Íslenskt þjóðfélag á tímamótum

Huld Aðalbjarnardóttir skrifar:      Landinn hefur upplifað ótrúlegar sviptingar í efnahagsmálum síðustu misserin, einstaklingar og fyrirtæki eru í mikilli óvissu með sína afkomu auk þess sem ríkis- og sveitasjóðir standa völtum fótum. Þrátt fyrir að við höfum sjaldan staðið frammi fyrir jafn miklum áskorunum í efnahagsmálum og nú er ég sannfærð um að með samstilltu átaki tekst okkur að snúa þróuninni við skref fyrir skref.

huld_aalbjarnardttir_framskn.jpg

 

 

 

En til að svo megi verða er grundvallaratriði að byggja upp traust og trúverðugleika milli landsmanna og kjörinna fulltrúa þeirra á Alþingi og á fjármála- og eftirlitsstofnunum. Leggja verður áherslu á gegnsæ vinnubrögð, heiðarleika, vinnusemi og upplýsta ákvarðanatöku undir merkjum samvinnu og jafnræðis þar sem málefnin eru í öndvegi, landi og þjóð til heilla.

 

Til að verja megi velferðakerfið og heimilin í landinu þarf að vera kraftur og fjölbreytni í atvinnulífinu því er það forgangsmál að styrkja stoðir þess og búa því sanngjarnt umhverfi svo fyrirtækin hafi möguleika til viðhalds og vaxtar. Þar sem Ísland býr yfir ríkulegum auðlindum á náttúru og þekkingu eru möguleikarnir fjölbreyttari en ella en það þarf kjark og þor til að stíga ný spor og veðja á framtíðina. Nú ríður á að vinna hratt og sanngjarnlega að atvinnuuppbyggingu um land allt, nýta möguleikanna og styðja þau verkefni sem sátt er um í byggðarlögunum.

 

Sá byltingarandi sem einkennt hefur þjóðarsálina síðan í haust endurspeglar þau tímamót sem blasa við okkur. Við þurfum að horfa fram á veginn en jafnframt að læra af reynslunni, taka með okkur það sem vel hefur tekist til en að breyta því sem miður hefur farið. Nú verðum við að nýta tækifærið og endurmeta stöðuna á sem flestum sviðum þjóðlífsins. M.a. þarf að skoða hvert við ætlum í efnahagsmálum, hverjar leikreglur atvinnulífsins eiga að vera, hvernig við verjum og styrkjum landbúnaðinn og sjávarútveginn, hvernig við ætlum að haga verndun og nýtingu náttúruauðlindanna, hvernig við ætlum að forgangsraða í velferðakerfinu og samgöngunum og hvar við ætlum að staðsetja okkur í alþjóðasamskiptum og samvinnu. En umfram allt þarf að vanda þau vinnubrögð sem viðhöfð verða við endurmatið, virkja sem flesta til þátttöku og gæta að jafnræði milli einstaklinga og byggðalaga. Þjóðin hefur ekki efni á pólitísku karpi sem engu skilar.

  Huld Aðalbjarnardóttir

 

frambjóðandi í 2.-3. sæti á lista framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir Alþingsikosningar 2009

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar