Smá um fjölmiðla!

Ég flokkast sennilega undir það að vera fjölmiðlafíkill. Ein sú besta afþreying sem ég kemst í er að fara yfir fréttir hinna ýmsu miðla, liggja í sófanum, spóla til baka og sjá fréttir og fréttaskýringaþætti. Lesa öll blöð og rýna í það sem er að gerast einkum á okkar landi.

Þættir um uppbyggingu fyrirtækja á landsbyggðinni heilla mig og sú tæknibylting sem orðið hefur í starfsgrein svo sem sjávarútvegi, sem leitt hafa af sér hálaunastörf fyrir menntað fólk. Þannig hafa þessi fyrirtæki skapað tækifæri fyrir okkur og afkomendur okkar til að snúa heim á æskustöðvarnar eftir nám, nýta menntun sína og fá laun við hæfi.

Það eru þó ákveðnir miðlar sem eiga ákveðið forgangssæti hjá mér í sófanum. Þar hefur Ríkisútvarpið skorað hæst gegnum árin. Innan þeirrar stofnunar má finna fjölmiðlamenn sem maður getur ekki misst af, enda fólk með mikla reynslu, flytur efnið að fagmennsku og þú veist að fréttin byggir á skotheldum heimildum.

Um nokkurt skeið hefur orðið ákveðin breyting á dagskrárgerð Ríkisútvarpsins. Fram hafa komið þættir sem stjórnað er af fólki, fólki sem hefur sett sig í rannsóknar- og dómarasæti varðandi starfshætti fyrirtækja og einstaklinga. Það er mikilvægt að við sem búum í þessu landi séu vakandi fyrir því að fólkið okkar og fyrirtæki fari að lögum og reglum. Verði uppvíst að lögbrot séu framin, þá er það mín skoðun að okkur beri að tilkynna það til réttra aðila. Við höfum á að skipa fólki sem hefur reynslu og þekkingu á þeim lögum sem Alþingi hefur sett okkur til að starfa eftir, fólk sem löggjafinn treystir til að takast á við lögbrot og fylgja eftir að fólkið okkar og fyrirtæki lúti þeim lagaramma sem settur hefur verið af háttvirtu Alþingi Íslendinga.

Ég hef enga sérstaka skoðun á þeim fjölmiðlum sem reknir eru af einkaaðilum og þeirrar ritstjórnarstefnu. Þeir fjölmiðlar sem byggt hafa umfjöllun sína á efni sem er á gráu svæði samkvæmt lagaramma íslensks réttarkerfis, hafa flestir hverjir ekki orðið langlífir. En fjölmiðill sem rekinn er af opinberu fé og hver skattgreiðandi, þar með ég greiðir um 19 þúsund krónur á ári til að standa undir rekstri hans, þá finnst mér ég geta haft skoðun á dagskrárgerð, hvort sem farið er eftir því eða ekki.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar