Skapar væntanlega 15 ný störf
Ýmsar tillögur Norðausturnefndarinnar virðast ætla að verða að veruleika. Nýsköpunarmiðstöð mun verða sett á fót á Egilsstöðum og Húsavík fyrripart ársins og koma á upp mennta-, menningar- og nýsköpunarsetri á Vopnafirði. Á að veita átta milljónum króna til verkefnisins og ráða í 1,5 stöðugildi. Þá stendur til að ráða einn starfsmann á Seyðisfirði til að samþætta þar ýmiss konar menningarstarfsemi með aðkomu menningarstofnana sem þar eru fyrir.
Þetta kom fram í máli Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á Alþingi í gær, þegar hún svaraði fyrirspurn Arnbjargar Sveinsdóttur þingmanns um framgang hugmynda úr skýrslu Norðausturnefndarinnar. Fram kom hjá Jóhönnu að stutt verði áfram við verkefni Þróunarfélags Austurlands og Alcoa Fjarðaáls um álfullvinnsluverksmiðju á Seyðisfirði. Ekki verður af þeirri hugmynd að efla heilabilunardeild Heilbrigðisstofnunar Austurlands á Seyðisfirði vegna fjárhagsvanda stofnunarinnar.
Norðausturnefndin lagði sautján verkefni til grundvallar á Norður- og Austurlandi og áttu þau að skapa 19,5 stöðugildi. Útlit er fyrir að í reynd verði þau 15.