Skollaleikur í skólamálum
Á 89. fundi fjölskylduráðs 5. desember síðastliðinn, var tekið fyrir mál sem hefur síðan þá reynst með miklum ólíkindum. Meirihluti setti þá fram, án gagna, fullyrðingu um að laus leikskólapláss á Héraði yrðu uppurin innan fárra ára og það yrði að bregðast strax við. Hraðar en gert yrði með byggingu leikskóla á suðursvæði Egilsstaða eins og stendur til á árunum 2027-29. Lausnin á þessum meinta bráðavanda væri fólgin í því að taka húsnæði gamla Hádegishöfða aftur í notkun sem leikskóla.Þegar þetta mál var lagt fram hafði Fellaskóli afnot af húsinu og hafði komið þar fyrir verk- og listgreinum sínum en húsnæðisvandi Fellaskóla og Tónlistarskólans í Fellabæ er raunverulegur. Ekki bara mögulegur heldur er vandinn nú þegar til staðar. Skólahúsið rúmar ekki þá starfsemi sem í honum hefur verið ef verk- og listgreinarnar þurfa að vera þar inni. Ástandið lagaðist til muna þegar Fellaskóli fékk gamla leikskólahúsnæðið til afnota. Rýmra varð um tónlistarskólann á efri hæð skólans. Möguleikarnir til að gera verk- og listnáminu hátt undir höfði voru miklir. Það bar þó þann skugga á að kosta þurfti til nokkrum fjármunum til að tryggja eldvarnir í kringum stærstu trésmíðatækin. Þá breytti notkun gamla Hádegishöfða engu um það aðstöðuleysi sem er fyrir hendi hjá starfsmönnum Fellaskóla, þar er sama hvort um er að ræða kennara, stjórnendur eða sérfræðinga eða hvort talað er um undirbúning, fundi eða viðtöl.
Þegar fundurinn fór fram 5. desember var ekki búið að setja pening í verkið þar sem einhver tvístígandi var í gangi, kannski sem betur fer miðað við framgang meirihlutans í þessu máli. Enginn af meirihlutanum hafði haft rænu á því að það þyrfti að ræða málið við skólastjóra og starfsfólk skólans. Þegar fundurinn hófst hafði skólastjóri ekki verið upplýstur um hvað stæði til. Úr varð, eftir miklar rökræður, að meirihlutinn féllst að ósk minnihlutans um að vandað yrði til verka í þessu og gögnum aflað til að hægt væri að taka vitræna afstöðu og byggja ákvörðunina á staðreyndum en ekki tilfinningum.
Þetta varð til þess að minnihlutinn lét vera að bóka sérstaklega um málið á þeim tímapunkti.
Ákvörðun lýst í upphafi umfjöllunar
Málið var aftur tekið fyrir 9. janúar á 91. fundi fjölskylduráðs eftir að leikskólafulltrúi hafði tekið saman, í samstarfi við starfsmann Umhverfis- og framkvæmdasviðs, mannfjöldaspá og út frá henni metið þörf á auknum leikskólarýmum á Héraði á næstu árum. Aftur hafði verið látið hjá líðast að ræða við stjórnendur Fellaskóla um aðstöðu skólans.
Í upphafi umræðunnar gaf formaður ráðsins það út að umræða um málið myndi engu breyta um niðurstöðu þess. Þetta var áður en leikskólafulltrúi kynnti ráðinu umbeðin gögn. Í þeim voru lágspá, miðspá og háspá yfir þörf á leikskólarýmum á næstu 10 árum. Eingöngu háspáin gaf til kynna þörf á auknum leikskólarýmum á Héraði áður en nýr leikskóli tæki til starfa á suðursvæði Egilsstaða 2029-30.
Út frá þessum upplýsingum hefði verið eðlilegt að láta Fellaskóla í friði með húsnæði gamla leikskólans og tryggja honum fjármagn í nauðsynlegar breytingar til að tryggja eðlilega kennslu verk- og listgreina í húsinu.
Ótti við það sem gæti gerst býr til raunverulegan vanda
Þess í stað skal farið í bútasaum sem byggir á ótta meirihlutans um að kannski verði skortur á leikskólarýmum í náinni framtíð. Þessi hugsanlegi vandi í leikskólastarfi á Héraði skal verða til þess að búa til raunverulegan vanda í grunnskólastarfi í Fellabæ.
Miðað við framboð og eftirspurn á byggingarlóðum sitt hvoru megin við Lagarfljót má ætla að fjölgun verði hraðari á Egilsstöðum en í Fellabæ á næstu árum. Ef svo ólíklega vildi til að kæmi til þess að opna þyrfti deild á gamla Hádegishöfða eru meiri líkur á því að börnin sem þangað færu kæmu frá Egilsstöðum. Kostnaður og tími foreldra við akstur til að fara með börn í leikskólann og sækja yrði umtalsverður. Þess vegna væri betra að horfa til lausna í vistun austan við Fljótið.
Meirihlutinn tók ekki þessum röksemdum og samþykkti bókun en þetta er hluti hennar: „Fjölskylduráð samþykkir að opna gamla Hádegishöfða sem leikskóla, að hluta eða að öllu leyti um leið og þess gerist þörf. Ráðið samþykkir jafnframt að Fellaskóli fái að nýta húsnæðið við gamla Hádegishöfða þar til opna þarf leikskóla þar að nýju. Fræðslustjóra er falið, í samráði við umhverfis- og framkvæmdasvið, að fara í greiningarvinnu á húsnæðisþörf Fellaskóla, þannig að hægt sé að gera fullnægjandi ráðstafanir í húsnæðismálum skólans ef hann missir aðstöðu að hluta eða öllu leyti í gamla Hádegishöfða.“
Á þessum tímapunkti hafði engin vinna farið fram þar sem metið var hvað þyrfti til að Fellaskóli og tónlistarskólinn gætu haldið sínu starfi áfram með sóma í breyttum aðstæðum. Með öðrum orðum: Meirihlutinn var ekki með verðmiða á þessari aðgerð.
Ekkert liggur á
Minnihlutinn reyndi með breytingartillögu að fá meirihlutann til að bíða með þessa afgerandi afgreiðslu þar til greining á húsnæðisþörf skólans væri lokið, en án árangurs. Því varð úr að fulltrúar L-,V- og M- lista bókuðu eftirfarandi: „Það er niðurlægjandi að tíma nefndarmanna og starfsfólks sé varið í að vinna gögn þegar innihald þeirra skipta engu máli í niðurstöðu mála.
Mannfjöldaspár gefa lítið ef nokkurt tilefni til að taka ákvörðun í slíkum flýti. Sú niðurstaða sem meirihlutinn keyrir hér í gegn í trássi við fagsvið og skólastjórnendur býr til fleiri vandamál en henni er ætlað að leysa. Minnihlutinn fer fram á að meirihluti kynni tillögu að breyttri forgangsröðun er snúa að uppbyggingu grunnskóla með áherslu á Fellaskóla á næsta fundi ráðsins en eðlilegra hefði verið að hún lægi fyrir áður en þessi ákvörðun var tekin. Tryggja þarf að skólastarf Fellaskóla verði ekki sett í frekara uppnám og að komið verði í veg fyrir frekari sóun á fjármunum sveitarfélagsins með þeim tvístígandahætti sem hér er boðaður. Liggja þarf fyrir skilgreining á því hversu mörg börn þurfi að vera á biðlista til þess að Fellaskóla sé gert að víkja úr Hádegishöfða. Minnihlutinn telur eðlilegra að leysa mögulegan leikskólavanda frekar en að færa vandamálið annað.“
Það er rétt að bæta hér við að í aðdraganda byggingu nýs leikskóla í Fellabæ var umræðan á þann veg að fyrir utan þörf á fjölgun rýma þá væri vinnuaðstæður nemenda og kennara óboðleg í gamla Hádegishöfða. Nú eru aðstæður greinilega orðnar aðrar og betri eftir að starfsfólk Fellaskóla hefur rifið fatahengi og salerni fyrir leikskólabörn út úr húsinu.
Minnisleysi meirihluta
Fyrr í vetur var metið svo að bregðast þyrfti við plássleysi í leikskólum á Héraði þar sem taka þyrfti inn börn um og upp úr áramótum 2023-24. Ýmsir kostir voru metnir og sæst var á að flytja færanlegt hús frá gamla Hádegishöfða austur fyrir Fljót og setja það niður á lóð Tjarnarskógar við Skógarlönd, og innrétta. Ein röksemdin fyrir þessu í stað þess að hafa opna leikskóladeild „út í bæ“ t.d. á gamla Hádegishöfða eða að Vonarlandi, var sú reynsla sem hlaust af rekstri deildar að Vonarlandi. Starfsfólk var ekki ánægt og upplifði einangrun á stakri starfstöðinni. Önnur rök hnigu að hagkvæmni í starfsmannaþörf sem fólst í því að vera við stóra starfstöð eins og Skógarland er.
Horfið var frá þessari aðgerð þegar starfsfólk Tjarnarskógar mótmælti þeim og stjórnendur fóru þess í stað í tilfæringar á börnum á milli deilda og starfstöðva skólans, þannig að rými skapaðist fyrir börn sem annars hefðu ratað á biðlista í ársbyrjun 2024.
Ég nefni þetta tvennt til að sýna fram á að meirihlutinn man illa hvað starfsfólk leikskólanna segir. Þau vilja ekki vera á litlum, einangruðum eða óhentugum starfstöðvum. Ef kæmi til þess að opna þyrfti leikskóladeild á gamla Hádegishöfða yrði um eina litla deild að ræða þar sem starfsfólk myndi finna til einangrunar frá móðurstofnuninni.
Meirihlutinn hefur heldur ekki hlustað á starfsfólk Fellaskóla og því liggur fyrir sveitarstjórn að taka fyrir á fundi sínum þann 14. febrúar, erindi starfsfólksins sem þau rituðu eftir þessa afgreiðslu fjölskylduráðs. Í erindinu er vinnubrögðum meirihlutans mótmælt harðlega og starfsmenn lýsa yfir reiði og furðu á þessum vinnubrögðum. Aðstöðuleysi skólans er þar lýst og hvernig starfsfólk hefur þurft að aðlaga sig að og gera gott úr stöðunni í gegnum árin. Farið er yfir hvernig skólinn fékk gamla Hádegishöfða og hvernig hann hefur reynst vera lausn á vandanum við verkgreinar. Þar er talað um þá miklu vinnu sem starfsfólk tók á sig við breytingar og flutninga og hringlandahátturinn gagnrýndur. Að lokum skora þau á sveitarstjórn að snúa ákvörðuninni við vegna ófaglegra vinnubragða og óska eftir því að vinna hefjist til að tryggja verkgreinum í skólanum varanlega lausn í samvinnu við stjórnendur og starfsfólk skólans .
Áður hefur komið fram að ekki hefur verið klárað að gera smíðakennsluna eldklára og því vantar upp á að kennsluaðstæður séu eins og best yrði á kosið. Þá hefur ekki verið hægt að sinna heimilisfræðikennslu við skólann þar sem aðstæður hafa ekki verið fyrir hendi. Starfsfólk eygði möguleika á að geta með litlum breytingum tekið upp heimilisfræðikennslu fyrir litla hópa í eldhúsi gamla Hádegishöfða. Þau áform eru nú í uppnámi.
Meirihlutinn hefur lagt upp með að starfsfólk Fellaskóla skyldi gera sér að góðu að nýta gamla Hádegishöfða án þess að hafa nokkrar upplýsingar um hversu lengi það stæði til boða. Ljóst er að til að húsnæðið nýtist sem best þarf að fara í nokkrar framkvæmdir, stjórnendur skólans eru eðlilega ekki viljugir til að fara í fjárútlát fyrir aðstöðu sem er jafn ótrygg og hér er. Meirihlutinn hefur ekki látið uppi hvað þurfi að vera mörg börn á biðlista til þess að Fellaskóli þurfi að skila húsnæðinu. Eins hefur ekkert verið sagt hversu fyrirvarinn yrði langur fyrir starfsfólk skólans ef kæmi til þess að flytja út.
Hvað kostar þetta?
Hér stöndum við því frammi fyrir ákvörðun sem er án kostnaðarmats.
Við vitum ekki hvað kostar að flytja verk- og listgreinarnar út og koma þeim fyrir annars staðar og við vitum ekki hvað það kostar að koma af stað leikskólastarfi í gamla Hádegishöfða.
Á 94. fundi fjölskylduráðs, þann 6. febrúar síðastliðinn, fékk ráðið lauslega kynningu á þeirri vinnu sem stendur yfir af hálfu fræðslustjóra og Umhverfis- og framkvæmdasviðs. Talað var um þrjá kosti fyrir Fellaskóla en ekki upplýst um þá að svo stöddu þar sem greiningar eru ekki búnar.
Sá sem þetta ritar hefur heimildir fyrir því að kostirnir eru í fyrsta lagi að vera áfram í gamla Hádegishöfða þar til skólanum verði vísað út, í öðru lagi að flytja verk- og listgreinarnar aftur í þrengslin í skólabyggingunni og í þriðja lagi að flytja verk- og listgreinar í kjallarann á fjölnotahúsinu í Fellabæ. Verði strax af flutningi verkgreinakennslu úr gamla leikskólanum má telja ljóst að hann mun standa auður í nokkur ár, mögulega fimm ár eða þangað til nýr leikskóli hefur störf árið 2029 á suðursvæði Egilsstaða. Af þessum þrem kostum er augljóst að best væri að vera áfram í gamla Hádegishöfða og bæta aðstöðuna þar. Framtíðaráætlanir gera ráð fyrir viðbyggingu við Fellaskóla en þangað til þarf að nýta gamla leikskólann til kennslu.
Við flutning núna úr gamla Hádegishöfða munu aðstæður Fellaskóla versna og ljóst er að þrýstingur á nýframkvæmdir við skólann mun aukast á meðan gamla leikskólabyggingin mun standa auð. Það er ekki góð meðferð á almannafé.
Að lokum er rétt er að minna á lagaskyldu sveitarfélaga til að halda úti starfsemi grunnskóla í samræmi við aðalnámskrá. Þá hafa skilaboð meirihlutans, með verkum hans, orðið til þess að skapa óöryggi og reiði á meðal starfsfólks Fellaskóla.
Á sama tíma og fjölskylduráð og starfsmenn fræðslusviðs hafa þurft að beina athygli og orku að þessu máli er að skapast raunverulegur vandi með leikskólapláss á Djúpavogi, þar sem stefnir í að fjöldi barna í haust verði meiri en þau pláss sem leikskólinn Bjarkartún rúmar.
Stundum er raunveruleikinn furðulegri en nokkur lygasaga.
Höfundur er fulltrúi Austurlistans í fjölskylduráði Múlaþings.