Staða flugvallarmála á Norðfirði

Flugstoðir og Fjarðabyggð vinna sameiginlega að lausn þeirrar stöðu sem upp er komin á Norðfjarðarvelli eftir að þjónustusamningur milli hlutafélagsin og sveitarfélagsins rann út. Starfsmaður á vegum bæjarins, sem hafði tilskilin réttindi, kaus að halda ekki áfram. Þetta er meðal þess sem fram kemur í svari Helgu Jónsdóttur, bæjarstýru Fjarðabyggðar, við áhyggjum sem lýst var í grein flugstjóra hjá Mýflugi sem Austurglugginn birti í seinustu viku. 

 

 

Í ágætri grein Þorkels Ásgeirs Jóhannssonar, yfirflugstjóra Mýflugs, „Hættulegur sparnaður“ sem nýlega birtist á vef Austurgluggans brýnir hann menn að standa vörð um þá miklu öryggishagsmuni landsbyggðarfólks sem fólgnir eru í tryggu sjúkraflugi.  Hann kveður áhyggjuefni að sparnaður í viðhaldi og þjónustu flugvalla gangi svo langt að sjúkraflugi verði ekki haldið uppi vegna áhættu sem fylgi skorti á þjónustu og aðstöðu.  Jafnframt því sem heils hugar er tekið undir varnaðarorðin í grein Þorkels er ástæða til að leiðrétta þann misskilning „að þeim tveimur starfsmönnum sem um árabil hafa séð um flugvöllinn á Norðfirði hafi verið sagt upp af bænum (Fjarðabyggð) í sparnaðarskyni.“  

Hið rétta er að Norðfjarðarflugvöllur er rekinn á kostnað og ábyrgð ríkisins eins og aðrir flugvellir. Flugstoðir ohf bera fyrir hönd ríkisins ábyrgð á mannvirkjum og rekstri Norðfjarðarflugvallar þ.m.t. að mennta menn til þeirra sérfræðistarfa sem þjónusta við flugvellina er og greiða þeim sem hana annast laun.  Undanfarin ár hefur Fjarðabyggð sinnt tilteknum þáttum í rekstri og umhirðu á Norðfjarðarflugvelli á grundvelli þjónustusamnings við ríkið, m.a. brautarviðhaldi og AFIS þjónustu vegna sjúkraflugs frá vellinum.  Þjónustusamningurinn er runninn út og starfsmaður Fjarðabyggðar sem hefur tilskilin réttindi og hefur gegnt vallarþjónustunni með miklum ágætum undanfarin sjö ár var ekki reiðubúin til að framlengja tímabilið.  Skýring hans er sú að bindingin sem felist í því að þurfa stöðugt að vera tiltækur sé umfram það sem unnt er að búa við til langframa. 

Bæjarstjórn hefur ítrekað ályktað um lykilhlutverk Norðfjarðarflugvallar í heilbrigðisþjónustu og fyrir öryggi þeirra sem sækja þjónustu til Fjórðungssjúkrahúss Austurlands.  Bæjaryfirvöld hafa átt fundi með ráðherrum og forsvarsmönnum Flugstoða til að leggja áherslu á mikilvægi þjónustunnar og fullnægjandi viðhalds vallarins.  Bæjaryfirvöld hafa alla tíð lýst yfir fullum vilja til að leita lausna með Flugstoðum vegna verkefna ríkisins á Norðfjarðarflugvelli.

Ársæll Þorsteinsson umdæmisstjóri Flugstoða á Austurlandi kom á fund bæjarráðs 7. júlí. Þar upplýsti hann að Flugstoðir vinni að lausn málsins.  Endurbætur á flugvellinum hafa verið undirbúnar og munu fara fram í sumar og einnig er verið að leita skipulags til að tryggja að einstaklingar með réttindi geti áfram sinnt þeirri mikilvægu þjónustu sem nauðsynleg er sjúkraflugi á vellinum. Í ljósi þessa fundar treysta bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð því að Flugstoðir sinni áfram þeirri þjónustu við Norðfjarðarflugvöll sem nauðsynleg er til að halda uppi fullnægjandi sjúkraflugi. 

Helga Jónsdóttir 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar