Skoska leiðin í innanlandsflugi

Innanlandsflug er grunnstoð

Innanlandsflug á Íslandi hefur ávallt verið mikilvægur þáttur í samgöngum á milli landshluta. Sveiflur í fjölda farþega í innanlandsflugi helst mikið í hendur við stöðuna almennt í efnahagslífi landsins og eftir nokkur ár fækkunar farþega er þróunin það sem af er þessu ári aukning upp á að meðaltali 5%.

 

Mikilvægi flugsins hefur á síðustu árum síst minnkað heldur eru kröfur um hraða ferð á milli staða sífellt meiri, meðal annars til þess að auka framleiðni þeirra fyrirtækja sem þurfa á slíkum samgöngum að halda og sinnastofnunum sem vinna á landsvísu. Síðast en ekki síst er krafa íbúa um aukin lífsgæði og aðgengi að ýmissi þjónustu og afþreyingu hvar sem er á landinu sífellt að aukast.


Við hjá Flugfélagi Íslands tökum hlutverk okkar sem lykilaðili í að veita þessa mikilvægu þjónustu mjög alvarlega enda eitt af markmiðum okkar að auka lífsgæði þeirra farþega sem við flytjum, með áreiðanlegum og hagkvæmum en ekki síst markaðsdrifnum flugsamgöngum.

Verðlag skiptir máli

Veigamikill þáttur í þessu samhengi er að sjálfsögðu verðlag þjónustunnar. Ef horft er til síðustu ára þá hefur verðlag á innanlandsflugi haldist í hendur við almennt verðlag í landinu. Eðlilegar kröfur viðskiptavina eru þó að stöðugt sé gert betur og höfum við hjá Flugfélagi Íslands reynt að mæta þeim kröfum með ýmsum afsláttarkjörum til að mæta þörfum ólíkra hópa sem ferðast með félaginu auk hagræðingar sem næst með ýmsum hætti.

Endurnýjun flugflota

Ein stærsta breytingin sem gerð hefur verið í áratugi í innanlandsflugi eru kaup Flugfélags Íslands á þremur Bombardier Q400 flugvélum sem nú er verið að taka í rekstur og leysa þar með af hólmi Fokker 50 vélar félagsins sem þjónustað hafa landsmenn í áratugi með góðum árangri. Þrátt fyrir að vera mikil fjárfesting mun þessi breyting þegar frá líður gera það að verkum að minni þörf verður á verðbreytingum vegna hagkvæmni þessara véla umfram fyrri vélarkost. Aukin sjálfvirkni við bókun og innritun mun síðan á næstunni leiða til frekari hagræðingar og bættrar þjónustu.

Innanlandsflug ódýrara en í nágrannalöndunum

En hvernig ætli verðlag á innanlandsflugi á Íslandi sé í alþjóðlegu samhengi ? Ef horft er til nágrannalandanna í Skandinavíu þar sem að mörgu leyti er um sambærilega þjónustu að ræða þá kemur í ljós að á jafnlöngum flugleiðum í innanlandsflugi er verðlag í Noregi, Svíþjóð og Danmörku almennt mun hærra og í sumum tilfellum margfalt hærra en gengur og gerist hér á landi. Jafnvel þó leiðrétt sé fyrir mismunandi kaupmætti í löndunum er munurinn enn mikill og eru þó flugsamgöngur í þessum löndum í samkeppni við mun betra vegakerfi en við þekkjum og í mörgum tilfellum við niðurgreiddar lestarsamgöngur.

Möguleikar eru til lækkunar fargjalda

Hvað er þá til ráða ef ljóst er að svigrúm flugfélaga til lækkunar á fargjöldum er mjög takmarkað miðað við það sem nú er? Fyrir um ári síðan skilaði starfshópur sem skipaður var af innanríkisráðherra skýrslu um möguleika þess að lækka fargjöld í innanlandsflugi. Ein leið sem hópurinn mælti með var að taka af öll þjónustugjöld sem innheimt eru af flugrekendum. Þessi leið getur skilað um 10-15% lækkun fargjalda að meðaltali og þó að væntingar geti verið um meiri lækkun væri þessi leið gott fyrsta skref. Á fleiri leiðir var bent en þó ekki á þá leið sem Jóna Árný Þórðardóttir framkvæmdastjóri Austurbrúar vakti athygli á í grein sinni í Austurfrétt þann 10. maí. síðastliðinn.

Þar bendir hún á leið sem farin hefur verið í Skotlandi til að koma til móts við íbúa sem treysta á flugsamgöngur á fámennari svæðum landsins. Þessi leið sem gengur undir nafninu Air Discount Scheme for the Highlands and Islands (www.airdiscountscheme.com) veitir íbúum með lögheimili á ákveðnum svæðum rétt til 50% afsláttar af fullu fargjaldi hjá flugfélögum sem taka þátt í verkefninu.

Einföld athugun á verðlagi í Skotlandi hjá Flybe sem er eitt af þeim flugfélögum sem taka þátt leiðir í ljós að fullt fargjald á leiðinni Stornoway til Glasgow sem er um klukkustundar flug er umreiknað um 35.000 krónur aðra leiðina. Sambærileg flugleið hér innanlands er milli Egilsstaða og Reykjavíkur og kostar fullt fargjald aðra leiðina 24.000 krónur. Það er því líkt og í Skandinavíu alla jafnan mun dýrara að fljúga innalands í Skotlandi en hér á landi. Áður nefnd leið gerir hinsvegar mikið til að lækka ferðakostnað íbúa svæðisins en í Stornoway og nágrenni búa um 12.000 íbúar sem er nokkurn veginn sami íbúafjöldi og á öllu Austurlandi.

Boltinn liggur hjá stjórnvöldum

Okkur hjá Flugfélagi Íslands finnst þetta áhugaverð leið sem Skotar hafa farið og myndum gjarnan vilja taka þátt í vinnu með stjórnvöldum til að skoða hvort þessi leið geti ekki verið fær til að lækka ferðakostnað enn frekar í innanlandsflugi.

Höfundur er framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar