Skoska leiðin opnar nýja möguleika
Undanfarið hefur mörgum orðið tíðrætt um „skosku leiðina“ í innanlandsflugi og hvaða áhrif það hefði yrði hún tekin upp hér á landi. Njáll Trausti Friðbertsson, 2. maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi er formaður starfshóps sem falið var að skoða hvernig ná megi fram hagkvæmari rekstri á innanlandsflugi og skilvirkari rekstri flugvalla sem skili sér til neytenda í lægri flugfargjöldum.Í skosku leiðinni felst að ríkið tekur til helminga þátt í farmiðaverði heimamanna, óháð tegund flugfargjalda s.s. netfargjalda eða fríðindafargjalda, á flugleiðum til jaðarbyggða með það að markmiði að auka lífsgæði þeirra sem þar búa.
Engum sem til þekkir dylst að hátt verð á innanlandsflugi hér á landi hamlar því mjög að sá ferðamáti sé valinn af almenningi. Verð á flugi er enda með þeim hætti að t.d. frá Egilsstöðum getur margborgað sig, hafi menn tíma, að fara frekar akandi jafnvel þó menn séu einir á ferð frekar en að greiða fyrir flug fullu verði. Fyrir fjölskyldur er dæmið fljótreiknað enda heyrir það til algerrar undantekningar að þær fljúgi innanlands - nema þá í ýtrustu neyð. Það þekki ég af eigin reynslu.
Reynsla Skota er sú að þessi leið hafi jákvæð áhrif á þau samfélög sem geta nýtt sér hana. Skal engan undra enda hefur farþegum fjölgað á öllum leiðum og fólk flýgur oftar. Þau áhrif sem það hefði á lífsgæði íbúa á landsbyggðinni hér, yrði þessi leið farin, eru margþætt s.s. bætt aðgengi að heilbrigðisþjónustu og félags- og menningarlífi.
Ekki skiptir þó minna máli að með þessari leið opnast nýir möguleikar fyrir ungt fólk sem getur hugsað sér að setjast að á landsbyggðinni til að rækta betur sambandið við fjölskyldu og vini á Reykjavíkursvæðinu, nokkuð sem til þessa hefur reynst mörgum torvelt vegna kostnaðar og hefur latt marga til að flytja. Áfram er gert ráð fyrir að flugfélögin haldi sinni fluggjaldauppbyggingu þ.e. netfargjöldum, fríðindafargjöldum, hoppfargjöldum o.s.frv.
Hér er því á ferðinni mjög áhugaverður valkostur og eitt af helstu stefnumálum sjálfstæðismanna til eflingar byggðar í fjórðungnum kjördæminu er að skoða með hvaða hætti megi útfæra innleiða „skosku leiðina“ þannig að hún falli að íslenskum aðstæðum.
Gauti Jóhannesson, 6. maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi