Snúum skipinu við - Ráð fyrir ráðlausa
Brynjar Valdimarsson og Sverrir Garðarsson skrifa: Á Íslandi ríkir neyðarástand. Þetta neyðarástand er ekki sjálfskapað og hverfur því ekki að sjálfu sér. Við þurfum, sem þjóð, að bretta upp ermar og spýta í lófa til að vinna bug á því ástandi sem hefur skapast. Við höfum sogast inn í ákveðna stöðu, þar sem allt okkar frármagn fer í að greiða niður lán sem hafa tvöfaldast, ef ekki þrefaldast, á skömmum tíma. Við höfum ekkert á milli handanna til að lifa á, neysla hefur dregist saman og við stöndum ráðþrota frammi fyrir hrúgu ógreiddra reikninga.
Daglega missa fjölskyldur eignir sínar, atvinnu og stolt og hafa margir þegar flúið land í þeirri veiku von um að grasið sé grænna hinu megin. Með þessu áframhaldi munu þeir íslendingar sem ekki láta bugast sjá fram á endalausa baráttu við arfa og illgresi sem hefur sprottið upp allstaðar. Þreytt og lúin rífum við upp illgresið, en í lok hvers dags sjáum við að í hvert sinn sem við rifum upp arfa með rótum, höfðu þegar tveir aðrir skotið rótum annars staðar í garðinum. Ráðþrota og uppgefin lítum við á stjórnvöld og spyrjum „Hvað er til ráða?“. Við fengjum vafalaust svar, ef völdin í landinu væru ekki of upptekin við að rífast innbyrðis um hvað sé þeirra ferli fyrir bestu. Einhvern veginn gleymumst við í rökræðuhringavitleysunni sem fram fer á Alþingi, Alþingi hefur gleymt heilli þjóð. Hvað er til ráða?
Við áttum okkur flest á því að til að koma okkur upp úr þeirri stöðu sem við erum í í dag þarf drastískar breytingar. Eins og staðan er í dag, sitjum við í kviksyndi skulda og eins og stjórnvöld hafa látið þá erum við hægt og rólega að sökkva í kaf. Björgunaraðgerðir skila litlum árangri þar sem þeir sem rétt hafa hjálparhönd sitja annað hvort með okkur í kviksyndinu eða hafa ekki bolmagn í að rífa okkur upp. Þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) rétti okkur „hjálparhönd“ var þar í raun um bjarnargreiða að ræða. IMF rétti okkur poka fullann af peningum sem mun einungis orsaka það að við sökkvum hraðar niður. Þegar við getum ekki lækkað stýrivexti án þess að fá grænt ljós frá IMF þá hlýtur eitthvað að vera að og vaxtagreiðslur af láninu einu saman eru ekki að gefa okkur aukinn byr undir seglin þar sem skútunni hefur hvolft. Það eina sem hefði átt að koma til greina var að afþakka þetta blessaða lán, en þar sem við höfum þegar tekið við því, er réttast að skila því.
Það er klárlega engin galdralausn að skila láni IMF, meira þarf að koma til. Alþingi þarf að stíga inn og með neyðarlögum festa gengi evrunnar í 90 krónum, sem yrði svo endurskoðað á sex mánaða fresti. Reynslan virðist sýna, að það er jafnan nær ógerlegt að stöðva mikla verðbólgu án þess að festa gengið að minnsta kosti svo lengi sem það tekur verðbólguna að hjaðna. Kostir þess að festa gengið eru augljóslega þeir að það myndi örva erlend viðskipti og fjárfestingu þar sem búið væri að draga úr viðskiptakostnaði og gengisáhættu, og með því glæða hagkvæmni og hagvöxt myndum við hamla verðbólgu.
Auðvitað yrði að fylgja fastagengi Seðlabankans fast eftir og festa það í lögum að brot gegn fastagengi Seðlabankans myndu fylgja harðar refsingar, fangelsisvist í allt að 10 ár gæti dugað. Setja þyrfti á laggirnar sérstaka deild innan efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra sem hefði eftirlit með að gengislögum yrði framfylgt.
Þegar þetta skref hefur verið stigið til fulls höfum við opnað möguleikann á næsta skrefi, sem væri að umbreyta öllum erlendum fasteignalánum yfir í íslenskar krónur. Það yrði gert með lögum. Með þessu myndu lánin lækka umtalsvert og íslenskar fjölskyldur hefðu töluvert meira neyslufé milli handanna og með aukinni neyslu getum við aukið hagvöxt.
Því næst þyrftum við að lækka vísitölu neysluverðs og festa hana með lögum í sex mánuði í senn, auk þess að fella verðtryggingu niður. Með þessu myndum við ná verðbólgu niður og auka hagvöxt enn frekar.
Ef við göngum svona langt, þýðir ekkert að stoppa hér, við höldum taumlaus áfram. Næst á dagskrá væri að festa vexti af lánum. Með því að festa vexti af lánum í 5-7% og endurskoða þá ákvörðun á 6 mánaða fresti, komum við til móts við alla einstaklinga í landinu sem skulda þar sem greiðslubyrði af lánum myndi lækka.
Næst þurfum við að fara í víking og heimsækja nágrannaþjóðir okkar. Færeyingar hafa rausnarlega lánað okkur 50 milljónir Bandaríkjadala en meira þarf til. Nú þurfum við að setja til hliðar íslenska þjóðarrembinginn og falast eftir aðstoð frænda okkar. Ef sendinefndir okkar af lánsvíkingum ber erindi sem erfiði getum við tekið upp Bandaríkjadollar með lánsfé. Dollarinn er mun öflugri en Evran og sést það best á krepputímum þegar Dollarinn styrkist gegn Evrunni. Það er auðveldara að taka upp Dollara en Evru, þar sem ekki þarf að ganga í ESB til að taka upp Dollara, auk þess sem við gætum, ef við kjósum, tekið aftur upp krónuna þegar öldurnar lægja. Ekkert er því heldur til fyrirstöðu að ganga í ESB með Dollara sem gjaldmiðil, sem yrði svo skipt út fyrir Evru.
Hvað á að gera við gömlu bankana?
Nú þegar við höfum gert allt sem upptalið hefur verið sitjum við ennþá með bagga á herðum okkar. Við sitjum uppi með skuldir gömlu bankanna sem er ekki eitthvað sem verður hlaupið frá auðveldlega. Þrátt fyrir það getum við reynt að komast hjá einhverju á siðlegan og löglegan hátt. Fyrir það fyrsta þurfum við að greiða út innistæður þeirra sem áttu fé í gömlu bönkunum. Samkvæmt tilskipun EES er lágmarkstrygging innistæðna 20.887 Evrur sem Tryggingasjóður þarf að greiða út og sem við mælumst til að verði gert. Við höfum ekkert upp úr því að greiða út innistæður að fullu, fyrir utan þá staðreynd að við höfum hreinlega ekki efni á því.
Sú staðreynd að Nýju bankarnir sem tóku við gömlu bönkunum hafi gengist undir allar skuldbindingar þeirra er algjör frásinna. Við þurfum að skilja eins mikið af skuldum og lánum eftir í gömlu bönkunum og við mögulega getum. Því næst er ekkert eftir annað en að keyra gömlu bankana í gjaldþrot eins og svo mörg önnur fyrirtæki. Gjaldþrot er eðlilegasta og hreinlegasta leiðin til að hreinsa skuldir. Forsenda þess að efnahagur virki er sú staðreynd að fyrirtæki fara í gjaldþrot. Ráði fyrirtækið ekki við skuldbindingar sínar er aðeins ein leið út úr því. Við megum ekki færa ónýtar skuldir inn í nýju bankana, heldur þurfum við að aðgreina skuldirnar frá gömlu bönkunum. Nýju bankarnir eru ný fyrirtæki, lítil en sterk. Með brunaútsölu á eignum gömlu bankanna, hvort sem það eru fasteignir eða fyrirtæki, gætum við örvað viðskiptalífið þar sem nýjir fjárfestar með fjármagn koma inn í annars dauðadæmd fyrirtæki og hafa möguleika á því að snúa rekstri þeirra við.
Til að greiða niður þær skuldir gömlu bankanna sem við neyðumst til, þarf gríðarlegt fjármagn. Þetta fjármagn gæti fengist að láni frá íslensku þjóðinni. Með því að loka öllum lífeyrissjóðum og nýta fjármuni þeirra til að greiða niður skuldir okkar gætum við hratt og örugglega komist frá þessari byrði. Á móti gætum við stofnað kennitölureikninga í Seðlabankanum þar sem þessu fjármagni yrði svo skilað, og í millitíðinni myndi fólk greiða lífeyri inn á reikning sinn í Seðlabankanum.
Með ofangreindum aðferðum gætum við náð fram algjörri verðstöðnun í landinu. Með samstöðu verkalýðsfélaga gætum við einnig samið um litlar sem engar launahækkanir næstu misserin eða á meðan að þjóðarskútan nær að rétta við sér. Það er augljóst að hún réttir ekki við sér sjálf, hér þarf grettistak til að snúa skútunni við með handafli og þrautsegju.
Það er augljóst að það verða aldrei allir sáttir við þær aðferðir sem taldar hafa verið upp hér, en þegar 99% af þjóðinni þarf að borga skuldir 1% þjóðarinnar gerum við það ekki þegjandi og hljóðalaust. Að minnsta kosti ekki þegar skuldir þeirra eru svo margfalt hærri en við gætum nokkurn tímann komið okkur sjálf í. Á meðan alþingismenn fara ekki á þing vegna hugsjóna sinna, heldur einungis af valdagræðgi, breytist ekki neitt í þessu þjóðfélagi. Þess vegna ber að fagna nýjum andlitum á þingi, auk þeirra örfáu reynslubolta á þingi sem sitja þar enn af hugsjónarástæðum.
Ísland, nú er bara að láta hendur standa fram úr ermum og takast á við vandamálin! Þau hverfa ekki af sjálfu sér á meðan við fylgjumst með Eurovision eða gleymum okkur í sólinni á Austurvelli. Nú er að duga eða drepast, og ég, fyrir mitt leyti, ætla ekki að gefa upp öndina án þess að streitast á móti!
Því leggjum við til að eftirfarandi verði gert:
Láni frá Alþjóðagjalderyissjóði verði skilað
Gengi Evru fest í 90 krónum næstu 6 mánuði með landslögum
Brot gegn fastagengi Seðlabankans varði lög og sérstök deild innan efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra sjái til þess að þeim lögum verði framfylgt
Öll erlend fasteignalán umbreytt í íslenskar krónur
Vísitala neysluverðs færð niður með lögum og fest í 6 mánuði í senn
Verðtrygging felld niður
Fastir vextir á lánum, 5-7%, endurskoðað á 6 mánaða fresti
Biðja frændþjóðir okkar um lán
Taka upp Dollara með lánsfé frændþjóða okkar
Innistæður gömlu bankana greiddar út upp að €20.887
Gömlu bankarnir keyrðir í gjaldþrot
Loka lífeyrissjóðunum og nýta féð til að greiða upp þær skuldir gömlu bankana sem ekki hverfa við gjaldþrot
Kennitölureikningar stofnaðir í Seðlabanka Íslands þar sem lífeyrir verður þar eftir greiddur
Höfundar:
Brynjar Valdimarsson
Sverrir Garðarsson