Stefán Már Guðmundsson: Kveðja frá Grunnskóla Reyðarfjarðar
Það var mikil gæfa fyrir Grunnskóla Reyðarfjarðar er Stefán Már Guðmundsson ákvað að ráða sig sem aðstoðarskólastjóra við skólann haustið 2007. Honum fylgdi kraftur og lífsgleði sem hafði smitandi áhrif á alla og fyrr en varir elskuðu allir Stefán Má. Með glaðværð sinni og einlægri hjálpsemi vann hann óðara hugi og hjörtu nemenda og samstarfsmanna. Hann var endalaus uppspretta hugmynda og óstöðvandi í að hvetja til dáða.
Þær eru svo margar ógleymanlegu stundirnar með Stefáni Má, stundir eins og þær er hann leiddi nemendur skólans í halarófu á eftir sér og allir sungu hástöfum skátasönginn „Hey, Balúba!, Hey, hey Balúba hey! Orí orí, ei! Balú, balú, baggasei!“ eða þegar hann fangaði hópinn með sögum af sjálfum sér og hópurinn veltist um úr hlátri.
Allir nemendur heilluðust af Stefáni. Hann var þessi bjartsýna fyrirmynd sem alltaf hafði tíma til hlusta og aðstoða. Sérstaka alúð sýndi hann þeim sem áttu við einhvern vanda að stríða. Fyrir þá var hann endalaus hvatning og uppspretta farsælla lausna.
Stefán Már var ekki aðeins leiðandi í skólanum. Hann var forystumaður í Skólastjórafélagi Austurlands og fljótt varð hann lykilmaður í íþróttastarfinu í Fjarðabyggð þar sem hann leiddi m.a. samstarf yngri flokkanna í knattspyrnu.
Haustið 2013 ákvað Stefán Már að hefja störf við Verkmenntaskóla Austurlands, en tengslin héldust áfram bæði í gegnum skólann, í gegnum íþróttastarfið og stjórnun bæjarins. Það var eins og hann hefði ekkert farið, hann var alltaf einn af okkur svo vel ræktaði hann sambandið við bæði nemendur og starfsfólk skólans.
Það var mikil harmafregn fyrir okkur og samfélagið allt er hann svo alltof, alltof snemma var tekinn frá okkur. Það þyrmdi yfir okkur og söknuður fyllti hugann, en efst í huga var þó þakklæti. Þakklæti fyrir að fá kynnast þessum frábæra manni og fá að njóta leiðsagnar hans. Vilborgu og börnum sendum við samúðarkveðju. Megi góður guð styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum.
Fyrir hönd starfsfólks Grunnskóla Reyðarfjarðar og íþróttamiðstöðvar Reyðarfjarðar,
Þóroddur Helgason fræðslustjóri Fjarðabyggðar.