Smávinir fagrir – Minning um Skarphéðin G. Þórisson

Þann 9. júlí síðastliðinn barst sú harmafregn að þrír einstaklingar hefðu látist í blóma lífsins í hörmulegu flugslysi við Sauðahnjúka. Samfélagið okkar lamaðist úr sorg, spurningar finna ekki svör og við reynum að skilja hvernig daglegt líf getur haldið áfram sinn vanagang þegar við höfum misst svo mikið.

Ég votta öllum aðstandendum Kristjáns Orra og Fríðu mína dýpstu samúð og sendi þeim ljós og styrk.

Mig langar að minnast með nokkrum fátæklegum orðum vinar míns og félaga til margra ára Skarphéðins G. Þórissonar, líffræðings hjá Náttúrustofu Austurlands.

Ég man fyrst eftir Skarphéðni sem kunningja föður míns hvar hreindýr og íslensk náttúra voru helstu umræðuefnin. Skarphéðni kynntist ég sjálf fyrst í gegnum börnin okkar en elsti sonur minn er jafnaldri tvíburanna Þuru og Indriða og voru þau samferða gegnum leik- og grunnskóla og við foreldrarnir fylgdum þeim þennan spöl eins og gengur. Skarphéðinn kenndi mér á sama tíma í ME og var sérlega ljúfur og skemmtilegur kennari sem náði að miðla til okkar nemendanna af visku sinni á fjölbreyttan hátt og náði þannig að halda okkur við efnið.

Árið 2013-2014 starfaði ég hjá Umhverfisstofnun og deildum við starfsfólk nokkurra stofnanna skrifstofum á Vonarlandi en þá tókst með okkur mikil vinátta. Ást okkar á Íslenskri náttúru og barátta fyrir verndun víðerna landsins tengdi okkur órjúfanlegum böndum en ekki síður brennandi áhugi okkar á lífinu í Afríku. Þau hjónin dvöldust í Malaví árin 2004-2006 þar sem Ragnhildur eiginkona Skarphéðins starfaði á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Sögurnar af dvöl þeirra kynntu bálið í brjósti mínu og seinna heimsótti ég Afríku þrisvar sinnum í tengslum við verkefni um menntun stúlkna og voru ráð og upplýsingar frá Skarphéðni mér ómetanlegar.

Ég vissi aldrei hverju mátti búast við þegar sest var í kaffi með Skarphéðni en sennilega er eftirminnilegast þegar hann rétti mér saman vafin pappír og sagði mér að opna hann varlega. Inni í pappírnum var leðurblaka. Hún hafði borist til landsins með timbri og verið send til hans og þarna sat ég með hana í hendinni. Hann var engum líkur hann Skarphéðinn.

Skarphéðinn var einn af þeim sem hvöttu mig til að taka þátt í stjórnmálum og lagði sitt af mörkum í kosningabaráttu VG í Múlaþingi. Hann sat á lista hreyfingarinnar og vann að stefnu framboðsins með okkur og var mér alltaf innan handar, studdi mig af heilum hug og fyrir það get ég aldrei fullþakkað.

Elsku Ragnhildur Rós og fjölskylda, ég votta ykkur samúð mína og bið góðan guð að vaka yfir ykkur.

Hvíl í friði kæri vinur,
Jódís Skúladóttir

Smávinir fagrir, foldarskart,
fífill í haga, rauð og blá
brekkusóley, við mættum margt
muna hvort öðru að segja frá.
Prýðið þér lengi landið það,
sem lifandi guð hefur fundið stað
ástarsælan, því ástin hans
allstaðar fyllir þarfir manns.

Vissi ég áður voruð þér,
vallarstjörnur um breiða grund,
fegurstu leiðarljósin mér.
Lék ég að yður marga stund.
Nú hef ég sjóinn séð um hríð
og sílalætin smá og tíð. -
Munurinn raunar enginn er,
því allt um lífið vitni ber.

Faðir og vinur alls, sem er,
annastu þennan græna reit.
Blessaðu, faðir, blómin hér,
blessaðu þau í hverri sveit.
Vesalings sóley, sérðu mig?
Sofðu nú vært og byrgðu þig.
Hægur er dúr á daggarnótt.
Dreymi þig ljósið, sofðu rótt!

Smávinir fagrir, foldarskart,
finn ég yður öll í haganum enn.
Veitt hefur Fróni mikið og margt
miskunnar faðir. En blindir menn
meta það aldrei eins og ber,
unna því lítt, sem fagurt er,
telja sér lítinn yndisarð
að annast blómgaðan jurtagarð.

Texti: Jónas Hallgrímsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar