Skítverk McCarthy veldur usla
Listaverk eftir bandaríska listamanninn Paul McCarthy, annan hönnuða Macy’s í Eiðaskógi, tókst á loft frá lægi sínu á sýningu í Sviss í seinustu viku. Verkið, risavaxinn uppblásinn hundaskítur, felldi rafmagnslínu og braut glugga áður en það lenti í leikskólagarði.
Frá þessu er greint í erlendum blöðum í dag. Verkið, sem heitir Flókinn Skítur (e. Complex Shit) er á stærð við hús. Það á að vera útbúið öryggiskerfi svo það dragist saman í vondu veðri en það virkaði ekki. Snögg vindhviða hóf verkið á loft og bar það 200 metra áður með fyrrgreindum afleiðingum, áður en það fell til jarðar. Verkið stóð við Paul Klee miðstöðina í Berne í Sviss.
Paul McCarthy er einn frægasti innsetningarlistamaður Bandaríkjanna. Hann tók þátt í sýningunni Fantasy Island sem var hluti af Listahátíð í Reykjavík árið 2004 og teygði anga sína austur á land. Í samstarfi við Jason Rhoades gerði hann eftirlíkingu af Macy’s verslunarmiðstöðinni sem stendur í Eiðaskógi auk þess sem líkan af verkinu var sýnt á Skriðuklaustri. Skítur í ýmsum myndum hefur verið honum hugleikið viðfangsefni.