Skólastarf og framtíðin

Við lifum á spennandi tímum. Það er hafin ný iðnbylting sem mun hafa mikil áhrif á líf okkar. Gervigreind, sjálfvirkni og sítenging við netið munu hafa veruleg áhrif á daglega tilveru okkar og störf á næstu árum.

Við höfum ríka tilhneigingu til að vanmeta áhrif og möguleika tæknibreytinga. Ef einhver hefði sagt mér þegar ég keypti fyrsta farsímann minn árið 1998 að eftir 20 ár yrðu farsímar orðnir 100 sinnum öflugri en tölvan mín og gætu gert það sama og myndavélar, myndbandsupptökuvélar, ferðageislaspilara, sjónvörp, klukkur, GPS tæki, hitamæla, leikjatölvur og margt fleira, þá hefði ég sennilega álitið viðkomandi snarklikkaðan. Sambærilegar breytingar eru framundan, en þær verða jafnvel enn dramatískari.

Eitt af því sem við þurfum að velta fyrir okkur er hvaða hæfni mun þurfa til að ná árangri í samfélagi fjórðu iðnbyltingarinnar. Alþjóðlega viðskiptastofnunin (World Economic Forum), telur að tíu mikilvægustu hæfniþættir í náinni framtíð verði: 1. Getan til að leysa flókin vandamál 2. Gagnrýnin hugsun 3. Sköpunarhæfni 4. Leiðtogahæfni 5. Hæfni í að vinna með öðrum 6. Tilfinningagreind 7. Dómgreind og ákvarðanataka 8. Þjónustulund 9. Samningahæfni 10. Andlegur sveigjanleiki

Hversu vel er núverandi menntakerfi fallið til að undirbúa börnin okkar undir þessa framtíð? Það er stór spurning sem við verðum að íhuga vandlega. Mín skoðun er sú að þótt talsverð jákvæð þróun hafi orðið í skólastarfi síðustu árin þá sé sú þróun ekki hvorki nógu hröð né markviss. Námið þarf að vera sveigjanlegra og í flestum skólum er enn skýr áhersla á hefðbundnar bóknámsgreinar á kostnað list- og verkgreina. Nemendur hafa almennt of lítið svigrúm til að glöggva sig á því í hverju þeir eru góðir, þroska þá hæfileika og elta eigin áhuga.

Það er einnig mikið áhyggjuefni hversu mjög mörgum nemendum líður illa í skóla og hve margir koma ráðvilltir út úr námi. Við þurfum að spyrja okkur hvað við getum gert til að stuðla að bættri líðan nemenda og fyrirbyggja geðræn vandamál. Sveigjanlegra og fjölbreyttara nám er hugsanlega hluti af svarinu, en einnig markviss fyrirbyggjandi fræðsla og aukinn stuðningur við börn og fjölskyldur sem eiga erfitt.

Ekki þarf að fjölyrða um starfsánægju kennara, en þeir eru undir miklu álagi í kerfinu eins og það er í dag. Menntakerfið er fullt af frábæru fólki sem vill helst fá frið og svigrúm til að mennta, hvetja og efla hvern og einn nemanda, en það svigrúm er ófullnægjandi í dag. Það hjálpar ekki til hvað aðalnámsskrá er háfleyg og í lauslegum tengslum við veruleikann. Ég hugsa að hæfniviðmið í 10. bekk væru passleg fyrir einstakling sem er að ljúka BA prófi viðkomandi námsgrein. Ég á persónulega bágt með að skilja hvernig kennarar eiga að byggja þessa hæfni upp eða meta hana hjá öllum börnum sem þeir kenna.

Fjarðalistinn mun leggja til að á komandi kjörtímabili verði hafin metnaðarfull og framsýn endurskoðun á fræðslustefnu sveitarfélagsins í samstarfi við frábært starfsfólk skólanna okkar, foreldra og nemendur. Markmiðið með þeirri vinnu verður að tryggja að við séum að búa börnin okkar sem best undir framtíðina á sama tíma og við aukum starfsánægju kennara og námsgleði barnanna. Við þurfum í sameiningu að spyrja erfiðu spurninganna og hjálpast að við að svara þeim. Börnin okkar eru framtíðin.

Höfundur skipar 2. sæti Fjarðalistans í Fjarðabyggð í komandi sveitarstjórnarkosningum

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.