Stefán Már Guðmundsson: Kveðja frá Þrótti

Á föstudag var Stefán Már Guðmundsson formaður okkar lagður til hans hinstu hvíldar, en Stefán lést þann 13. mars síðastliðin langt, langt fyrir aldur fram. Stefán var vart kominn í gegnum Oddsskarðsgöngin er leiðir hans og stjórnar Íþróttafélagsins Þróttar lágu saman.


Fyrir okkur sem fyrir voru í stjórn félagsins og félagið sjálft var þetta líkt og að vinna stóra pottinn í lottóinu. Stefán Már var eldhugi mikill, það var alveg sama hvað hann tók sér fyrir hendur allt var unnið af krafti og elju, aldrei gefist upp. Ekkert var ómögulegt. Hann bætti líf allra í kringum sig hvar sem hann var. Stefán varð strax mikill Þróttari og allar deildir félagsins voru honum hugleiknar. Stefán kom víða við og skilur eftir sig slóð eftirminnilegra minninga hvarvetna. Hann var ekki fyrir það að miklast af afrekum sínum eða hæfileikum þótt það hafi verið auðvelt og rík tilefni til. 

Þróttur hefur kvatt mikinn félaga. Við erum bæði stolt og hreykin af því að hafa átt slíkan félaga sem Stefán Már var. Fyrirmynd í alla staði. Eins og áður sagði kunni Stefán Már ótal sögur og þekkti næstum alla. Það er því viðeigandi að kveðja þig kæri vinur á einni skemmtilegri af þér sjálfum.

Við héldum aðalfund félagsins fyrir rétt rúmum mánuði síðan. Stefán hafði með harðri hendi náð að innheimtu skýrslur allra deilda og útbúið þessa flottu tæplega fimmtíu blaðsíðna ársskýrslu Þróttar. Það tók Stefán ekki nema nokkrar mínútur að fara yfir skýrsluna enda ekki þekktur fyrir neina lognmollu. Í aðdraganda vinnu skýrslunnar sagðist Stefán hafa rekist á ansi vitrænan og athyglisverðan tölvupóst, hann svaraði tölvupóstinum og hrósaði viðkomandi fyrir góða punkta. Tveimur sekúndum síðar fékk kappinn svo tölvupóst, hann hafði svarað sjálfum sér!
Vilborgu, móður Stefáns, Sævari Steini og öllum hinum fóstursonum hans sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Íþróttafélagsins Þróttar
Eysteinn Þór Kristinsson og Guðlaug Ragnarsdóttir

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.