Sýning um ævi og störf Stefáns Einarssonar
Breiðdælingar mega sannarlega vera stoltir af Breiðdalssetri eins og það
er að þróast. Gamla kaupfélagið er orðið menningarhús okkar. Þar fer
fram áhugaverð stafsemi sem sannarlega er allrar athygli verð.
Tilefni þessara skrifa er Málþing um Stefán Einarsson, einn af bestu
sonum Breiðdals, sem starfaði reyndar lengstan hluta starfsævi sinnar í
Bandaríkjunum, sem prófessor við John Hopkins háskólann í Baltimore.
en málþingið var haldið laugardaginn 11. júní og í framhaldi af því
var opnuð sýning um ævi og störf Stefáns.
Auk okkar manns, Páls Baldurssonar sveitastjóra, sem flutti skemmtilegt erindi um uppruna og sterkar rætur Stefáns hér í Breiðdal voru þrjú önnur erindi flutt. Sannarlega fróðleg og skemmtileg erindi, sem þrír landsþekktir vísinda- og fræðimenn fluttu og náðu að hrífa alla viðstadda með í umfjöllun sinni um Stefán og þeirri virðingu sem þeir sýndu merkum störfum hans.
Vonandi rætist sá draumur Vésteins Ólasonar, að Breiðdalssetur gefi út ævisögu Halldórs Kiljan Laxness, sem Stefán skrifaði þegar Halldór var 27 ára og Stefán 5 árum eldri.
Auk Vésteins, sem fjallaði um bókmenntarannsóknir Stefáns fluttu líka erindi Svavar Sigmundsson, sem fjallaði m.a. um frumkvöðlastaf Stefáns varðandi íslenska hljóðfræði og örnefnasöfnun hans og loks Smári Ólason, sem kynnti þjóðlagasöfnun Stefáns og flutti mörg skemmtileg hljóðdæmi úr segulbandsupptökum Stefáns, sem eru ómetanlegur fjársjóður.
Ljóst er að Stefán Einarsson var afkastamikill og vandvirkur vísindamaður sem mér sýnist að hafi ekki verið metinn að verðleikum hingað til.
Óskandi er að glæsileg sýning um ævi og störf Stefáns sem sett hefur verið upp í gamla kaupfélaginu verði til að fleiri kynnist merkum störfum þessa mæta manns.Hönnuðirnir Linda Stefánsdóttir, ættuð frá Breiðdalsvík og Zdenek Paták og Erla Dóra Vogler, verkefnisstjóri Breiðdalsseturs, hafa sett upp glæsilega sýningu og hefur þeim tekist að skapa andrúmsloft hlýju og jafnframt að miðla miklum fróðleik um vísindastörf Stefáns, auk þess sem vandvirkni og ótrúleg elja hans verður hverjum manni ljós. Sýningin sem slík er listaverk.
Ég vil ekki láta hjá líða að lýsa aðdáun minni á höfðingsskap fjölskyldu Stefáns Einarssonar, sem færði Breiðdalssetri til eignar og varðveislu ýmsa muni úr eigu Stefáns, m.a. Guðbrandsbiblíu sem hann fékk í afmælisgjöf á sextugsafmæli sínu, einnig lágmynd af Stefáni eftir Ríkharð Jónsson og servíettuhring þar sem Búlandstindur er grafinn í silfrið og einnig listaverk eftir Stefán, en eins og sést á sýningunni var Stefán afburða teiknari.
Stefán eignaðist ekki börn, en þegar talað er um fjölskyldu hans er átt við afkomendur seinni konu hans, Ingibjargar Jónheiðar Árnadóttur, sem voru margir viðstaddir opnun sýningarinnar í gær.
Ég skora á alla sem lesa þessar línur að skreppa á Breiðdalsvík og skoða þessa fallegu sýningu og sjá í leiðinni margt skemmtilegt sem er að gerast hér hjá okkur, t.d. að kíkja í Kaupfjelagið, sem nú er kaffihús og handverkshús.
Hákon Hansson
Breiðdalsvík