Strandveiðar

Strandveiðar skipta margar sjávarbyggðir verulegu máli og hafa mest vægi og áhrif í þeim byggðum sem teljast viðkvæmar eða brothættar.

Í kjölfar breytinga á lagaumhverfi strandveiða á árunum 2018 og 2019 þegar svæðisskipting strandveiðipottsins var afnumin, hefur skapast verulegt ójafnræði milli landsvæða og byggða. Bent var á gallana strax í upphafi og þó misvægið hafi ekki valdið vanda fyrsta árið hefur ójafnræði milli landsvæða nú vaxið ár frá ári.

Náttúrufar hefur þau áhrif að heppilegasti tíminn til strandveiða er ólíkur milli landsvæða, fyrri hluti tímabilsins hentar að jafnaði best vestra en síðari hlutinn eftir því sem austar dregur. Þegar strandveiðar eru stöðvaðar áður en strandveiðitímabilinu lýkur bitnar það því mjög misjafnlega á byggðum landsins.

Árið í ár er það fjórða í röð þar sem veiðarnar eru stöðvaðar fyrir lok tímabils. Árið 2019 stóðu strandveiðar til ágústloka, 2020 til 19. ágúst, 2021 til 18. ágúst og 2022 til 23. júlí.

Hlutdeild NA svæðisins (C-svæðis) í heildarafla var svipuð á tímabilinu 2009-2017 á en frá því 2018 hefur hlutdeild svæðisins minnkað sem og heildarafli strandveiðibáta á svæðinu. Hlutdeild norður svæðis (B-svæðis) hefur einnig minnkað meðan hlutdeild vestur svæðis (A-svæðis) eykst. Viðbótin í strandveiðipottinn hefur skilað sér á vestursvæðið en ekki annað. Þarna er orðinn til nokkurs konar vítahringur þar sem fleiri bátar flytja sig vestur sem aftur hefur þau áhrif að tímabilið í heild styttist.

Í vetur lagði matvælaráðherra fram frumvarp sem var ætlað að bæta jafnræði á milli svæða við aðgang að þeim aflaheimildum sem eru til ráðstöfunar til strandveiða árlega. Við undirrituð studdum það frumvarp, en því miður náði það ekki fram að ganga.

Það er lágmarks krafa að jafnræði sé innan kerfisins eins og það er hverju sinni. Til þess má eflaust fara fleiri en eina leið, t.d. þá sem lögð var til í frumvarpi ráðherra að pottinum yrði úthlutað á svæði í samræmi við fjölda skráðra báta á hverju svæði. Það mætti líka stinga upp á að úthluta pottinum á þá báta sem skráðir verða til strandveiða að vori. Slík úthlutun gæti aukið svigrúm strandveiðisjómanna til að velja daga og tímabil sem best hentar þeim svæðum þar sem þeir vilja stunda veiðar. Það gengur ekki að halda áfram með kerfið eins og það er núna.

Það er svo önnur umræða hvort heppilegt sé að auka hlutdeild strandveiða í aflaheimildum félagslega kerfisins (5,3% af heildaafla) eða fara aðrar leiðir til að styðja sérstaklega við brothættar sjávarbyggðir.

Höfundar eru þingmenn Framsóknar í Norðausturkjördæmi

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar