Sérfræðingar að sunnan
Við sem búum út á landi notum stundum hugtakið „sérfræðingur að sunnan“ ýmist skammstafað SAS eða SS. Með því er átt við sérfræðinga á tilteknu sviði sem koma frá Reykjavík út á land í stuttan tíma til að vinna ákveðið verk. Hugtakið er háðsyrði. Það er yfirleitt notað um menn sem heimamönnum þykja ekkert færari en þeir sjálfir. Í versta falli eru þeir það illa kunnugir staðháttum og aðstæðum að þeir klúðra verkinu.
Það hefur án efa hvarflað að einhverjum hvort Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sé nú í þeim hópi. Hann tilkynnti óvænt um helgina að hann hygðist bjóða sig fram í Norðausturkjördæmi í næstu þingkosningum.
Ég þekki ekki ættir Sigmundar Davíðs og get því ekki svarað hvort hann eigi rætur að rekja norður eða austur. (Við erum alltént ekki skyldir nema í áttunda ættlið samkvæmt Íslendingabók!) Hins vegar tel ég víst að hann hafi aldrei búið hér. Hann hefur þó í formannstíð sinni verið nokkuð duglegur að heimsækja kjördæmið og það var að austan sem hvatinn að formannsframboði hans kom árið 2009.
Kjördæmaskipti eru þekkt fyrirbæri, ekki síst úr erlendum stjórnmálum, til dæmis frá Bretlandi og Bandaríkjunum þar sem kosningakerfið byggist á einmenningskjördæmum. Kjósendur geta þannig valið sér fagmenn, atvinnupólitíkusa, til að gæta hagsmuna sinna. Við í Norðausturkjördæmi ættum við að geta glaðst yfir að vera með formenn tveggja stjórnmálaflokka í kjördæminu. Spurningin sem eftir stendur er hversu vel þessir aðilar eru í stakk búnir til að sinna hagsmunum íbúa kjördæmisins.
Vísbendingar eru um að í landsbyggðarkjördæmin sæki í auknu mæli þingmenn með takmörkuð tengsl við viðkomandi kjördæmi. Oft eru þetta þingmenn sem eiga erfitt uppdráttar í stóru höfuðborgarkjördæmunum. Hefur til dæmis einhver spurt af hverju Sigmundur Davíð heldur í norðausturátt frekar en að taka slaginn og reyna að rífa upp fylgi flokksins í Reykjavík?
Vissulega hefur Sigmundur mótframboð. Vissulega gætu bæði eigin flokksmenn og kjósendur hafnað honum. Það er hins vegar ótrúlegt. Sitjandi þingmenn hafa yfirleitt forskot. Innan Framsóknarflokksins eru sérstaklega lítil hefð fyrir að bylta sitjandi þingmönnum, hvað þá formönnum.
Því má halda fram að hreyfingar sem þessar hamli nýliðun. Í stað þess að gefa nýju fólki gott færi á að koma sér ofarlega á lista færa hinir reyndari sig um set. Kannski verður nýliðun samt sem áður en hún verður á öðrum stað en menn reiknuðu með, að þessu sinni í Reykjavík. Nýliðun gæti líka orðið með því að ný þingstjarna efli fylgi flokksins og dragi fleiri með sér inn í kjördæminu.
Sterkustu rökin með að skipta Íslandi upp í mismunandi kjördæmi er að tryggja að ólíkar raddir heyrist og að færa þingmennina nær sínum kjósendum. Kjördæmaflakk þýðir að þingmenn þurfa að eyða meiri tíma í að tengjast kjósendum sínum, takist það á annað borð.
Vinnubrögð atvinnupólitíkusanna gætu orðið bestu rökin með því að hafa landið eitt kjördæmi. Til hvers að reyna að búa til fjölbreytni fyrir þá sem ekki taka sjálfir fullan þátt í að skapa hana? Við verðum að hafa trú á að við getum sjálf þjálfað upp þekkingu og gætt okkar hagsmuna. Við eigum ekki að þurfa að fá aðra í verkið. Til að gæta okkar hagsmuna þurfum við sérfræðinga að austan.