Slysahætta í Kambanesskriðum

Guðmundur Karl Jónsson skrifar um vegamál.

179492_63_preview.jpg

Að ósk Kristjáns L. Möller hóf Vegagerðin undirbúning og auglýsingu útboða verkefna á næstu árum í samræmi við gildandi samgönguáætlun og fjárveitingar fyrir árið 2009. Tekin var ákvörðun í nóvember 2008 um að láta öll verkútboð bíða þar til lækkun framlaga til vegamála liggur fyrir og þegar vitað er hver framvinda efnahagsmála verður.

 

Nú blasir við að þetta ár verður annað mesta framkvæmdaár Íslandssögunnar í vegamálum þrátt fyrir 6 milljarða króna niðurskurð útgjalda á árinu 2009. Fram kom í Morgunblaðinu að um 700 milljóna króna tap hafi orðið á vetrarþjónustu Vegagerðarinnar þegar ákveðið var að hætta snjómokstrum á svonefndum G vegum sem eru á Vestfjörðum, þ. e. Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðar, fyrir norðan á Öxarfjarðar- og Lágheiði og á Austurlandi Hellisheiði milli Vopnafjarðar og Héraðs, Mjóafjarðarheiði og Öxi, vegna mikils kostnaðar sem íslenska ríkið forðast eins og heitan eld.

  

Engum kemur á óvart að fjárveitingavaldinu sé nú þvert um geð að henda í þessa snjómokstra fjármunum sem aldrei skila sér og geta hlaupið á fleiri milljörðum króna þegar dæmið heldur áfram. Þessari heildarupphæð væri betur varið í lagfæringar á Hringveginum og fjölmörg styttri veggöng sem leysa samgöngumál litlu sjávarplássanna á landsbyggðinni enn betur en uppbyggðir fjallvegir á snjóþungum svæðum í 500 til 600 m hæð yfir sjávarmáli.

  

Með því að henda áfram ótakmörkuðu fjármagni í fjallvegi í þessari hæð  sökkvum við áfram niður í djúpt fen án þess að oddvitar fortíðarinnar vilji um ókomna framtíð komast upp úr því.

  

Í grein í Mbl. 30. janúar s.l. fullyrti Kristján L. Möller að um 6 til 7 milljarðar kr. yrðu til ráðstöfunar á ný verkefni á árinu  og að val á þeim væri langt komið. Fram kom í grein ráðherrans að fljótlega væri hægt að bjóða út verkefni sem komin hefðu verið á útboðstig, þ.e. kafli í Suðurkjördæmi, á Vestfjarðavegi milli Kjálkafjarðar og Vatnsfjarðar, og nýr vegur milli Vopnafjarðar og hringvegar. Í þessari grein stendur hvergi að Axarvegurinn sé inni á þessari áætlun. Til er kort sem gerir ráð fyrir því að þessi vegur milli Skriðdals og Berufjarðar verði lagður í meiri hæð ofan við brúnna á Hemru, Háuöldu og undir klettunum í miklum halla fyrir ofan Beitivelli.

  

Spurningar hafa vaknað um hvort hægt sé að standa við loforðin sem þingmaður Siglfirðinga í samgönguráðuneytinu gaf fyrir vegaframkvæmdum á ellefu stöðum á landsbyggðinni að loknum Alþingiskosningum árið 2007. Ári áður en efnahagskreppan skall á komu fram efasemdir um að Vegagerðin gæti klárað allar þessar samgöngubætur á þremur árum sem Kristján Lárus lofaði. Afleiðingar efnahagskreppunnar sem engin bjóst við áður en gengið var til kosninga fyrir hálfu öðru ári vekja spurningar um hvort óhjákvæmilegt sé að fresta þessum vegaframkvæmdum eða svíkja öll loforðin sem samgönguráðherra gaf. Minnihlutastjórn sem kemst til valda í skjóli óeirða og pólitískra árása á opinbera embættismenn getur án nokkurs tilefnis ógilt þessi loforð með þeim skilaboðum að henni komi þau ekkert við þegar svarið er, engir peningar til.

  

Svo slæmt er ástandið í samgöngumálum Austurlands að fjallvegirnir í fjórðungnum uppfylla ekki þær nútímaöryggiskröfur sem gerðar eru í dag. Þetta gildir líka um Hvalnes- Þvottár- og Kambanesskriður sem vonlaust er að treysta vegna grjóthruns. Til að losna við slysahættuna á þessu svæði verður að ákveða tvenn göng inn í Stöðvarfjörð sem stytta vegalengdina milli Breiðdalsvíkur og Fáskrúðsfjarðar um 15 til 20 km. Stjórnvöld  verða ásamt kjörnum þingmönnum að fylgja þessu máli eftir í Samgöngunefnd Alþingis og svara spurningum heimamanna. Þessa slysagildru geta íbúar í fjórðungnum ekki endalaust látið bjóða sér þegar mokað er meira en 14 milljörðum króna í hin umdeildu Héðinsfjarðargöng.      

                                                                                                Guðmundur Karl Jónsson, farandverkamaður.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar