur en kannski verður tekið mark á þeim sem hafa lent í þeirri stöðu sem ég er í.

Að lokum vil ég brýna alla sem lesa þessi orð mín til að láta nú náungann sig meira varða. Lítið upp úr snjalltækjunum og reynið að tala meira saman, augliti til auglitis. Gefum okkur tíma til að vinna með börnum og unglingum. Spyrjum hvernig fólki líður. Þorum að bera upp erfiðu spurninguna: „Ertu í sjálfsvígshugleiðingum?“ ef slíkur grunur vaknar. Samkvæmt reynslu Norðmanna segja menn frá ef svona er spurt. Væntanlega er það þannig líka hjá okkur. Við þurfum miklu oftar að fara út úr kassanum okkar en við gerum. Munum líka að það er alveg sama hvaðan hjálpin kemur, ef hún bara kemur.

Með kveðju frá Seyðisfirði
Ólafur Hr. Sigurðsson íþróttakennari

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.