Stöndum vörð um hálendið
Á dögunum birtust myndir af utanvegaakstri á hálendinu og voru þær satt best að segja hrollvekjandi. Utanvegaakstur er bannaður samkvæmt 1. málsgrein 31. greinar náttúruverndarlaga, með örfáum undantekningum sem þó kveða á um að ekki hljótist náttúruspjöll af.Þó áhrif utanvegaaksturs séu ólík eftir svæðum og aðstæðum má með sanni segja að allt slíkt rask sé alvarlegt. Langtímaafleiðingar á ásýnd og vistkerfi hálendis Íslands koma okkur öllum við.
Hver ber ábyrgðina? Nú er það svo að mismunandi aðilar bera ábyrgð á uppbyggingu, eftirliti og viðhaldi vega á hálendinu en þannig falla t.d. þjóðlendur undir forsætisráðuneytið, jarðir í ríkiseigu heyra undir fjármála- og efnahagsráðuneytið og friðlýst svæði falla undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Umhverfisstofnun fer með eftirlit með framkvæmd laganna og veitir m.a. leyfi og umsagnir skv. ákvæðum þeirra.
Einna áhrifaríkast hefur verið að nota forvirkar aðferðir, nýta landverði til að upplýsa fólk og reyna þannig að hafa áhrif á ferðalanga og koma í veg fyrir skemmdarverk af þeirra völdum sem oft eru framkvæmd af gáleysi eða að fólk áttar sig ekki á reglunum og afleiðingum sem brot á þeim hafa. Þessi aðferð hefur borið mjög góðan árangur í Vatnajökulsþjóðgarði hvar vegalandvarsla hefur verið til staðar þar sem fólk kemur inn fyrir mörk hins friðlýsta svæðis. Einhver okkar hafa t.d. reynslu af því að hafa mætt glaðbeittum landverði við Kreppubrú sem veitir fús upplýsingar um svæðið og minnir á bann við utanvegaakstri. Þannig hefur dregið úr utanvegaakstri innan friðlýsta svæðisins þrátt fyrir mikla fjölgun ferðamanna.
Eitt af því sem við í VG höfum talað fyrir og er að finna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er þjóðgarður á miðhálendi Íslands. Við sjáum hversu miklu máli skiptir að ábyrgðin og eftirlitið eigi heima á einum stað og að hvergi sé um að ræða einskismannsland sem er í frekari hættu á að raskast þar sem enginn ber ábyrgð eða sinnir eftirliti. Það snýst ekki um að banna fólki að ferðast um hálendi Íslands. Það snýst um það að gengið sé um þessa dýrmætu auðlind sem við eigum saman, og er ein af stærri stoðum í okkar efnahagskerfi gegnum ferðaþjónustuna, af virðingu og með sjálfbærum hætti.
Landvarsla var stórefld á síðasta kjörtímabili en hana þarf að efla enn frekar og tryggja á miklu stærra svæði. Stöndum með íslenskri náttúru og nýtum hana af virðingu með hag okkar allra að leiðarljósi.
Höfundur er þingmaður VG í Norðausturkjördæmi