Sjálfstæðisflokkinn öflugan fyrir Austurland: Ástu Kristínu á þing
Í komandi kosningum munum við velja fulltrúa okkar til setu á Alþingi til næstu fjögurra ára. Stefnumál flokkanna eru það sem við tökum mið af hverju sinni, en ekki síður það fólk sem standa á í stafni til að koma stefnumálunum í heila höfn.
Áherslur og forgangsmál Sjálfstæðisflokksins eru skýr. Það á að sækja fram á öllum sviðum atvinnlífsins með því að einkaframtakið fái að njóta sín. Umhverfi atvinnulífsins þarf að efla með skattalækkunum, afnámi gjaldeyrishafta og stuðningi við frumkvöðla og nýsköpun.
Það á að auka ráðstöfunartekjur heimilanna með því að lækka skatta á einstaklinga og álögur á neysluvörur í formi tolla og vörugjalda. Meiri ráðstöfunartekjur heimilinna auka hagvöxt og leiða til þess að fyrirtæki treysta sér til að fara að fjárfesta aftur og störfum mun þá fjölga.
Skuldavanda vegna íbúðarhúsnæðis verður mætt með lækkun höfuðstóls með skattaafslætti og auk þess viljum við gefa einstaklingum kost á að nýta sér séreignarsparnað sinn til að greiða enn frekar niður húsnæðislánin sín, með sama skattaafslætti og nú þegar er til staðar fyrir séreignarsparnað. Þetta leiðir til aukins sparnaðar í formi eigins íbúðarhúsnæðis.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að styrkja innviðina í heilbrigðis- og menntamálum. Þá eru brýn verkefni í samgöngumálum baráttumál flokksins og þau eru ekki síst hér á Austurlandi. Þingmenn flokksins munu leggja allt sitt afl í að berjast fyrir okkar hagsmunum í þessum málaflokkum.
Fólkið sem við bjóðum fram er öflugt og með víðtæka reynslu af þátttöku í atvinnulífinu og stjórnmálum. Kristján Þór er öflugur leiðtogi listans okkar hér í Norðausturkjördæmi. Hann hefur víðtæka reynslu af sveitarstjórnarmálum og setu á Alþingi. Hann hefur sýnt það í störfum sínum að hann beinir kröftum sínum að þeim málum sem skipta okkur íbúa þessa kjördæmis mestu máli.
Valgerður Gunnarsdóttir sem skipar annað sætið á rætur sínar í jarðvegi okkar hér í kjördæminu og hefur starfað að sveitarstjórnarmálum og rekið opinbera stofnun. Hún þekkir jafnframt einkarekstur af eigin raun.
Ásta Kristín Sigurjónsdóttir skipar þriðja sætið á listanum og er þá jafnframt í baráttusætinu. Ásta Kristín er öflugur einstaklingur sem ber hagsmuni okkar Austfirðinga fyrir brjósti, enda á hún hér rætur sínar. Hún þekkir vel til í öllu kjördæminu en ekki síst hér á Austurlandi þar sem hún hefur starfað að atvinnuþróunarmálum hjá Þróunarfélagi Austurlands, nú Austurbrú.
Það skiptir Austurland öllu máli að hafa öfluga talsmenn og baráttufólk á Alþingi. Við skulum því sameinast í því að tryggja Ástu Kristínu þingsæti.
Höfundur er fyrrv. alþingismaður og skipar 8. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi