Skilar menntun sér í launaumslagið?

Eftir að hafa séð neikvæð viðbrögð við því að sautján konur og einn karlmaður skipa lista VG í Fjarðabyggð í komandi sveitarstjórnarkosningum verður mér hugsað til þess hvort það halli orðið á karlmenn og þá hvar? Barátta íslenskra kvenna fyrir jafnrétti, virðingu og jöfnum kjörum á enn fullan rétt á sér eins og glöggt má sjá í greininni Konur hafa aldrei verið í meirihluta í Fjarðabyggð.

Í daglegu lífi er misrétti kynjanna enn mjög áberandi á Íslandi og ef rýnt er í tölur frá Hagstofunni varðandi konur í sveitarstjórn og konur á þingi á síðustu tuttugu árum þá má enn sjá talsverðan mun á kynjunum, körlunum í hag og ljóst er að baráttan fyrir jöfnum kjörum er ekki komin á þann stað að öll kyn standi jöfn.

Á síðustu áratugum hafa ungar stúlkur gert sér grein fyrir þessum ójöfnuði og því líklega verið meðvitaðar um mikilvægi þess að mennta sig, því menntun eykur jú líkurnar til virðingar og velgengni í lífinu. Sem betur fer er aðgengi allra kynja að námi gott og nú er svo komið að fleiri konur útskrifast úr háskólum á Íslandi en karlar sem hefur í umræðunni verið talsvert áhyggjuefni, eðlilega.

Í gögnum Hagstofu Íslands kemur fram að árin 2018-2020 voru konur rúmlega 65% allra sem brautskráðust úr háskólum á Íslandi. En hverju skilar þessi aukna menntun kvenna, því á sama tíma eru níu af tíu tekjuhæstu Íslendingunum karlmenn samkvæmt hátekjulista Stundarinnar 2021 fyrir árið 2020.

Þegar skoðaðar eru tekjur einstaklinga í Fjarðabyggð 2021 eru karlar í fyrstu 40 sætunum en ef litið er til efstu 150 einstaklingana eru ellefu þeirra konur. Með öðrum orðum, af 150 tekjuhæstu einstaklingum Fjarðabyggðar eru 7% þeirra kvenkyns. Það vekur síðan upp þær spurningar hvort að aukin háskólamenntun kvenna sé ekki að skila sér hátekjustörfum og hvers vegna það sé? Launajafnrétti kynjanna er eitt af brýnustu málefnum okkar í VG í Fjarðabyggð.

Höfundur skipar 13. sæti á lista VG í Fjarðabyggð.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar