Sólargeisli kærleikans

Það er freistandi í dag að tala um fótbolta! Það má segja að strákarnir okkar hafi tekið forskot á sæluna og hafið þjóðhátíðina degi fyrr en áætlað var. Þvílík gleði! Þvílík samvinna og þvílík hvatning fyrir okkur öll.

En mig langar að deila með ykkur persónulegri sögu um samfélagið okkar, um hvatningu og náungakærleika.

Það var snemma kvölds, nokkrum dögum fyrir jól, fyrir þremur árum síðan að dyrabjallan hringdi óvænt heima hjá okkur í Flataselinu. Fyrir utan stóð nágranni minn með stóran poka í útréttri hendinni. „Nei, er jólasveinninn kominn með gjafir“ segi ég í léttum tón og brosi. „Ha, nei, þetta er ekki frá mér“ svarar hann, frekar stuttur í spuna. „Ég var bara beðinn að koma þessu til skila.“

Mikið fleiri urðu orðin ekki og eftir stóðum við hjónin með pokann í höndunum og stórt spurningamerki í framan. Eftir að hafa komið börnunum í rúmið, gættum við spennt að innihaldinu. Þarna voru vissulega jólagjafir sem komu okkur fjölskyldunni afar vel en auk gjafanna voru tugir lítilla snepla af jólapappír sem hverjum og einum hafði verið rúllað upp og bundið um.

Í júní sama ár hafði ég greinst með veirusjúkdóm sem átti eftir að reynast mér erfiður. Ester, dóttir okkar fæddist mánuði síðar og þennan desembermánuð var ég, á þeim tíma eina fyrirvinna heimilisins varla búin að lyfta fingri í hálft ár vegna veikindanna. Allt álag heimilisins lá á herðum Öldu, konunnar minnar, með tvö ungabörn, ungling og sjúkling á heimilinu. Við vissum ekkert hvað var framundan, hvers eðlis veikindin voru og læknar gátu fá svör gefið okkur.

Við fjarlægðum bandið af fyrsta bréfinu, og lásum þau svo eitt af öðru. Allir höfðu gefið sér tíma til að skrifa nokkur orð til okkar og skilaboðin voru öll á sama veg: Þið eruð ekki ein, við stöndum með ykkur, ekki gefast upp. Eitt þeirra var með hluta úr ljóði Hákonar Aðalsteinssonar, sem fangaði innihald bréfanna og hvatninguna vel:

Vökvaðu kærleikans viðkvæmu rós
þá veitist þér andlegur styrkur.
Kveiktu svo örlítið aðventuljós,
þá eyðist þitt skammdegismyrkur.

Það ljós hefur tindrað aldir og ár
yljað um dali og voga.
Þó kertið sé lítið og kveikurinn smár
mun kærleikur fylgja þeim loga.

Láttu svo kertið þitt lýsa um geim
loga í sérhverjum glugga.
Þá getur þú búið til bjartari heim
og bægt frá þér vonleysisskugga.

Með hverju bréfinu sem við opnuðum bættist í tárin á kinnum okkar. Ekki höfðum við gert okkur í hugarlund hversu marga við áttum að, hve margir vildu okkur vel, voru reiðubúin að senda okkur gjafir og síðast en ekki síst, og kannski mikilvægast af öllu, hvatningu í erfiðum aðstæðum, að gefast ekki upp.

Mér hefur almennt gengið mjög vel í lífinu. Á einstaka foreldra og eldri bróðir sem bjuggu mér góða æsku. Hef notið velgengni í námi og vinnu, verið vinamargur og fann mér fullkominn lífsförunaut þegar ég kynntist Öldunni minni. Bara almennt átt gott með að fóta mig í lífinu. En eins og margir, hef ég líka fengið að kynnast erfiðari stigum lífsgöngunnar, þó aldrei áður eins og á þessum tíma þegar ég tapa heilsunni svo skyndilega og án fyrirvara og það hefur verið mér mikill áskorun. Slíkt kennir manni margt. Til dæmis, að það getur enginn gefið mér heilsuna aftur. Alveg sama hvað ég á góða að eða marga vini. Nú eða mikinn pening. Heilsan sem ég hef er það sem ég sit uppi með, ég einn ber alla ábyrgð, þarf að gæta að henni og ef hún brestur, lifa með því sem ég hef, hversu ósanngjarnt eða óréttlátt það kann að vera. Stundum gerast hlutir sem enginn á von á, enginn sér fyrir. Sama hversu vel við höfum lagt okkur fram.

Enginn getur reddað mér, selt eða gefið betri heilsu. En það veit guð að hvatningunni veitir mér ekki af, hún hefur reyndar oft og ekki síst þetta kvöld sem við fengum þessa dásamlegu sendingu, reynst mér ómetanleg. Og ég er alveg sannfærður að það eigi við um okkur öll.

Áður hafði ég fengið að njóta hvatningar frá fjölskyldu og vinum eins og gengur en þarna fékk ég með áþreifanlegum hætti að upplifa hvatningu og hluttekningu samfélagsins sem ég bý í og um það eiga þessi orð mín að snúast. Ekki mig eða veikindi, ekki kringumstæðurnar sem við lendum í heldur um hvað við sem einstaklingar og samfélag, getum gert til að gera lífið bærilegra fyrir þá sem í slíku lenda.

Leiðbeiningar hjálpa mikið. Nám er vissulega mikilvægt og góðar upplýsingar geta verið lífs nauðsynlegar. En þær þarf maður alla jafna bara einu sinni. Hvatninguna hins vegar þurfum við stöðugt og reglulega við næstum allt sem við tökumst á við í lífinu.

Allt frá okkar fyrstu skrefum, til síendurtekinna æfinga til að ná árangri, hvers eðlis sem hann er, að hvaða marki sem við stefnum. Öll höfum við upplifað að vilja hætta, gefast upp. Ég velti fyrir mér hve margir landsliðsmanna okkar sem nú spila fyrir framan allan heiminn á HM eiga stóran hluta árangurs síns og velgengni að þakka stöðugri hvatningu um að drífa sig nú á æfingu, sem líklega hefur hljómað eins og tómt nöldur, eða að gera sitt besta og gefast ekki upp! Og á vellinum voru þeir enn að, stöðugt að hvetja hvorn annan til að halda út, gefast ekki upp og missa ekki trúna á að ná settu marki.

Öll þurfum við hvatningu. Jákvæða hvatningu til góðra verka.

Rétt eins og ástin sem ég ber til Öldunnar minnar, þá dugar okkur ekki að við innsigluðum hana með kossi og hring fyrir 17 árum síðan. Við þurfum að hlúa að henni og minna hvort annað á, helst á hverjum degi til að viðhalda henni og gæta að vexti hennar. Ekkert gerist að sjálfum sér, ekkert verður til úr engu.

Að sama skapi dugði ekki að skrá Davíð son okkar í knattspyrnudeild Hattar við fimm ára aldur og gera svo ráð fyrir að hann yrði efni í landsliðsmann. Það þarf svo miklu, miklu meira að koma til.

Kæru vinir.

Mig langar að mála þennan þjóðhátíðardag fallegum og uppörvandi litum. Það hefði verið við hæfi að hafa það fánalitina í anda tilefnisins, en ég ætla að færa mig aðeins yfir í heitari liti. Rauða litinn held ég í, ekki vegna þess að hann táknar eld, heldur er hann einnig litur kærleikans, ástarinnar. Blöndum hann gulum, lit gleðinnar og útkoman verður appelsínugulur sem er litur hamingjunnar. Fyllum líf okkar af kærleika og gleði, það er góð uppskrift að hamingjusömu samfélagi.

Ég trúi á það góða í fólki ég trúi að við viljum hvort öðru vel. Sú trú er ekki úr lausu lofti gripin, ég hef ítrekað séð það undanfarin misseri í þessu dásamlega samfélagi sem við erum hluti af, þegar við erum tilbúin að leggja langa lykkju á leið okkar, leggja mikið á okkur til þess eins að hjálpa hvort öðru, sýna hvort öðru velvild, samhug og stuðning í orði og verki.

Og hvatning mín er þessi, stöndum saman! Höldum áfram að hjálpast að. Lífið er svo miklu skemmtilegra þegar við erum virkir þátttakendur í samfélaginu, gætum að náunganum, gætum að hvort öðru og gefum öllum færi á að taka þátt.

Mig langar að enda þetta á orðum langömmu minnar, Guðfinnu Þorsteinsdóttur. Orðin eru úr ljóði hennar Lífsreglur sem hún orti fyrir rúmum áttatíu árum og eiga jafn vel við dag eins og þá.

Vertu alltaf hress í huga,
hvað sem kann að mæta þér.
Lát ei sorg né böl þig buga.
Baggi margra þungur er.

Vertu sanngjarn. Vertu mildur.
Vægðu þeim sem mót þér braut.
Biddu guð um hreinna hjarta,
hjálp í lífsins vanda' og þraut.

Treystu því, að þér á herðar
þyngri byrði' ei varpað er
en þú hefir afl að bera.
Orka blundar næg í þér.

Þerraðu kinnar þess, er grætur.
Þvoðu kaun hins særða manns.
Sendu inn í sérhvert hjarta
sólargeisla kærleikans.

Pistillinn var fluttur sem hátíðarræða á 17. júní á Egilsstöðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar