Íslenskt ríkisfang dugar ekki til

gudmundur_franklin_xg.jpg
Ég fór ungur til náms í Ameríku árið 1986 og  kláraði þar BS gráðu í fjármálafræði. Eftir námið vann ég í meira en áratug á Wall Street  sem bankamaður, en eftir árásirnar á Tvíburaturnana (e.World Trade Center) 11. september 2001,  fór botninn úr verðbréfamarkaðnum og óhug sló í mig. Í lok árs 2002 flutti ég búferlum til Prag í Tékklandi og kom þar upp hótelrekstri sem ég hætti síðan um mitt ár 2009. Ég skráði mig á kjörskrá 1. desember 2008 til þess að geta kosið í alþingiskosningunum vorið 2009, ekki grunaði mig þá að ég myndi sjálfkrafa falla út af kjörskrá  4 árum seinna. 

Söfnun á efnivið endar í pólitík
 
Eftir að flutt var heim til Íslands 2009, settist ég niður við skriftir og fjármálarannsóknir á orsökum íslenska hrunsins og íslensku efnahagskerfi, en ég ætlaði að eyða tímanum hér í ró og spekt og nota hrunið sem efnivið í meistararitgerð mína í alþjóða hagfræði og stjórnmálum við „Charles University in Prague“ (e.Univerzita Karlova v Praze á tékknesku), en ég hafði eitt árunum fyrir hrun meðfram hótelrekstrinum í meistaranámi við þann gamla og góða skóla. Eitt leiddi af öðru og komst ég að því að hér var víða pottur brotinn og þá sérstaklega í fjármála– og stjórnkerfi landsins. Það sem fyllti mælinn hjá mér voru gildishlaðnar yfirlýsingar og ásælni stjórnvalda til þess að semja við Breta og Hollendinga vegna ólögvarða krafna þeirra og kröfu um greiðsluskyldu Íslendinga á Icesave innlánsreikningum Landsbankans sáluga. Ári síðar kemst ég að þeirri niðurstöðu að öll verðtryggð neytenda- og húsnæðislán séu mjög líklega ólögleg eftir að við tókum upp í íslenskan rétt MiFID reglugerð Evrópusambandsins 1. nóvember 2007.  Vegna alls þessa og ótal margra annarra hluta ásamt hvatningu vina minna stofnaði ég stjórnmálaflokkinn Hægri græna, flokk fólksins og þar með kominn í pólitík.
 
Tíminn notaður í að finna lausnir
 
Eftir að hafa komið ítarlegri stefnuskrá á blað (sjá: www.XG.is) á u.þ.b. 2000 blaðsíðum með hugmyndum á lausnum á efnahagsvanda þjóðarinnar, tilkynningu um framboð flokksins til alþingiskosninganna í vor fékk ég nýlega þær fréttir að ég væri ekki kjörgengur. Reglurnar eru mjög flóknar og ruglingslegar enda samdar af fjórflokknum sem hefur verið við völd hér á landi síðastliðin 97 ár með misgóðum árangri. Einkennilegast í öllu þessu þó, er það að vera íslenskur ríkisborgari , dugar ekki til að sinna skyldu sinni sem íslenskur ríkisborgari og taka þátt í lýðræðinu. Íslenskt ríkisfang, langfeðratal aftur í aldir og málefnaleg umræða dugar ekki til þegar fjórflokkurinn er annars vegar. Ég bið alla frambjóðendur Hægri grænna, flokks fólksins innilegrar afsökunar á því að sjá ekki við þessu atriði, en þetta mótlæti eflir mig og nú er ekkert eftir en að ná góðum árangri í komandi alþingiskosningum. Mjór er mikils vísir, merkið X við G, 27. apríl 2013.

Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Hægri grænna, flokks fólksins


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar